Right on schedule

* Varúð - heilsublogg * 

Við Tryggvi bjuggum til excel skjal þar sem við settum vikulegt markmið okkar í 12 vikur og svo fyllum við út rauntölur. Svo er svona voða fínt línurit sem segir til um markmiðið og raunina þannig að við sjáum árangurinn myndrænt.

Núna erum við að enda viku 3 og svei mér þá, ég er bara alveg á áætlun. Búin að missa 2.4 kíló og lækka um 1.7 fituprósentustig. Veii. Ég hélt ég myndi ekki ná þessu þar sem ég var ennþá 67 kg síðast þegar ég vigtaði mig (á þriðjudagsmorgun að mig minnir) en svo allt í einu er ég bara orðin 65.7. Sá ekki einu sinni 66 á vigtinni.. bara gaman að því :-)

Þessar þrjár vikur hafa verið pínu strembnar á köflum, ekki vegna þess að mig langar óstjórnlega í eitthvað óhollt, nei, þvert á móti þá hef ég ekki fengið nein svona "sterk freistingaköst" ef svo má kalla, heldur er það sem mér finnst erfitt er skipulagningin og að fara eftir mataráætlun í einu og öllu. Stundum erum við bara þreytt þegar við komum heim á kvöldin og þá nennir maður ekki endilega alltaf að hugsa um hvað er í matinn á morgun og útbúa hádegisnestið o.þ.h. En við gerum það samt. Á móti kemur að það er nú voða þægilegt að þurfa ekki að hugsa um það á hverjum degi hvað eigi að vera í matinn á morgun því við getum bara litið á listann.

Við erum búin að vera mjög passasöm með þetta, þ.e. að fara alls ekki út fyrir matarplanið, þó við höfum kannski skipt út einni hollri máltíð fyrir aðra holla, þá erum við alls ekki að fara út í óhollan mat, nema á frjálsum dögum. Pössum upp á allt saman. Ég leyfi mér ekki einu sinni að fá mér humarpottrétt hjá vinkonu minni í kvöld því í sósunni er smjör og rjómi og rjómaostur og allskonar soleis, sem ég hefði leyft mér á frjálsa deginum en ég vil ekki fara út fyrir planið og fá mér soleis á venjulegum degi. Hún ætlar hinsvegar að vera svo ofboðslega væn og taka nokkra humarhala frá fyrir mig og ofnbaka þá :) Þannig að ég missi ekki alveg af humrinum veeei :)

Málið er nú bara þannig að við ákváðum að vera mjög ströng þessar 12 vikur og ekki leyfa eitt einasta frávik á venjulegum degi. Til þess eru frjálsu dagarnir. Því ef við leyfum okkur einhverntíma frávik þá er hætta á að við leyfum okkur það aftur einhverntíma. Og svo erum við líka svona ströng meðan við erum að koma þessu upp í vana. Þegar við erum orðin reyndari í þessu og getum nánast fengið okkur að borða án þess að hugsa (þ.e. erum hætt að þurfa að hugsa "hvað er mikil orka í þessu, hvað er mikið prótein, hvað er mikil fita, hvað er mikið kolvetni og þetta kemur að sjálfu sér), þá getur maður KANNSKI farið að leyfa sér eitt og eitt frávik eins og með humarpottréttinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband