Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Ætli einhver hafi ýtt á vitlausan takka?

Það kom flökt á rafmagnið hjá okkur í Borgartúninu (vinnunni) - sem betur fer datt tölvan mín þó ekki út :)

Og ég hef öruggar heimildir fyrir því að flöktið hafi líka verið í Hafnarfirði.


mbl.is Rafmagnslaust í Mosfellsbæ og hluta Grafarvogs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kallar maður frumkvöðlastarfsemi

Ef aðstæður í hafinu hér við land leyfa þetta, þá er þetta bara brilliant hugmynd og ég er viss um að margir ferðamenn myndu nýta sér þetta. Fara frekar þangað í hvalaskoðun heldur en eitthvert annað. Ég veit allavega að ég myndi koma við þarna og fara að skoða hvali. Ég hef farið í hvalaskoðun og það var virkilega skemmtileg og eftirminnileg upplifun og ef upplifunin er meiri í svona bát þá myndi ég ekki sleppa því. Jafnvel gera mér sérferð til Dalvíkur, bæði til þess að skoða hvalina og styrkja þessa frumkvöðlastarfsemi hjá drengnum. Ég er alveg viss um að hann skapi sitt eigið góðæri. Vona sannarlega að þetta gangi upp.
mbl.is Kafbátur í hvalaskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minn flótti heppnaðist...

runawayÉg man ekki nákvæmlega hvað ég var gömul, líklega fjögurra eða fimm þegar ég og önnur stúlka ákváðum að fara í smá bæjarferð. Við grófum okkur undir girðinguna sem var nú ekkert mjög erfitt á þessum tíma og röltum svo af stað. Stefnan var tekin niður í bæ en á leiðinni þangað komum við að húsi þar sem var opin hurð og fullt af blöðrum. Hmm... barnaafmæli. Við kíktum þangað inn, líklega í von um að fá að leika og fá kökur. Jú þar var fullt af börnum en ekki löngu seinna komu mæður okkar, leikskólakennarar og fullt af krökkum af leikskólanum þangað, eftir að hafa leitað að okkur í einhvern tíma. Mér fannst eins og hálfur bærinn væri kominn og skamma okkur og mér leið svo illa að mér datt ekki einu sinni í hug að reyna þetta aftur.

Þannig endaði minn flótti :)


mbl.is Flótti úr leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páskar

Easter

Nóg að gera
Partý í kvöld, fermingarveisla á morgun, brunch og brjóstsykursgerð og afmælisveisla á föstudaginn, páskaeggjaleit á laugardaginn og afslöppun. Já maður verður að taka frá tíma fyrir afslöppun af og til þegar er svona mikið að gera. Við Tryggvi ætlum að taka rólegt og rómantískt annaðhvort á laugardags eða sunnudagskvöld - bara við tvö, góður matur, gott rauðvín, gott súkkulaði og góð tónlist. Uppskrift að æðislegu kvöldi.

Annars segi ég bara gleðilega páska og hafið það gott.

 


Gott að hafa góðan stuðningsfulltrúa

Já.. ég mætti ekki í sund í gærmorgun. Og ég mætti ekki í sund í morgun. Og þá fékk ég sms: "Sko - þetta gengur nú ekki!"

Þetta var semsagt móðir mín að skamma mig fyrir að mæta ekki. Ég mæti á morgun. Vil ekki fá fleiri skammir Pinch

Annars ætlum við Tryggvi að kaupa okkur hlaupabretti á eftir, þá getum við farið að hlaupa heima og það er ekkert sem getur stoppað okkur og engar afsakanir. Smile


Það sem ég hef aldrei skilið...

Nú langar mig aðeins að tala um lífrænt ræktað og hollustuvörur almennt og beini orðum mínum til verslunareigenda (þ.e. fara aðeins út fyrir efni fréttarinnar sem slíkrar - en þetta hjálpast allt að að lokum).

Hollustuvörur eru dýrar. Það vita það allir og þannig hefur það verið lengi. Margir kaupa aldrei lífrænt ræktað eða hollara brauðið einfaldlega vegna þess að það er svo dýrt. Fyrir rúmu ári síðan átti ég góðar samræður við mann frá Danmörku. Þar byrjaði lífrænt ræktaði markaðurinn og hollustumarkaðurinn aðeins fyrr en hér á landi, en byrjaði þó eins og hér, mjög dýr! En með tímanum þegar fleiri fóru að kaupa vörurnar lækkuðu þær í verði. Eru núna bara smá dýrar en ekki rándýrar og fleiri hafa efni á að kaupa þær. Þetta er allavega það sem hann sagði við mig, ég hef ekki lagst í neina rannsóknarvinnu við að staðfesta orð hans, en ég treysti honum alveg (maður sem tók strætó í vinnuna því það var hagkvæmara heldur en að keyra fjallajeppann sinn, sem hann notaði bara um helgar í fjallaferðum - skilningsrík kona sem hann á).

Enníveis. Það sem ég fékk út úr þessum samræðum var að ef fleiri kaupa þessar vörur þá lækka þær smám saman. Verða auðvitað aldrei nokkurntíma jafn ódýrar og pakkamatur eða "vonda" brauðið en samt ódýrari og fleiri geta farið að kaupa þær.

En það sem ég skil ekki er þetta: Þegar ég fer út í búð, þá er ég með innkaupalista sem ég fer eftir. Ef ég sé kartöflur á listanum fer ég í rekkann þar sem kartöflurnar eru. Ef ég sé djús á listanum fer ég í rekkann þar sem djúsinn er. Ég semsagt fer þangað sem vörurnar eru, horfi á vöruúrvalið fyrir framan mig og vel það sem ég tel hagkvæmast/best að kaupa (hagkvæmasta er ekki endilega alltaf það besta - það skiptir máli hvaða klósettpappír er keyptur og hvaða kavíar verður fyrir valinu).

En bíddu nú við. Hvar eru hollustuvörurnar? Er hollustusafinn hjá öllum hinum söfunum? Er sykurlausa súkkulaðið hjá öllu sælgætinu? Nei. Allar hollustuvörurnar eru saman á ganginum þar sem hollustuvörurnar eru geymdar. Hvernig á ég þá að muna eftir því? Ég er bara svona venjuleg kona sem er jú aðeins að passa línurnar en er ekkert endilega að hugsa um að kaupa allt það hollasta, ég skoða bara úrvalið af því sem er í hillunum fyrir framan mig og kaupi það sem mér líst best á. Ef hollustuvaran er ekki meðal þeirra vara sem eru fyrir framan mig þau kaupi ég hana ekki. Punktur. Ég nenni ekkert að fara fyrst í hollustuganginn og týna saman af listanum það sem er þar. Af hverju ekki? Kannski hefði ég frekar viljað kaupa einhvern annan djús heldur en hollustudjúsinn - og þá þarf ég að fara á tvo staði. Fyrst á hollustuganginn og svo þar sem restin af djúsnum er og ákveða hvort ég vilji halda mig við hollustudjúsinn sem er í körfunni hjá mér eða skipta fyrir eitthvað annað sem er í hillunum. Og ef ég ákveð að mig langi meira í Brazza heldur en hollustudjús þá þarf ég að gera starfsfólki búðarinnar óleik með því að skilja hollustudjúsinn eftir í hillunni með hinum djúsnum því ekki nenni ég nú aftur að fara í hollustuganginn til að skila flöskunni.

Ég segi því, kæru verslunareigendur, farið nú að blanda saman hollustuvörunum við allar hinar vörurnar og gerið mér og fleirum þetta aðeins auðveldara fyrir. Það er hægt að merkja hillurnar með "lífrænt ræktað" eða "lífsval" eða eitthvað álíka - eitthvað sem gæfi til kynna að það sé nú hollara að kaupa þetta heldur en hitt. En endilega, hafið hollu vörurnar á sama stað og hinar.


mbl.is Lífræn ræktun skynsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissuferð

Fór í óvissuferð með vinnunni á um helgina. Vissum að sjálfsögðu ekkert hvert við vorum að fara (annars hefði þetta nú ekki verið óvissuferð). Heyrðum þegar við vorum nýfarin af stað að það yrði komið við á Selfossi á leiðinni. Ok, við fórum s.s. lengra en Selfoss. Svo keyrðum við í gegnum Selfoss í átt að Flúðum og beygðum inn afleggjarann að Flúðum. En keyrðum ekki að Flúðum. Hmmm... Vorum svo komin inn í Þjórsárdal og beygðum upp að Hólaskógum tvö. Rútan komst að vísu ekki alla leið upp í skálann í Hólaskógi vegna færðar (fór eins langt og hún gat) og vorum við og farangurinn þá sótt af mönnum á tveimur jeppum.
Þegar við komum að skálanum sáum við röð af fjórhjólum og þá varð mannskapurinn heldur betur spenntur.
Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir í skálnum og slaka aðeins á var farið í að galla okkur upp, fengum allt, risa moonboots, hjálma, hettur, hanska og gallann sjálfan. Svo var lagt af stað. Ég og Hrönn vorum saman á hjóli og byrjaði hún á að keyra (ég þurfti aðeins að mana mig upp í að þora að keyra sjálf - en það hafðist eftir smá tíma).
Þetta var algjör snilld. Það var farið upp holt og hæðir, yfir ár og vötn og fest sig og brunað áfram. Og við stoppuðum á nokkrum stöðum, m.a. við Háafoss, Gjána, Hjálparfoss, Stöng, Búrfellsvirkjun og stífluna. Já, farið víða enda var þetta um fimm tíma ferð. Baaaara geðveikt og allir þvílíkt ánægðir.
Þegar heim var komið var byrjað að elda matinn sem tók slatta tíma (læri) og byrjaði fólk að taka hresslega á því strax (í víni).. á meðan maturinn var á grillinu fengum við að horfa á vídjóið sem leiðsögumennirnir tóku upp á leiðinni. Ekki leiðinlegt það. Svo var tekið hraustlega til matar síns og mikil skemmtun um kvöldið, farið í sauna og í koníaksstofuna (sem er í litlum kofa rétt hjá skálanum).
En já, hraustlega var tekið á áfenginu, fimm stórar flöskur af opal kláraðar (held þær hafi verið langt komnar fyrir mat), allur bjórinn og svo eitthvað af stroh. Púrtvínið var þó ekki klárað.
Á sunnudaginn var fólk vaknað ótrúlega snemma (fyrir níu) og byrjað að pakka og taka til (sem ég reyndar hjálpaði ekki til með þar sem ég var eiginlega ekki í ástandi til þess) og við vorum svo lögð af stað í bæinn fyrir kl. 11. Sem mér finnst svakalegt afrek.
En eins og Albert sagði í tölvupósti áðan "Heilsan hefði mátt vera betri í gær, en laugardagurinn og fjórhjólaferðin vógu það upp og rúmlega það".

Mæli þokkalega með að fara í svona fjórhjólaferð hjá strákunum í Óbyggðaferðum (obyggdaferdir.is)


Gæludýr fyrir fólk með ofnæmi?

Kannski er þetta virkilega góð lausn fyrir fólk sem er með ofnæmi en langar í kelið gæludýr. Ég er alveg rosalega heppin að vera ekki með ofnæmi fyrir henni She-ru minni (dísarfugl) en fyrri eigandi hennar þurfti að láta hana frá sér vegna ofmæmis bróður síns. Ég gæti aldrei fengið mér hund eða kött vegna ofnæmis og finnst mér það frekar leiðinlegt. En ég myndi nú aldrei vilja skipta elskulegum fuglinum mínum út fyrir neitt annað dýr, hún er bara æði, vill láta klóra sér og kúra hjá manni. Bara sætust.

En þessi risaeðla er algjör snilld, að mínu mati stórt skref.


mbl.is Vinaleg risaeðla vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband