Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
4.8.2008 | 00:08
Hitt og þetta
Helgarskýrsla..
Verslunarmannahelgin er búin að vera fín. Hún byrjaði reyndar ekki skemmtilega, ég ákvað að vinna heiman frá mér á föstudaginn sökum mikilla verkja (verki sem karlmenn þurfa aldrei að ganga í gegnum...). Þeir voru eitthvað ferlega slæmir hjá mér þennan mánuðinn svo ég ákvað að vinna heima fyrst ég get það. Og það gekk bara fínt. Sko að vinna heima. Það er samt ferlega lýjandi að vinna heima - betra að geta farið út af heimilinu til að gera það og geta svo komið heim eftir vinnu og skilið hana eftir þar. Annars endaði föstudagurinn bara í tiltekt hérna heima.
Á laugardaginn var svo gestagangur allan daginn. Á hádegi komu Bjarkey og Þurý til mín í brunch og brjóstsykursgerð sem var mjög fínt. Við gerðum hindberjabrjóstsykur, lakkrísbrjóstsykur og svo fór sköpunargleðin í gang, bleikur fylltur súr sítrónubrjóstsykur og svo tvílitur grænn og appelsínugulur karamellu og lakkrísbrjóstsykur. Hann var soldið spes. Það var líka mjög spes að borða bleikan súran brjóstsykur, heilinn var ekki alveg að meðtaka tenginguna á milli bragðs og litar. Soldið fyndið. En þetta var fínn undirbúningur fyrir námskeiðin á miðvikudag og fimmtudag.
Um kvöldið komu svo aðeins fleiri, Siffi bættist í hópinn sem og Guðrún og Siggi og var "fírað upp" í grillinu og kom hver með sitt á grillið. Ég eldaði mér þessa fínu nautasteik og Þurý hafði keypt sér hrefnusteik. Eitthvað sem ég er alveg til í að prófa meira af, fékk bita og hann var þvílíkt góður! Svo var setið að sumbli frameftir kvöldi og spilað Uno og Jungle Speed. Við ákváðum að Jungle Speed væri skemmtilegt spil en ekki nógu gott spil með drykkju því það gafst enginn tími til hennar. Uno-ið hentaði betur sem drykkjuspil :-P
Daginn í dag tók ég bara rólega, tók til eftir partý gærkvöldsins, fór að hlaupa, byrjaði loksins á málverkinu hennar mömmu, kíkti yfir til Guðrúnar og Sigga og horfði á X-files myndina með þeim (sem ég mæli ekkert sérstaklega með) og á morgun ætla ég að hjálpa mömmu að hengja upp myndir og elda handa henni góðan fiskrétt.
Jamm, fínasta verslunarmannahelgi :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)