Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Prjónaæði og svo Næstum drepin af skilrúmi og viftu

Það mætti halda að það hafi ekkert verið að gerast í mínu lífi síðustu daga og vikur en því er nú alveg fjarri. Það er sko alveg meira en nóg að gera sem er bara gott því þá er jú gaman að lifa :)

Um síðustu helgi fór ég á opið hús hjá JCI þar sem hún Hanna ætlaði að vera að kenna þeim sem vildu að prjóna, en svo vildi til að hún var veik stelpan. Ég lét það nú ekki stoppa mig, sér í lagi þar sem ég var búin að fara í Fjarðarkaup og kaupa mér prjóna og garn. Ég mætti svo í JCI húsið en drengirnir þar þóttust ekki geta kennt mér. Ég fór því að bögglast við að reyna að muna hvernig ætti að fitja upp (ég hef ekki prjónað síðan í grunnskóla) en það gekk eitthvað erfiðlega. Og hvað gera bændur þá? Jú, hringja í mömmu. Ég hringdi í mömmu sem var nú ekki alveg á þeim buxunum að geta lýst þessu fyrir mér. En það skipti ekki máli, því það reddar víst öllu að hringja í mömmu því ég mundi þetta eftir smá samtal við hana :) Mamma reddar öllu.

Ég fitjaði því eitthvað upp, tók mér eina til tvær tilraunir í það og byrjaði svo að prjóna. Prjóni prjóni prjón. Mikið var þetta nú gaman. Á sunnudaginn hélt ég svo áfram og þá var komið að því að hætta. Hmm.. hvernig hættir maður aftur? Jú prófum internetið núna - og eftir örstutta leit á netinu var ég búin að "loka" stykkinu. En áfram hélt ég og prjónaði mér hlýjar og góðar grifflur. Já já - ýmsir annmarkar á þeim en þær eru hlýjar. Það er það sem skiptir mestu máli :) Þegar grifflurnar voru klárar hélt ég áfram á að æfa mig við mismikla lukku. En prjónaæðið er komið í gang og nú er bara að æfa sig meira, kíkja til vinkvenna sem kunna meira og geta kennt mér og prófa einhverjar prjónauppskriftir.

knitting%20tattoo1
Ætli ég verði einhverntíma svona hardcore "knittari"? :-)

En hvað með þetta skilrúm og þessa viftu? Jú ég skal segja það. Í vinnunni er ég í opnu rými sem er stúkað af með skilrúmum. Sem er nú ekkert merkilegt útaf fyrir sig. Hinsvegar er mitt rými og þess sem er við hliðina á mér stúkað sundur með einum stökum skilrúmsvegg - sem er ekki festur við neitt annað. Hann er frístandandi og hefur alltaf verið pínu valtur - eða þannig að það er ekki gott að halla sér upp að honum. En í dag þá var fótunum bókstaflega sópað undan þessum vegg þannig að hann féll kylliflatur niður. Upp við vegginn, mín megin stendur svo vifta á löngum fæti og að sjáfsögðu datt hún líka kylliflöt - og það var viftan sem datt inn í básinn minn, ofan á hinn stólinn í básnum. Ágætt að enginn sat í honum.
Well, ég slapp nú alveg ómeidd frá þessu - enda svosem ekki mikil hætta mín megin þar sem ég er frekar langt frá þessum vegg. Ef ég væri hinsvega veik fyrir hjarta, sem ég er nú ekki, þá hefði maður alveg getað fengið hjartaáfall.

cubicle
Ath - ekki mynd af mínum vinnustað ;-)


Allt frá semí góðum til frábærra tónlistarmanna

Þegar ég horfi og hlusta á lifandi tónlist þá finnst mér það oft skera úr um gæði þeirra tónlistarmanna sem flytja tónlistina. Ég vil oft flokka tónlistarmenn í nokkra flokka.

Sá fyrsti eru lélegir tónlistarmenn. Já bara hreint út sagt lélegir tónlistarmenn sem eiga enga góða diska og eru alveg hrikalegir "live". Sem betur fer verða ekki margir þannig á vegi mínum.

Svo eru það þeir sem eru sæmilegir. Þeir eru jafnvel frábærir stúdíó tónlistarmenn. Diskurinn hljómar vel og því gæti maður flokkað þá undir góða fyrst, en "live" geta þeir ekki neitt. Mikið um þannig tónlistarmenn. Mjög mikið.

Svo eru það góðir tónlistarmenn. Diskurinn hljómar mjög vel og "live" hljóma þeir mjög vel. Jafnvel þannig að "live" útgáfan sé bara nákvæmlega eins og diskurinn (þó þeir séu alls ekki að "mæma"). Það er gaman að fara á tónleika með svona tónlistarmönnum, en það gefur manni oft ekki meira en það sem er spilað af disknum heima í stofu. Nema þeir sem segja skemmtilegar sögur inn á milli og ná að tengjast áhorfendunum. Það er auðvitað frábært. Þessir tónlistarmenn eru ekki eins algengir og þeir sem eru sæmilegir en maður fer oft á tónleika með þessari tegund. Mun oftar en þessum sæmilegu.

Svo eru það eðalflokkurinn. Frábærir tónlistarmenn. Það eru þeir sem gefa út frábæra diska, þeir sem geta spilað diskinn frábærlega vel á tónleikum, en þeir bæta alltaf við einhverju extra góðu og gera það vel. Maður heyrir vel að þetta er ekki nákvæmlega eins og á disknum, því einhverju extra er bætt við. Þeir geta að sjálfsögðu spilað diskinn nákvæmlega eins og gera það stundum, en svo koma lög þar sem allt er lagt fram á borðið og metnaðurinn er þvílíkur. Ég fæ gæsahúð á svona tónleikum. Margir góðir og jafnvel sæmilegir tónlistarmenn reyna að vera í þessum hóp en ættu bara að halda sig í sínum flokki.

Sem dæmi um frábæra tónlistarmenn get ég t.d. nefnt hljómsveitina Muse. Því miður hef ég ekki séð þá spila sjálf en ég hef séð dvd disk með upptöku af tónleikum. Og Vá! Hvílíkir taktar. Hvílíkur snillingur sem hann Matthew Bellamy er (ég þurfti að fletta þessu upp, ég er hrikalega léleg með nöfn). Og þessi rödd.. vá.
Sem dæmi um frábæran íslenskan tónlistarmann get ég t.d. nefnt hann Jón Ólafsson sem píanóleikara. Það sá ég þegar hann spilaði undir þegar Kór Versló og Kór HR (sem ég var í) héldu saman tónleika. Þar spilaði hann nótnalaust, undirleikurinn var aldrei alveg eins en alltaf hljómaði hann jafn æðislega vel og passaði alltaf jafn vel við.

Svo má segja að það sé hægt að hafa milliflokk milli sæmilegra og góðra tónlistarmanna, og svo góðra og frábærra. Það eru tónlistarmenn sem eru góðir, en eru fastir í sama farinu og geta ekkert annað en það sem þeir gera í dag. (Nú eiga örugglega margir sem ég þekki eftir að hneykslast á mér). Stebbi Hilmars er góður tónlistarmaður. Mér finnst hann ekki flokkast sem frábær. Hann er með góða rödd og semur virkilega fallega texta og falleg lög. En mér finnst hann vera fastur í sama farinu. Ég svosem hlustaði ekki á allan jóladiskinn hans en heyrði nokkur lög og fyrir mér voru þetta bara nákvæmlega sömu rólegu melódíurnar og hann gerir alltaf, nema til að gera þetta að jólalögum var búið að bæta við orðum eins og "jól", "gjöf" og fleira í þeim dúr. Ég er ekki að segja að hann fari neitt nálægt sæmilega flokknum, hann er miklu betri en það og er jafnvel nær því að vera á milli góða og frábæra flokksins - og þá nær góða hópnum en þeim frábæra. Mér finnst hann bara alltaf vera að gera það sama, enda er hann góður í því og kannski ætti hann bara að halda sig þar.

Hér enda ég svo á myndbandi með hljómsveitinni Muse. Enjoy.


Nammiland.is opnar verslun

Nú er komið að því, mín fyrsta verslun! Nammiland.is er komið með verslun sem verður opin tvo daga í viku, á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 16-18. Er hún staðsett í Síðumúla 13, 3. hæð og er fyrsti opnunardagur í dag. Ég hlakka virkilega mikið til. Það er eitt að vinna í verslun (sem mér finnst nú gaman) en að vinna í eigin verslun slær allt út :-)

Ég mæli með að þið kíkið á mig í dag þegar búðin opnar til að sjá flottheitin sem eiga bara eftir að verða enn betri :-)

www.nammiland.is


Draugur í tölvunni minni

Jebbs. Í gær var draugur í tölvunni minni. Ég var búin að skrifa alveg heilan heilan helling í gær, setja inn smásögu af "fílsminni" mínu, en svo þegar ég var alveg að verða búin þá bakkaði síðan um einn og þegar ég gerði forward aftur í browsernum þá var auðvitað allur textinn horfinn. Ég náði að skrifa blogg á saumósíðunni því þar er annað kerfi og þar var ég alltaf spurð hvort ég "vildi örugglega fara af síðunni sem ég væri á því ég væri að skrifa texta" og þannig gat ég reddað mér. En á þeim stutta tíma sem ég skrifaði saumóbloggið þá fékk ég skilaboðin upp svona 30-40 sinnum, sem þýðir að browser-inn var að reyna að bakka svona rosalega oft. Og ekki nóg með það þá gerðist þetta líka í online tölvupóstforritinu. Var að skrifa email en svo allt í einu búmm.. komin aftur í inbox-ið. Urr.

Það fyrsta sem mér datt í hug var auðvitað hvort þetta væri browser-inn (Internet explorer) svo ég opnaði Opera browser og byrjaði að blogga. Þar virtist þetta vera í lagi svo ég skrifaði og skrifaði og skrifaði en allt kom fyrir ekki, hann bakkaði líka um eina síðu.

Undarlegt mál já. Prófaði að endurræsa vélina. Það lagar mörg vandamál. En nei, þetta hélt áfram. Talaði við strákana í vinnunni hvort þeir könnuðust við þetta vandamál. Alberti datt strax í hug að þetta gæti verið músin, hvort back hnappurinn á henni væri kannski bilaður (t.d. fastur inni eða eitthvað). Svo ég prófaði að skipta um mús, fór m.a.s. í mús sem er ekki með svona back hnappi. En nei, þetta hélt áfram. Undarlegt mál.

Ég hélt líka fyrst að þetta væri bara tengt við browserinn en svo kom í ljós að svo var ekki því þegar ég var að <varúð nú kemur algjört nördamál> grafa mig í gegnum föll í visual studio (F12-F12) þá var allt í einu eins og smellt væri oft á back hnapp og ég hentist til baka í klasann sem ég var að skoða fyrst. ARGH!

Nú var nóg komið, ég stofnaði verkbeiðni á notendaþjónustuna og sagði þeim að hlæja að mér að vild en þetta væri pirrandi. Þau vita auðvitað ekkert hvað er málið og ekki ég heldur. En ég prófaði enn einu sinni að endurræsa vélina mína í gær áður en ég fór heim og viti menn, þetta hefur ekkert verið að gerast í dag. Vélin hefur alveg verið til friðs. Allavega hef ég náð svona langt í blogginu núna (en ég passa mig samt núna og kópera allan textann mjög reglulega)

Mér dettur því helst í hug að þarna hafi verið stríðinn draugur á ferðinni. Honum hefur örugglega fundist þetta mjög fyndið en ég er fegin að hann er farinn og vona að hann láti ekki sjá sig aftur.

Window_FXvideo_105

I'm a robot

Síminn minn er í einhverju "fokki". Stundum þegar ég hringi þá gerist eitthvað í símanum þannig að ég hljóma eins og vélmenni. Þ.e. kemur svona vélmennahljóð með :P En þetta lagast ef ég skelli strax á og hringi strax aftur. En þetta er soldið fyndið (þó það sé líka pínu pirrandi), sérstaklega þegar ég hlæ. Hverjum finnst ekki gaman að hlæjandi vélmennum?

Eða er ég kannski bara að breytast í vélmenni.

robots_200803283108


Letinni lokið

Jæja þá er letinni lokið og vinnan tekin við á ný. Þvílíkur lúxus sem þetta var á stelpunni þessi jólin. Ég tók mér bara frí alveg milli jóla og nýárs og var að koma aftur til vinnu í dag. Ég held ég hafi sjaldan slappað eins mikið af og gert jafn lítið.

En árið 2008 er nú liðið og fyrir mér var það bara nokkuð gott ár. Meðal þess sem gerðist á árinu var að:

-allnokkur börn fæddust og reið Sunna á vaðið með strák í janúar og fast á eftir kom Vala með stelpu (daginn eftir). Í febrúar kom Páley með strák, í mars kom Freyja með stelpu og í maí kom 10. systkinabarnið mitt í heiminn, Friðgeir Hermannsson. Hmmm..strákur, stelpa, strákur, stelpa, strákur... og svo var Hrönn samstarfskona mín með stelpu í ágúst. Eitthvað munstur?

-Ég var aðstoðarmaður á Dale Carnegie námskeiði og lærði mikið á því og kynntist mörgum góðum konum.

-Ég gekk í JCI þar sem ég hef lært heilan helling og kynnst mörgu fólki, vann Mælskukeppni einstaklinga, var veislustjóri í desember, tók þátt í verkefnum, sótti námskeið, fundi og samkomur og skemmti mér hellings vel.

-Fór soldið til útlanda, fyrst í árshátíðarferð til Amsterdam (algjör snilld), svo á evrópuþing JCI í Finnlandi þar sem ég keppti fyrir Íslands hönd í ræðumennsku (dómaraskandall) og skemmti mér hrikalega vel, og að lokum á landsþing JCI í Danmörku og skemmti mér aftur hrikalega vel.

-Teris tók yfir Mentis og ég fluttist því úr Borgartúni yfir í Hlíðasmára

-Mamma varð sextug, amma varð áttræð, Lára frænka gifti sig, tengdó var fimmtug og Gunnar Þór fermdist

-Ég byrjaði að kenna brjóstsykursgerð og Nammiland.is opnaði formlega. Það var brjálað að gera fyrir jól :-)

-Ég hljóp 10km í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Meira en ég hef nokkurntíma hlaupið á ævinni.

-Átti virkilega góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Takk fyrir árið, hlakka til að takast á við þetta sem var að byrja :-)


Gleðilegt nýtt ár kæru vinir

Og takk kærlega fyrir það liðna.

Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir á árinu sem var að byrja, það eru margir spennandi hlutir framundan og tækifærin óendanleg.

Lifið heil.

happy_new_year


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband