Píanó

Ég á rosalega flott pínaó. Það er alveg eldgamalt, eitthvað sem afi keypti þegar mamma var lítil, þá notað. Afi gaf mömmu það svo, og mamma gaf mér það. Semsagt, gengur kynslóða á milli og mín ósk er að það gangi í einhverjar kynslóðir til viðbótar. Hinsvegar hefur verið óspilandi á það í nokkur ár þar sem einn strengurinn var slitinn og slakt á mörgum öðrum, enda búið að flytja það ansi oft upp á síðkastið, og ekkert verið gert fyrir það greyið.
Mig hefur oft langað til þess að stilla það en sagði alltaf við Tryggva að það væri svo dýrt svo það hefur bara verið upp á punt.

Þangað til í gær, að Tryggvi tók sig til og hringdi og athugaði hvað þetta kostaði nú. Og ekki var það nú dýrt.. 15þ kall! Ég var búin að ímynda mér eitthvað miklu meira.

Hins vegar var hljóðið í píanóstillingamanninum ekki mjög gott þegar Tryggvi lísti gripnum fyrir honum. Eldgamalt píanó sem var ekki búið að gera neitt fyrir í mörg ár. Píanóstillarinn sagði að það gæti vel verið að ekkert væri hægt að gera fyrir það nema skipta um allt innviðið, og það getur kostað skildinginn. En hann skildi nú koma og líta á gripinn og sjá hvað hann gæti gert.

Ég fór því í hálfgert þunglyndiskast þegar Tryggvi sagði mér þetta. Gripur sem mér þykir ofsalega vænt um. Eini "dauði" hluturinn sem er mér kær nánast eins og um lifandi manneskju væri að ræða, enda búinn að fylgja mér alla mína ævi. Það kæmi sko ekki til greina að henda því, frekar myndi ég bíða í nokkur ár og láta svo skipta um innihaldið. Úff ég var næstum farin að grenja.

Píanóstillirinn kom svo í morgun og hann þurfti ekki að horfa lengi á gripinn eða taka í margar nótur til þess að sjá að þetta væri sko gæðagripur sem hann gæti alveg gert góðan aftur. VÁ hvað mér varð létt við að heyra þetta. Hann skipti um slitna strenginn og stillti restina af nótunum, kemur svo aftur eftir ca. 2 vikur til þess að endurstilla nýja strenginn (því það slaknar alltaf aðeins á nýjum strengjum) og þá er það orðið fínt aftur.

Elskulega píanóið mitt farið að spila fagra hljóma aftur (tjah þegar ég næ að spila vel) :)

Lífið gæti ekki verið betra - þetta er besta afmælisgjöf sem ég hef nokkurntíma fengið :-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru góðar fréttir, til hamingju með afmælið :)

Júlía Rós (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband