Framúrskarandi ungur Íslengdingur, Landsstjórnarskipti og barnanámskeið í brjóstsykursgerð

Já það var svo sannarlega nóg að gera hjá mér um helgina. Ég reyndar sleppti fjallgöngunni sem var plönuð, bara þurfti að nota tímann til að undirbúa restina af helginni.

En á laugardagskvöldið rétt fyrir kl. 18 mætti ég í sjálfstæðissalinn í Kópavogi (sem er í sama húsi og ég vinn, svo ég mætti næstum því í vinnuna á laugardagskvöldi) til þess að vera viðstödd tilnefningu Framúrskarandi ungs Íslendings (TOYP - The outstanding young persons award) og var það JCI Ísland sem stóð fyrir viðburðinum. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson mætti svo um 18.30 til að afhenda verðlaunin. Það voru þrír einstaklingar sem voru tilnefndir í ár, Örn Elías Guðmundsson (Mugison), Margrét Lára Viðarsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson. Sjá umfjöllun hér.
Systir hans Mugison tók á móti verðlaununum í hans stað og jci félagi tók við verðlaununum fyrir hönd Víkings sem komst ekki þar sem hann var á öðrum stað.

Klukkan 20 hófst svo mexíkóskt jólahlaðborð. Og það skemmtilega var að Víkingur Heiðar sá sér fært að mæta þá um kvöldið, borðaði með okkur og tók þá við sinni viðurkenningu. Við fengum því að kynnast honum og hann spilaði fyrir okkur undurfagurt lag :) Frábært, mjög skemmtilegur strákur og virkilega hæfileikaríkur.
Á þessu kvöldi var ég veislustjóri ásamt Sólbjörgu og gekk það bara mjög vel. Gaman að fá að prófa að vera svona veislustjóri. En auk þess að fá góðan mexíkóskan mat frá Soho, og fá að kynnast honum Víkingi Heiðari voru veittar landsforsetaviðurkenningar og fékk ég eina (veeei) og Tryggvi eina (veeei). Landsstjórnarskipti fóru fram og hélt Landsforseti 2009 frábæra ræðu. Jógvan kom og spilaði fyrir okkur nokkur lög og svo var partý fram á nótt.

Ég fór reyndar snemma heim (og var líka edrú allt kvöldið) því í gær, sunnudag voru nokkur barnanámskeið í brjóstsykursgerð heima hjá okkur. Íbúðin okkar var því full af fólki í allan gærdag og skemmtum við Tryggvi okkur mikið við það. Börn hafa svo frjóan huga og það sem þeim dettur í hug að gera úr brjóstsykrinum er alveg ótrúlegt á stundum. Mjög gaman :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband