16.12.2007 | 16:34
Secret santa
Við vorum með mjög skemmtilegan leik í vinnunni í síðustu viku. Á sunnudaginn fyrir viku fengum við tölvupóst þar sem hverju og einum var úthlutað jólabarni. Okkar hlutverk var að vera "Secret santa", gleðja jólabarnið með gjöfum og fleiru skemmtilegu. Ég lagði mikinn metnað í að vera góður jólasveinn (eða jólameyja) og byrjaði mánudaginn á að lauma tómri körfu til jólabarnsins míns ásamt leiðbeiningum um að karfan ætti ávallt að vera á borðinu því aldrei að vita nema eitthvað kæmi í körfuna. Frá þriðjudegi til föstudags bættust svo við hver pakkinn á fætur öðrum og allir voru þeir kyrfilega innpakkaðir og vel merktir með orðunum "Má ekki opna fyrr en á föstudag". Eftir vinnu á föstudag var svo örlítið teiti og þá gat jólabarnið mitt loksins opnað pakkana sína sem það var búið að bíða eftir með eftirvæntingu. Jólabarnið var búið að vera horfa upp á alla hina vera að fá pakka og opna og njóta en gat ekki gert það sjálft. Fyrr en kl. 17 á föstudag. Þá opnaði jólabarnið alla pakkana og var yfir sig hrifið. Í körfunni leyndist nefnilega kex, ostur, ostahnífur, súkkulaði og lítil rauðvínsflaska :) Jólabarnið fór svo hæstánægt heim á leið eftir gleðskapinn á föstudaginn og hefur örugglega notið lystisemdanna núna um helgina. Verði því að góðu :)
Ég var líka með mjög skemmtilegan jólasvein. Á mánudaginn hélt ég að ég fengi engan pakka en seinnipartinn fékk ég svo sms (nafnlaust að sjálfsögðu) þar sem stóð: "Heppnin er með þér í dag... ertu búin að kíkja í pakkann vinstra megin við tölvuna þína? hohoho Jóli". Og þar var pakki sem ég hafði bara ekki tekið eftir og í honum var bókin "Ungfrú Heppin" :) Á þriðjudaginn fékk ég engan pakka en á miðvikudagsmorgun beið mín flottur pakki sem innihélt fínt kaffi frá Amokka. Seinnipartinn á miðvikudag fékk ég svo þetta rosa fína súkkulaði. Á fimmtudag fékk ég ofsa fína öskju með heimagerðum smákökum og á föstudag mjög fallegan kertastjaka með 6-7 sprittkertum. Ég er virkilega ánægð með þetta allt saman og á eftir að njóta góðs kaffis og súkkulaðis á jólunum (er nánast búin með smákökurnar :) )
Það var mikil gleði og spenningur á föstudaginn að fá að vita og giska á hver væri jólasveinninn sinn. Sumir gátu giskað rétt, sumir höfðu ekki hugmynd og suma hafði komist upp um í miðri viku. Virkilega skemmtilegur leikur sem ég mæli með á öllum vinnustöðum til að hrista upp í liðinu og þétta hópinn, hvort sem það er gert á þennan hátt rétt fyrir jól (Secret Santa) eða á miðju ári sem venjulegur leynivinaleikur :) Það eru líka til margar útfærslur líka, t.d. var hárgreiðslustofan mín með leynivinadaga alla föstudaga í desember.
Jæja, best að fara að drífa sig í að klára að taka til og fínpússa fyrir matargestina sem koma á eftir :)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.