Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

"a sort of lacrosse without sticks or basketball with goals instead of baskets."

Þetta er lýsing á handbolta í grein NY Times síðan á laugardag, þar sem verið var að fjalla um íslenska handboltaliðið. Mér finnst þetta bara fyndið :)


Vel heppnuð menningarnótt

Að minnsta kosti fyrir mitt leyti. Ég byrjaði daginn á að skokka 10 km í Glitnis maraþoninu og hljóp þetta á betri tíma en ég átti von á. Endaði á 1:19:04 (1:16:56). Held að tíminn í sviganum sé flögutíminn sem er réttari tími... Ætla að halda mig við þann tíma :-P. Hvílík tilfinning að hlaupa í svona hlaupi. Þetta er eitthvað sem ég geri alveg pottþétt aftur! Ekkert smá gaman þegar íbúar sem búa á leiðinni sem var farin voru í dyragættinni heima hjá sér að berja á trumbur og flauta í flautur og öskra og hvetja okkur áfram. Og á mörgum stöðum á leiðinni voru hópar af fólki að hvetja fólk áfram. Mjög gaman. Og hvílíki sæluhrollurinn sem fór um mig þegar ég sá Lækjargötuna aftur. Þegar ég beygði inn á Lækjargötuna til að taka síðasta sprettinn þá fékk ég þvílíka gæsahúð og sælutilfinning fór um mig alla og þá fékk ég smá bensín til að taka síðasta sprettinn á "ógnarhraða" :-)

Bara æðislegt.

Eftir hlaupið dreif ég mig heim til að taka mig til fyrir brjóstsykursgerðarsýninguna fyrir nammiland.is, í JCI húsinu. Sýningin heppnaðist alveg rosalega vel og viðtökurnar voru framan vonum. Það var gjörsamlega stappað út úr dyrum og færri komust að en vildu! Með dyggri aðstoð Hönnu gerðum við fimm tegundir af brjóstsykri, ég byrjaði á að gera kóngabrjóstsykur, svo gerðum við karamellubrjóstsykur, næst Bismark (hvítur og rauður með piparmyntu), þar á eftir lakkrísbrjóstsykur og að lokum gerðum við "Menningarnótt", dimmbláan jarðaberjabrjóstsykur.

Um kvöldið fórum við Tryggvi út að borða með vinum okkar í tilefni afmælis hans Sigga. Við fórum á mjög flottan stað, Panorama sem er uppi á 8. hæð í gömlu fiskistofunni - hótelinu sem er nýbúið að opna á móti Seðlabankanum. Rosalega flottur staður og VÁ hvað maturinn var góður. Það er sjaldan sem ég hef smakkað svona gott nautakjöt. Það gjörsamlega bráðnaði uppi í mér! Svo skemmdi sko ekki fyrir að fara út á svalir kl. 23 og horfa á geggjaða flugeldasýningu. Hvílíkur endir á sýningunni - ekkert smá flott. Ég er pottþétt til í að gera þetta aftur á næsta ári, fara þarna út að borða og vippa mér bara út á svalir til að horfa á flugeldasýninguna.


Brjóstsykursgerð á Menningarnótt 2008

Viltu sjá brjóstsykur búinn til og fá að smakka?

Á laugardaginn verður Guðlaug frá nammiland.is í húsakynnum JCI við Hellusund 3, 101 Reykjavík. Þar ætlar hún að laga brjóstsykur og leyfa gestum og gangandi að smakka nýgerða, gómsæta mola auk þess sem hægt er að sjá allt ferlið. Heimalagað slikkeri svíkur engann!

Hvenær: Laugardaginn 23. ágúst frá 14:00-16:00
Hvar: JCI Húsinu, Hellusundi 3, 108 Reykjavík
Kostar: 0 kr


mbl.is Búist við 100 þúsund gestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarnótt

Líkt og ég minntist á í færslunni á undan þá verður nóg að gera hjá mér á menningarnótt, 10km um morguninn, brjóstsykursgerð í JCI húsinu um daginn, taka á móti fólki í JCI húsinu og svo afmæli um kvöldið.

Ég vil minna á og benda á þennan áhugaverða dagskrárlið :
Brjóstsykursgerð
Sýnd verður brjóstsykursgerð í JCI húsinu við Hellusund kl. 14:00, 14:30, 15:00 og 15:30 og verður hægt að smakka á nýlagaðri afurðinni :)

JCI er svo með opið hús frá 13 - 22 þennan daginn og verð ég á staðnum frá 14 og eitthvað frameftir.

Sjáumst Wink


Mikið í gangi

Um síðustu helgi var starfsmannaútilega Mentis sem ég sá um að skipuleggja í einu og öllu :) Bara gaman. Þeir sem þekkja mig vel vita að mér finnst fátt skemmtilegra en að skipuleggja viðburði og það var bara gaman að koma þessu öllu saman. Einu "mistökin" sem ég kannski gerði var að vera bara með leiki sem tóku líkamlega á.. þ.e. mikil hlaup o.þ.h. - fórum í pokahlaup, sto, ratleik (þar sem gilti að vera sem fljótastur) og svo í fótbolta með sérstökum gleraugum sem gerði manni erfitt fyrir. En jæja, á milli þessara leikja fékk fólk nú að slaka á og tala saman og skoða svæðið. Allavega ekki of mikil dagskrá :) En þessi útilega var bara snilld og Tryggvi snilldarkokkur gerði góða hluti á grillinu. Partýtjaldinu var tjaldað þrisvar þegar við mættum á svæðið - fyrst þegar við reistum það kom í ljós að þakið var öfugt (stögin voru innan á). Í annað skiptið sem við reistum það kom í ljós hvar súlurnar sem gengu af áttu að vera. En í þriðja skiptið gekk allt upp og reist var fínt 20m2 partýtjald. Á laugardagsnótt þegar flestir voru að fara lögðust allir á eitt og hjálpuðust að við að taka það niður og það var bara enga stund gert. Við vorum svo komin heim um hálftvö-tvö leytið aðfararnótt sunnudags. Já það var barasta alveg ágætt að vakna heima á sunnudag og taka þvílíkan letidag. Annars mæli ég eindregið með Útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn - virkilega flott svæði!

Næstu helgi er svo menningarnótt og ætla ég að taka þátt í henni meira en nokkurntíma áður. Ég ætla að byrja á því að hlaupa 10km í maraþoninu og kl. 14 ætla ég í JCI húsið í Hellusundi 3 og sýna brjóstsykursgerð frá 14-16. Eftir það mun ég svo líklega hjálpa til við veitingasölu o.þ.h. í JCI húsinu. Um kvöldið er svo búið að bjóða okkur í afmæli sem ég mæti líklegast í og er svo planið að enda kvöldið á flugeldasýningunni. Þetta verður alveg frábær dagur - hlakka til :-)


nammiland.is

Allt að verða klárt fyrir Nammiland.is. Nú er hægt að fara á nammiland.is en þar er til að byrja með upplýsingar um hvernig hægt er að skrá sig á námskeið í brjóstsykursgerð. Síðan opnar svo formlega 29. ágúst með pompi og pragt og þá verður hægt að versla allt tengt brjóstsykursgerð þar.

Já, fyrir þá sem ekki vissu þá er ég s.s. að opna heimasíðu þar sem hægt verður að kaupa allt til brjóstsykursgerðar (hráefni, tæki og tól), fá upplýsingar um námskeið, skrá sig á póstlista, nálgast gómsætar uppskriftir o.fl. Mjög spennandi. Ég er þegar búin að halda nokkur námskeið sem hafa heppnast mjög vel og fólki hefur líkað það vel, enda er þetta mjög skemmtileg iðn - og gómsæt.


Clapton, Gay pride og fatamátun

Faðir minn og eiginkona fóru á Eric Clapton á föstudagskvöldið og bauð ég systrum mínum því gistingu það kvöldið svo hjónakornin gætu tekið því rólega og vaknað þegar þau vildu á laugardag. (Nei ég fór s.s. ekki á Clapton). Við systurnar og Tryggvi áttum góða stund hér á föstudagskvöld og á laugardag fórum við systur ásamt Þurý að fylgjast með Gay pride göngunni. Við fundum okkur góðan stað uppi í tröppum hjá Tíu dropum þar sem við sáum ágætlega vel og fylgdumst svo með göngunni fara framhjá okkur. Við röltum svo niður á Arnarhól þar sem við settumst niður og fylgdumst með nokkrum skemmtiatriðum sem ég get ekki sagt að hafi höfðað mikið til mín. Allavega ekki það sem ég sá því við fórum áður en allt var búið. En gangan var ágæt. Ég skilaði svo stelpunum af mér og hélt heim á leið.

Í gærkvöldi gerði ég svo yndilega skemmtilega uppgvötun. Tryggvi var að máta einhver föt til þess að finna út hvað passar á hann þessa dagana og ég ákvað að gera það líka. Og mér til mikillar undrunar var bara alveg heilmikið sem ég komst í og heilmikið sem er stutt í að passi fínt. Ég fór m.a. í jakka sem ég keypti of lítinn og hef aldrei getað hneppt en nú gat ég hneppt honum. Vantar bara örltíð upp á að ég geti farið að vera í honum. Svo var þarna dragt sem mamma gaf mér sem ég hef heldur aldrei getað verið í og það er örstutt þar til ég get farið að vera í henni. Hún var bara pííínulítið þröng núna. Og svo er hvíti jakkinn sem ég keypti í fyrra og hefur alltaf verið svolítið þröngur orðinn rosalega fínn núna! Og flauelsjakkinn sem ég keypti fyrir 3 árum síðan (var fínn þá en hefur verið of lítill síðan) var mjög fínn á mér núna....

Þetta er miklu skemmtilegra heldur en að stíga á vigtina og gerir þetta miklu raunverulegra :-)


Ég verð vitrari með hverjum deginum sem líður

Þar sem ég er farin að hreyfa mig meira og meira þá hlít ég að verða orðin bráðgáfuð á endanum :) Ekki slæmt


mbl.is Líkamsrækt verndar heilann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fuglinn kominn með egg

She-Ra er þokkalega búin að vera á þörfinni undanfarið og við höfum gert eins og stendur í bókinni - hunsað hana þegar hún er að reyna við okkur.. s.s. ekki samþykkt þessa hegðun.

Svo í fyrradag sá ég allt í einu að hún var búin að verpa einu eggi, og í gær var annað egg búið að bætast við. Verður spennandi að sjá hvort fleiri verða búin að bætast í hópinn.

Jú, She-ra er fugl einsamall og hún hefur ekki verið með neinum kalli svo engir ungar eru í eggjunum. Þetta er mjög eðlilegt hjá fuglum og það eina sem við getum gert í þessu er að leyfa henni að vera í mömmuleik, liggja á eggjunum sínum þar til hún fær leið á þeim. Og auðvitað passa upp á að hún sé að fá alla þá næringu sem hún þarf á að halda þar sem mikil orka fer í þessa eggjaframleiðslu. Ef við tækjum eggin strax af henni þá myndi hún bara verpa fleiri eggjum og það getur valdið enn meira orkuleysi og næringarskorti og jafnvel einhverju sem kallast "egg binding" þar sem egg festast í henni.

Svo næstu daga og jafnvel vikur er fuglinn minn í mömmuleik með litlu sætu eggin sín. Vonandi gengur bara allt vel hjá henni og hún fær bara leið á eggjunum og það verður ekkert mál :)


Súludansmær

Þann 8. september mun ég hefja nám í súludansi. Þó ekki til þess að stunda þá iðn á Goldfinger eða öðrum þannig stöðum heldur til þess eins að koma mér í form á skemmtilegan máta :-) Pole fitness er jú það heitasta í dag... en ég hef nú reyndar ekki verið þekkt fyrir að elta það heitasta eða það sem er mest í tísku. Nei þetta er bara svo spennandi plús ég hef einu sinni fengið að prófa (stelpuóvissuferð í vinnunni) og þá sá ég hvað þarf svakalegan kraft í líkamann og vera liðug til þess að gera þetta. Eftir að hafa prófað þetta þá öðluðust súludansmeyjar mína virðingu. Þetta verður heljarinnar púl þrisvar í viku í vetur og með þessu mun ég halda áfram að stunda mitt hlaup.

Hlaupin ganga annars nokkuð vel. Fór t.d. 5km í gær á 38 mín, innifalið í því er upphitun og smá teygjur eftir upphitunina.. Hreyfði mig líka í morgun þar sem ég kemst ekki í hádeginu í dag. Nýtt plan er nefnilega að fara á hverjum degi í hádeginu og svo þegar ég get heima á brettið eftir vinnu (get það t.d. ekki í dag og gat það ekki í gær)..

Ég er bara orðin húkt á hreyfingu :D


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband