Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

How low can you go

Að líkja eftir klæðnaði og aðbúnaði björgunarsveitanna á sölustöðum. Ja hérna. Sýn þessara aðila er skert af grænum lit seðla.. eða kannski bláum (er ekki fimmþúsundkallinn blár? svo langt síðan ég hef séð svoleiðis.. minn "peninga"litur er gylltur eins og kortið mitt). Siðlaust.

Ég skora á hvern sem les þetta að versla eingöngu við björgunarsveitirnar ef það á að kaupa flugelda á annað borð. Björgunarsveitirnar vinna ofboðslega gott starf og þær þurfa góðan útbúnað ef eitthvað kemur upp á hjá mér eða þér. Hvort sem það er lengst uppi á fjöllum, úti á sjó, uppi á jökli eða hvar sem er þá þarf fólkið að komast þangað á sem skemmstum tíma og vera með góðan útbúnað til að takast á við hvaða vanda sem er til staðar. Ég hef sem betur fer ekki þurft að nýta mér einstaklega góða þjónustu björgunarsveitanna en mér finnst afskaplega gott að vita að ef eitthvað kemur upp á að þetta góða fólk muni bregðast fljótt og örugglega við.


mbl.is Hörð samkeppni í flugeldasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei hefði mér dottið í hug

Að það væri svona vont að byrja að spila á gítar. Kallinn gaf mér þennan forláta (nei ekki forljóta eins og einn ungur drengur misskildi) gítar í jólagjöf og ég er núna með nokkra hljóma á tölvuskjánum (reyndar sjónvarpsskjánum þar sem tölvan er tengd inn í stofu) og er að æfa mig í þeim. Og þar sem ég er algerlega óvön því að spila á gítar þá er ferlega vont að gera gripin. Strengirnir svoleiðis skerast inn í puttana og ég er dofin í fingurgómunum eftir æfingar gærdagsins. En þetta verður nú væntanlega bara á meðan ég er að byggja upp spilafingur.. byggja upp siggið á fingurgómunum. Eftir einhvern tíma verður þetta ekkert mál.. þannig. Verð vonandi ekki svona dofin í fingurgómunum forever.

Eða hvað segja vanir gítaristar? Er þetta ekki örugglega eðlilegt til að byrja með? :)


Gleðilega hátíð öllsömul

Kannski ég bloggi eilítið persónulega núna..

Jólaundibúningurinn gekk vel. Við vorum lítið stressuð hér á Burknavöllunum og var ekki klárað að þrífa og taka til fyrr en á aðfangadag. A þorláksmessu var vitaskuld mest allt skúrað og græjað en Tryggvi var að vinna allan daginn, fyrst uppá Gafl í skötuveislu (og kom heim með smábita handa mér.. namminamm) og svo að hjálpa til í Ecco á Laugavegi. Ég fór í jólaboð til ömmu og svo hittumst við um kvöldið niðri í bæ. Fyrsta skipti sem ég fer í miðbæinn á þollák.

Á aðfangadag var byrjað á að fara með nokkra pakka, klára innkaup (nokkrar nauðsynjavörur) og svo voru þrifin kláruð. Já og síðasta jólaserían sett upp - inni í svefnherbergi. Við vorum svo pollróleg á þessu að ég gleymdi mér og byrjaði ekki að sjæna mig til í framan fyrr en tíu mín í sex. En það hafðist, setti met í að mála mig í framan og var komin fram til að kyssa Tryggva gleðileg jól þegar kirkjuklukkurnar glumdu í útvarpinu.

Maturinn var svo alveg æðislegur. Við vorum með villisveppasúpu í forrétt sem var svo saðsöm að ég átti erfitt með aðalréttinn, sem var þó ekki strax á eftir, en í aðalrétt vorum við með stokkandabringu (veidda á tjörninni í Hfj... eða ekki) með sætum kartöfluteningum og rófuteningum, hátíðarrauðkáli og villibráðasósu. Virkilega gott.
Við vorum svo södd eftir fyrstu tvo réttina að við ákváðum að bíða aðeins með eftirréttinn og hófum pakkaopnun. Við fengum margar fínar gjafir, vorum hissa á hvað það var mikið pakkaflóð miðað við að við færum bara tvö en við viljum þakka öllum fyrir yndilslega fínar gjafir.
Eftir pakkaopnunina fengum við okkur svo þennan dýryndis epla eftirrétt og horfðum á einn House þátt á meðan (já.. svolítið óvenjulegt kannski en okkur fannst það bara fínt)

Eftir eftirréttinn ákváðum við að kíkja í kaffi til pabba og fjölskyldu á Álfaskeiðinu. En á leiðinni til pabba komum við að umferðarslysi, sáum það ekki gerast en vorum bara ca. 40 sek á eftir því. Annar strákur hafði séð þetta og stoppaði og liklega hefðum við ekki tekið eftir því nema af því að hann stoppaði. Jeppi hafði farið framyfir vegrið og oltið og lá rétt fyrir utan veginn, í brekku fyrir neðan, á hvolfi. Við stukkum út, strákurinn sem sá þetta var að hringja á sjúkrabíl. Sem betur fer urðu engin slys á fólkinu en í bílnum var fullorðinn maður með litla dóttur sína, ca. 3 ára gamla. Beltin bjaga!! Þau voru alveg heil á húfi, og vorum við hjá þeim þar til löggan og sjúkrabíllinn kom. Jeppinn var ekki á mikilli ferð þegar þetta gerðist, lenti á einhverjum hálkuletti og hvolfdist yfir vegriðið. Þetta var við brúna sem við keyrum iðulega yfir og undir á leiðinni hem til okkar, fyrsta brúin sem komið er að í Hafnarfirði frá Keflavík. Hann semsagt lenti í brekkunni fyrir neðan vegriðið, rétt áður en komið var á brúnna. Hefði hann verið á meiri ferð hefði ekki verið gott að segja hvort hann hefði oltið niður á veg. En mildi að ekki fór ver og að feðginin voru heil á húfi.

En já, nokkru síðar vorum við komin heim til pabba þar sem systur mínar tóku æstar á móti okkur. Mundu ekki alveg í fyrstu hvað við gáfum þeim en það kom eftir smá upprifjun. Fötin smellpössuðu á þær sem er bara gott, enda keypt í H&M í ágúst :) Þær verða flottar í tauinu þegar þær fara aftur í skólann :)

Á jóladag var það svo bara letin ein, horfðum á tvær bíómyndir og nokkra þætti áður en við dröttuðumst á lappir og fórum í jólaboð til mömmu. Hermann bróðir fékk möndluna enda át hann hálfa skálina hehe ;-)

Ekkert jólaboð í dag, letikastið verður bara tekið á þetta, kannsk farið í konfektgerð og í göngutúr í góða veðrinu og snjónum, og mjög kannski í bíó í kvöld :)

Enn og aftur, Gleðilega hátíð kæru vinir nær og fjær :)


She-Ra

Við erum búin að finna nafn á fuglinn. Við vildum hafa einhverja flotta kvenhetju eða kvensögupersónu í einhverri flottri sögu. Fyrst datt mér í hug Astrópía (líklega vegna þess hvað það er stutt síðan við sáum hana og erum alltaf að sjá auglýsingar). En okkur fannst það frekar flókið nafn fyrir fuglinn til að læra, en svo benti samstarfskona mín mér á að það væri þá hægt að kalla hana Píu. Já, soldið flott. Var samt ekki alveg nógu heilluð af því.

En svo fór ég á stúfana, googlaði kvenhetjur í teiknimyndum og sögum. Fékk upp einhvern lista og leist ekkert á neitt - fyrr en ég rakst á She-Ra, Princess of Power.

Fyrir þá sem ekki vita þá er She-Ra tvíburasystir He-Man. Hún heitir venjulega Adora en hún breytist svo í hetjuna She-Ra sem berst fyrir frelsi Etheria frá Hordunum. Hún á sverðið "Sword of Protection" og hestinn Spirit sem fær vængi þegar hann breytist.

Fyrir þá sem vilja rifja upp hver She-Ra er þá er vídjó hérna:


Bara enga mismunun takk fyrir

Það skiptir engu máli hvort mismunun sé talin jákvæð eða neikvæð, þetta er mismunun. Ég vona að þetta verði ekki tekið upp hér á landi, nóg finnst mér um þá mismunun sem felst í þeim hluta jafnréttisbaráttunnar sem ég er á móti. Að kona sé tekin framfyrir ef tveir jafnhæfir einstaklingar sækja um starf. Eða að ákveðinn fjöldi þingmanna þurfi að vera konur. Ég tel það vera rétt vinnuveitandans að velja á milli.

Ég er á engan hátt með þessum orðum að segja að ég sé á móti jafnréttisbaráttu kvenna. Alls ekki. Ég er kona og auðvitað styð ég jafnréttisbaráttu kvenna fyllilega, þegar mér finnst hún ekki fara út í öfgar. Eins og með þessum kynjakvótum. Þegar ég er að kjósa (raða í lista) þá er ég að kjósa EINSTAKLINGA. Og einstaklingarnir raðast svona upp af ástæðu, flestum leist vel á þennan en ekki hinn. En svo er einn einstaklingur tekinn fram fyrir hinn? Why? Af því að einstaklingurinn er kvenkyns? Þetta kalla ég ekki jafnrétti, þetta kalla ég mismunun. Ekki myndi ég persónulega vilja vera þessi kona vegna þess að þá liði mér illa. Mér fyndist ég ekki verðskulda þetta og fyndist ég ekki vera eins góð og þeir sem voru færðir fyrir neðan mig. Eins ef ég væri ráðin í eitthvað starf bara vegna þess að ég ef af þessu kyni, þá liði mér eins illa. Og fyndist eins og hinir litu á mig sem eitthvað óæðri, ég var bara ráðin fyrir eitthvað prinsipp.

Mér finnst þetta ekki rétta aðferðin við að koma fleiri konum í stjórnunarstöður og á þing. Réttara væri að hafa meiri hvatningu fyrir konur og verðlauna þær konur sem koma sér ofarlega (sem er gert að einhverju leyti) og ég segji aftur, hvetja konur, stappa í þær stálið. Konur geta allt sem þær vilja. Þær vita bara ekki allar af því. Þetta felst meira í hugarfarsbreytingum heldur en reglugerðum og lögum. Að sjálfsögðu hefur réttindabarátta kvenna unnið virkilega gott starf og ég er virkilega fegin því að konur megi kjósa og konur megi vinna og konur megi stjórna fyrirtækjum. Við erum búnar að ná þessum réttindum með harðri baráttu og væntanlega er ýmislegt sem má bæta. En við megum ekki fara yfir strikið. T.d. með því að vilja endilega að konur séu leyfðar í einhverjum kallaklúbbum. Uhh af hverju mega þeir ekki eiga sína kallaklúbba í friði, við getum þá bara gengið í einhverja kvennaklúbba eða unisex klúbba.. Ekki viljum við að þeir ráðist inn í einhverja kvennaklúbba..

En já, ég er tölvunarfræðingur. Stærsti hluti tölvunarfræðinga eru karlmenn eftir því sem ég best veit. Þegar ég hóf nám var stærsti hluti bekkjarins karlmenn. Þó var óvenju mikið um kvenmenn þetta árið og kennararnir og stjórnendur skólans voru afar stoltir af því og ég var virkilega stolt að tilheyra þessum hóp. Árið eftir var ekki eins góða sögu að segja. Þá hófu örfáir kvenmenn nám. Ég veit þó ekki hvernig staðan er í dag.
Ég er líka afskaplega stolt af mínum vinnustað. Fyrir hugbúnaðarfyrirtæki tel ég þetta svolítið óvenjulegt, en rúmlega 50% starfsmanna eru kvenmenn. Ein af ástæðunum fyrir því að ég valdi tölvunarfræðina (þar var margt sem spilaði inní) var að ég fór í kynningu í skólann og það var stelpa sem var að kynna. Þessi stelpa var hvatning fyrir mig, sýndi mér að ég gæti þetta alveg þó ég væri stelpa. Sem er einmitt það sem ég held að sé málið. Breyta ímynum með hvatningu og kynningum og fræðslu. Kannski ætti ég að vera að fara í grunnskólana og kynna tölvunarfræðina fyrir ungum krökkum - hvort sem það eru strákar eða stelpum. Og gera stelpunum grein fyrir því að þetta er ekki bara "strákasport".

En bottom line-ið.. hvort sem það er mismunun kynja, mismunun þjóðflokka eða hvað sem er, þá er hún ekki réttlætanleg. Ég er einstaklingur og vil láta koma fram við mig sem manneskju.


mbl.is Enga jákvæða mismunun hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af fuglafréttum

Ég er orðin svo spennt yfir þessum fuglamálum að ég bara get ekki þagað yfir því. Við vorum búin að ákveða að kaupa eina dísu í Dýraríkinu og búr með, fara svo til Tjörva í Furðufuglar og fylgifiskar (F&F) og kaupa allt dótið inn í búrið og þroskaleikföng og mat og allt sem þarf fyrir fuglinn fyrir utan búrið.
Ég fór til hans eftir vinnu í gær og viti menn, ég var afskaplega heppin en því miður var annar óheppinn í leðinni. Það kom maður inn með dísu sem hann gat ekki haft hjá sér lengur vegna þess að bróðir hans var nýfluttur inn til hans og var með þetta svakalega ofnæmi fyrir dísunni. Þannig að grey maðurinn þurfti að skila fuglinum til baka. En ég græði á því, fuglinn fær nýtt heimili hjá mér :) Þetta er fimm mánaða gamall kvenfugl sem er ræktaður og handmataður af þeim hjá F&F, er á gelgjuskeiðinu eins og Tjörvi sagði og er að fara í það skeið að fella fjaðrir (gerist þegar hún er 6 mánaða). Ég hélt á henni í svolítinn tíma í gær og fékk að klóra henni og klappa. Mjög gæf dísa og var alveg farin að treysta mér þarna. Hann ætlaði að hafa hana hjá sér í 1-2 daga til að siða hana aðeins til aftur og úða hana (með vatni) áður en ég fæ hana. Sem verður seinnipartinn á morgun :) Við Tryggvi fórum og keyptum búr og fundum stað fyrir það, Tryggvi ætlar líka að kaupa kommóðu til þess að hafa undir búrinu og við erum búin að finna því stað, svo förum við á morgun og sækjum litlu dísina okkar og kaupum handa henni þroskaleikföng og mat og allt nauðsynlegt :) Æj hvað ég hlakka mikið til, og okkur báðum :)


Eigum við ekki öll að vera bara allsber

Í framtíðinni verður þetta væntanlega komið svo langt að það verða bara allir allsberir í sundi og á ströndum (sem eru ekki sérstaklega ætlaðar til þess) og á sundlaugarbakkanum erlendis.

Mér finnst þetta nú vera soldið öfga. Hvað með það þó við konurnar séum með einu "tóli" meira sem er kynlífstengt heldur en karlmenn! Erum við þá ekki bara með vinninginn? "Ha ha þú ert bara með eitt tól, við erum með tvö!" (Þrjú ef út í það er farið - tvö brjóst..). Staðreyndin er bara sú að brjóst höfða til karlmanna - ekki bara af því að þau eru alltaf hulin heldur er þetta hormónatengt, geirvörturnar senda víst frá sér einhverja hormóna sem karlar eru vitlausir í. Og svo er það líka vírað í þá frá fornöld að finna það besta handa afkvæmunum sínum (til barnsburða og uppeldis), réttu mjaðmirnar til að fæða börnin og réttu brjóstin til að næra þau fyrstu mánuðina. 

Já, kannski, ef allar konur væru berbrjósta, myndu karlmenn "hætta" að horfa á brjóstin sem kyntákn, verða dofnir fyrir þessu.. en ég held að það gerist seint.

En þær konur sem vilja bera á sér brjóstin út um allt mega svosem alveg gera það mín vegna - ég hef séð allar útgáfur af þeim og er alveg sama þó ég sjái fleiri.


mbl.is Vilja bera brjóstin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr fugl

Við Tryggvi erum nú búin að ákveða okkur að fá okkur nýjan fugl. Við áttum nú reyndar ekkert í þessum sem lést hjá okkur um daginn, litlu systur mínar áttu hann en við vorum búin að vera með hann í nokkra mánuði hjá okkur.

En mér tókst að smita Tryggva af fuglasýkinni (ekki flensunni samt sem betur fer) og hann er æstur í að fá annan fugl inn á heimilið. Ég hafði hugsað mér að við gerðum það bara fljótlega á nýju ári en honum tókst að smita mig til baka í gær þegar við fórum í Dýraríkið að skoða fuglana. Þá var tekin ákvörðun að fá okkur dísarfugl eins fljótt og hægt er. Fyrir þá sem ekki vita hvaða fugl það er þá er mynd hér:


Afskaplega fallegir fuglar og eftir sem við höfum heyrt og lesið, virkilega skemmtilegir og gaman að þjálfa þá. Við ætlum að sækjast eftir eins ungum karlfugli og við getum og handmataðan (þá er hann gæfari og auðveldara að temja). Karlfuglinn á víst að vera hávaðasamari en á móti lærir hann víst fleiri hljóð frá umhverfinu (eins og símhringingar o.fl) heldur er kellingin.

Á næstu dögum verður því athugað hvar sé best að kaupa fuglinn og allt með honum, búr, leikföng og mat. Væri svo skemmtilegt ef við næðum því að kaupa fugl fyrir jól og hafa smá félagsskap yfir hátíðirnar (ekki að mér leiðist að vera ein með Tryggva - þvert á móti).


Hvernig væri nú að njóta jólanna

Ég sagði við sjálfa mig í upphafi jólavertíðarinnar að þessi jól myndi ég ekkert stressa mig upp, gerði allskonar lista til að skipuleggja mig og vera on top of things. Svo allt í einu, þegar við Tryggvi vorum að hjálpast að við að pakka inn tveimur pökkum sem voru á leiðinni út, þá segir hann við mig "Slakaðu nú á Lauga mín, ekki vera svona stressuð". "HA! ég er ekkert stressuð!" segi ég. Jú, ég var víst stressuð, bara áttaði mig ekki á því. Eftir þetta hef ég verið að passa mig eins og ég get. Jú, ég stend mig stundum að því að vera að stressa mig að óþörfu en átta mig og róa mig niður. Brosi og hlæ að sjálfri mér og ruglinu í mér. Raðirnar í búðunum verða ekkert styttri þó ég stressi mig. Og ef ég næ ekki að gera eitthvað fyrir jólin, so be it. Ef ég stressa mig á því sem ég á eftir að gera þá gerir það bara illt verra, ég einbeiti mér ekki eins vel að hlutunum, vinnunni og öðru og gleymi hlutum. Og það er líka bara svo líkamlega slæmt að vera svona stressaður. Magasár, stífleiki í hálsi, baki og öxlum, þreyta. Og hvað gerist svo á aðfangadagskvöld, spennufall. Nei ég ætla sko ekki að lenda í því. Ég ætla bara að taka þetta rólega og slappa af, njóta tímans með honum Tryggva og svo fjölskyldunni.

Kveðja, Lauga rólega jólabarn (sem er búin að vera að hlusta á jólalög síðan í lok október hehe)


mbl.is Fólk beðið um að hemja jólastressið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki að ég hafi verið mikið að leita..

..en ég hef þó lengi velt því fyrir mér hvar endurskinsmerki séu seld því ég sé þau hvergi þar sem þau ættu að sjást. Finnst alveg fáránlegt að þau séu bara seld í apótekum og bensínstöðvum. Ættu auðvitað að vera við kassann í stórverslunum eða á litlum bás nálægt kössunum. Flestir fullorðnir, þar á meðal ég, eru alltof latir við að nota endurskin þegar verið er að ganga úti við í þessu myrkri. Og ég veit ekki hversu oft ég hef lent í því að vera að keyra og það munað litlu að ég sæi ekki þennan sem skaust yfir götuna eða er bara einfaldlega að ganga yfir á gangbraut þar sem er ekki nógu góð lýsing. Fólk sést ekki þó það sé götulýsing (nema hún sé alveg einstaklega góð). En það sést með endurskinsmerki.

Ég fæst ekki til að kaupa og ganga með endurskinsmerki ef ég þarf að gera mér sérferð sérstaklega fyrir það út í apótek eða inn á bensínstöð sem ég fer aldrei inná (versla bensín á ódýrari sjálfsafgreiðslustöðum, 3 kr afsláttur með bensínfrelsi.. eigum við að ræða það eitthvað?). Ekki vegna þess að ég vil alveg endilega ekki sjást í umferðinni heldur bara einfaldlega vegna þess að ég er með stórfelldan minnisleka. En ég hef oft hugsað á kassanum í bónus/hagkaup/samkaup/fjarðarkaup að ef það væri nú endurskinsmerki við kassann þá myndi ég mjög líklega grípa þannig.


mbl.is Endurskinsmerki lítt sýnileg í verslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband