Færsluflokkur: Bloggar
8.4.2009 | 10:05
Sparkar og sparkar
Ég er áskrifandi að mjög skemmtilegu "fréttabréfi" sem ég fæ einu sinni í viku og segir mér hvernig ástandið er inni í mallanum þá vikuna. Á mánudaginn var ég gengin 21 viku og það var mjög gaman að lesa "Twenty-one is a magic number. It means independence. It means you just won a hand of blackjack. In pregnancy terms, it means you have gotten over the hump and you only have 19 weeks left!"
Vei ég er meira en hálfnuð (svo lengi sem ég gangi ekki framyfir hehe) :)
Í þessum pósti fæ ég líka að vita hvað barnið er ca. stórt og er alltaf miðað við eitthvað sem maður ætti að þekkja (þetta er samt erlendur póstur svo sumt þekkir maður ekki 100%). Þessa vikuna er barnið eins og flaska af rótarbjór. Í síðustu viku var það dós af red bull og þar áður 6 tommu subway :) Stella er komin 16 vikur og hennar er jafnstórt og maskari.
Meðgangan gengur mjög vel, við fórum í sónar í síðustu viku og fengum þrjár nýjar myndir. Voru nánast vandræði að fá góðar myndir því barnið er alltaf á fleygiferð og lætur sko alveg vita að það sé þarna. Tryggvi fann fyrsta sparkið núna um helgina og það var ansi kröftugt :)
Næsta skoðun er ekki fyrr en í byrjun næsta mánaðar en þá förum við í foreldrafræðslu auk þessa reglubundna. Núna er ég líka komin með milljón spurningar handa ljósmóðurinni :)
Barnateppið er alveg að verða búið, ég á bara eina röð eftir og svo ætla ég að byrja á næsta verkefni, peysu. Fyrsta peysan mín! Ég fór á bókasafnið um síðustu helgi og fann þessa fínu bók á ensku með leiðbeiningum um hvernig ætti að prjóna - fitja upp, bæta í o.þ.h. Svo æfði ég mig og gerði mini mini version af bakinu á peysunni til að æfa mig í að lesa uppskriftina. Gekk bara mjög fínt - pínu brösulega fyrst en gekk fyrir rest. Þannig að um páskana mun ég byrja á nýju prjónaverkefni :) Spennó spennó :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.4.2009 | 09:10
Auris
Fór með bílinn í innköllun í morgun (eitthvað sem þarf að fjarlægja úr Yaris framleiddum á ákv. árabili) og fékk lánsbíl á meðan. Keyrði hann frá Toyota og niðrí vinnu.. næs :)
Lánsbíllinn er Toyota Auris, nýbónaður og flottur :) Mig langar ekkert að skila honum.
En hann hentar nú ekki eftir að barnið kemur. Held það sé betra að vera á aðeins stærri bíl :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2009 | 10:28
Flower duet
Ég er ekki mikið fyrir óperur. Bara eitthvað við raddbeitinguna sem fer í taugarnar á mér.
En það er eitthvað við þetta lag sem mér finnst alveg ofboðslega fallegt, hvernig þessar tvær raddir leika saman við seiðandi tóna.
Bjútífúl
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2009 | 09:15
Gott húsráð - sparnaðarráð
Um síðustu helgi heyrði ég af mjög góðu húsráði. Ef þú ert á annaðborð að spara með því að geyma kreditkortið heima (svo þú kaupir ekkert af impulse) - þá er ennþá betra að fylla glas af vatni, skella kortinu í glasið og skella inn í frysti. Þá getur maður ekki hlaupið heim og sótt kortið í flýti, heldur þarf maður að bíða þar til það þiðnar utan af því. Og þá fær maður nægan umhugsunarfrest um hvort maður virkilega hafi þörf fyrir hlutinn eða ekki :-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2009 | 09:50
Á stærð við sex tommu subway
Meðgangan gengur mjög vel þessa dagana. Ég er alveg hætt að vera flökurt og orkan er öll að koma, þó það komi dagar þar sem ég verð þreyttari en ég veit ekki hvað. Ég er farin að finna fyrir því að það er eitthvað lifandi þarna inni því það lætur vita af sér reglulega með hreyfingum og spörkum :-) Bara gaman að því :-)
Það eina sem er farið að angra mig eitthvað er bakið, ef ég passa mig ekki fæ ég verki í mjóbakið. Svo það er betra að vera fyrr en seinni í aðgerðum, betra að reyna að koma í veg fyrir frekari verki heldur en að gera eitthvað í þessu þegar þetta er orðið slæmt. Er farin að sitja öðruvísi, beygja mig öðruvísi, liggja öðruvísi í rúminu o.þ.h. Ég vona bara að með þessum aðgerðum verði þetta ekki slæmt þegar á líður.
En hvað sem því líður, backpain or no backpain, mér líður rosalega vel, hreiðurgerðin er að hefjast og ég hlakka ekkert smá til. Vika í næsta sónar :-)
Já.. stærðin á fóstrinu er semsagt núna eins og sex tommu subway (las það á einhverri síðu hehe) :-)
Kem með bumbumynd í kvöld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2009 | 16:30
Berdreymin?
Aðfararnótt laugardags dreymdi mig að ég væri að passa litla frænda minn, sem er 10 mán gamall. Hann kúkaði svo allsvakalega að það fór upp úr bleyjunni og langt upp á bak!
Að dreyma kúk þýðir peningur og því spáði ég því að Tryggvi og félagar yrðu í verðlaunasæti í Gullegginu. Einnig spáði ég því að þar sem þetta var litli frændi minn - lítil manneskja, að þá myndu þeir ekki vera í fyrsta sæti (mestu peningarnir fyrir fyrsta sæti auðvitað).
Og viti menn. Þeir drengir hrepptu annað sætið í Gullegginu! Húrra húrra húrra :)
http://mbl.is/mm/frettir/taekni/2009/03/22/controlant_hlaut_gulleggid_2009/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2009 | 12:39
Aftur í gömlu buxurnar
Mikið er ég fegin að ég vann markvisst að því að koma mér í gott form áður en ég varð ólétt. Ég var búin að grennast heilan helling og nokkrar buxur orðnar of stórar og komnar aftast í fataskápinn, og buxurnar sem ég hafði sjaldan eða aldrei komist í teknar fram.
Nú þegar bumban er farin að vaxa er ég hætt að geta verið í fínu grönnubuxunum og farin að taka gömlu buxurnar aftur fram. Sumar eru reyndar ekki nógu góðar því ég hef lítið sem ekkert fitnað á rassi og lærum og því pokast þær að aftan, en aðrar eru orðnar fínar á mér aftur. En það er þó stutt í það að ég geti ekki heldur notað þær nema ég fái mér einhverja svona framlengingu. Bumban virðist vera að taka eitthvað stökk núna :-)
Það styttist í að ég fari að setja inn bumbumyndir, ótrúlegt en satt þá er ég ekki ennþá byrjuð að taka neinar svoleiðis, ég sem ætlaði að vera alveg hrikalega dugleg við það. En það kemur mynd fyrir 19. viku (sem er næsta mánudag - vá hvað tíminn líður) :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2009 | 12:25
Taubleyjur eða ekki taubleyjur
Þá er hér mynd úr sónar síðan 17. febrúar. Þá var ég komin 14 vikur og einn dag sem þýðir að í dag er ég komin 18 vikur og 1 dag :)
Veröldin er strax farin að snúast um væntanlegt barn að miklu leyti. Það er verið að pæla í barnadóti eins og vagni, húsgögnum, fötum, hvernig eigi að gera herbergið, byrjuð að prjóna og ýmislegt í þessum dúr.
Á laugardaginn fer ég svo á taubleyjukynningu.. það verður fróðlegt. Er mikið búin að velta fyrir mér hvort við eigum að nenna að standa í því. Tryggvi lagðist í smá rannsókn á netinu og komst að þeirri niðurstöðu að taubleyjur eru vissulega umhverfisvænni og fer að öllum líkindum betur með bossann á barninu. Peningalega séð er þetta svipað og einnota bleyjurnar (ýmiss falinn kostnaður eins og vatn og rafmagn og uppþvottaefni sem gleymist oft að telja með kemur auðvitað inní). Þannig að það sem eftir stendur er: er ég manneskja í þetta (hef átt nógu erfitt með að skipta á börnum hingað til, segja auðvitað allir að maður kúgast ekki af kúknum úr eign barni), og er ég tilbúin að fara að eyða heillöngum tíma í að þrífa kúkableyjur. Það fer slatta tími í það! Well.. ég hef nokkra mánuði til að hugsa mig um :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.3.2009 | 07:39
Golf í Flórída
Jæja þá er ég komin heim frá Flórída þar sem ég var í afslöppun í tvær vikur. Fimmtugsafmælisferð Sigurjóns sem bauð okkur með í þessa yndislegu ferð.
Nokkrir golfhringir voru farnir í þessari ferð og prófaði ég 5 golfvelli í 4 golfklúbbum, Manatee, Waterlefe, Bobby Jones og Legacy. Virkilega flottir vellir og fór mér nú helling fram í golfinu.
En ég hef ekki tíma til að skrifa meira núna, ferðin var æðisleg út í eitt og segi ég meira frá henni síðar. Hér koma þó myndir (ekki okkar myndir) af golfvöllunum sem sýna hvað þeir eru flottir :)
Manatee:
Waterlefe (annar af þeim flottustu):
Legacy (hinn flottasti og jafnframt erfiðasti):
Bobby Jones - ameríski völlurinn (sá breski var skemmtilegri - og erfiðari):
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2009 | 21:45
Esja - Þverfellshorn
Á laugardaginn var farið í enn eina fjallgönguna í Astmafjallgöngu verkefninu. Að þessu sinni var farið upp á Þverfellshorn Esjunnar.
Ég viðurkenni að ég hef aldrei áður farið upp á Esju, sem sýnir hversu mikil fjallakona ég er. Engin. Fyrr en nú ;-) Oft hefur verið planað að fara stutta göngutúra upp á Esjuna en aldrei hefur orðið neitt úr því.
Markmiðið með þessari ferð var semsagt að fara alla leið upp á topp ef veður leyfði, að öðrum kosti láta Steininn nægja. Ég var mætt á bílastæðið rétt rúmlega hálftíu, alveg í spreng en sem betur fer (og að sjálfsögðu) eru kamrar við Esjurætur. Ég var fyrst á svæðið en stuttu síðar (eftir kamarsferðina) mættu fleiri úr hópnum. Alls vorum við rétt rúmlega 20 sem héldum upp Esjuna í fylgd reyndra manna. Gengið var eftir nýrri leiðinni sem er ekki jafn brött en sú gamla. Eftir um klukkutíma göngu var ég orðin svolítið þreytt og hugsaði að kannski léti ég Steininn nægja fyrir mig. Svolítið síðar var ég farin að halda að við værum löngu komin fram hjá Steininum, eða við hefðum farið aðra leið en upp að honum. Miðað við lýsingar annarra fannst mér eins og "upp að Steini" væri bara stutt og lauflétt ganga. En nei, töluvert síðar komum við loksins að þessum blessaða Steini.
Þar var tekin stutt pása og fólk fékk sér örlitla næringu. Þarna sáum við tindinn og ég hugsaði "Erum við að fara þarna upp? Nei.. við erum örugglega bara að fara upp að klettabeltinu þarna og snúa svo við.. það er ekkert hægt að fara þarna upp, það er allt of bratt. En ég er komin hingað og ég fer ekki að snúa við núna." Svo áfram hélt ég með hópnum.
Upp upp upp hélt hópurinn og brekkan varð brattari og brattari. Venjulega er farið upp merkta leið með keðjum og stigum til aðstoðar en það var ekki hægt núna vegna snjóa. Því var farið upp aðeins lengra til vinstri í mjög miklum bratta. Snjórinn var harður og fólkið sem fór á undan bjó til stiga með því að sparka í snjóinn. Þægilegt fyrir okkur sem vorum á eftir.
Brekkan varð skyndilega svo brött að ekki var hægt að notast við göngustafina því þeir þvældust bara fyrir og bókstaflega þurfti að klifra upp. Mér var þá alveg hætt að lítast á blikuna. Hvað ef ég dett? Þá er það ekki bara ég sem fer heldur er fullt af fólki fyrir aftan mig sem myndi detta líka. Ég var þó hvött áfram af reyndum fjallamanni sem var beint fyrir aftan mig. Það var líka of seint að snúa við núna. Jeminn eini - í hvað var ég eiginlega búin að koma mér.
Svo kom að því. Þarna stóð ég, í snjóugu klettabeltinu, í fótsporum sem mér fannst ekki nógu traust, og ég hreinlega treysti mér ekki lengra. Ég fraus. Ég gat ekki meira. Snarbrattar hlíðar undir mér og ekkert til að halda sér í. Fjallamaðurinn á eftir mér auk allra hinna hvöttu mig áfram. "Þú getur þetta". En nei, ég gat þetta ekki. Ég hélt dauðahaldi í fótspor fyrir ofan mig og læsti mig í þeirri stöðu sem ég var. Þá var kallað á björgunarsveitamanninn fyrir ofan okkur og hann beðinn að hjálpa mér. Hann kom niður og bjó til ný fótspor, setti ísexi í harðan snjóinn fyrir mig til að halda í og kom mér upp á næstu syllu. Úff.
En upp komst ég á toppinn og ekki lítið sem ég var stolt af því! Ég var samt ennþá svo skelkuð að ég gleymdi að njóta útsýnisins
Og já. Hvað svo? Hvernig átti ég eiginlega að komast aftur niður? Varla færum við sömu bröttu leiðina? Ég yrði heila eilífð að telja í mig kjark og það þyrfti örugglega að kalla á þyrlu til að sækja lofthræddu stelpuna sem þyrði ekki niður aftur.
Nei hjúkk. Það var farið aðra leið niður sem var ekki nærri því eins brött.
Niður röltum við og vorum komin aftur á bílastæðið kl. 14.
Fjögurra tíma ævintýraför þar sem ég upplifði Esjuna í fyrsta skipti og fór í gegnum allan tilfinningaskalann. Og ég mundi eftir að njóta útsýnisins á leiðinni niður, enda búin að róa taugarnar.
Nú er bara spurning um að græja sig enn betur fyrir næstu göngu, fá sér ísexi og mannbrodda sem myndu redda manni alveg við svona aðstæður! Svona er það þegar algjörlega óvant fólk fer í krefjandi göngur :) En gaman er það :)
[Myndir koma síðar - já ég sá til þess að það væri tekin mynd af mér á toppnum!]
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)