Esja - Þverfellshorn

Á laugardaginn var farið í enn eina fjallgönguna í Astmafjallgöngu verkefninu. Að þessu sinni var farið upp á Þverfellshorn Esjunnar.

Ég viðurkenni að ég hef aldrei áður farið upp á Esju, sem sýnir hversu mikil fjallakona ég er. Engin. Fyrr en nú ;-) Oft hefur verið planað að fara stutta göngutúra upp á Esjuna en aldrei hefur orðið neitt úr því.

Markmiðið með þessari ferð var semsagt að fara alla leið upp á topp ef veður leyfði, að öðrum kosti láta Steininn nægja. Ég var mætt á bílastæðið rétt rúmlega hálftíu, alveg í spreng en sem betur fer (og að sjálfsögðu) eru kamrar við Esjurætur. Ég var fyrst á svæðið en stuttu síðar (eftir kamarsferðina) mættu fleiri úr hópnum. Alls vorum við rétt rúmlega 20 sem héldum upp Esjuna í fylgd reyndra manna. Gengið var eftir nýrri leiðinni sem er ekki jafn brött en sú gamla. Eftir um klukkutíma göngu var ég orðin svolítið þreytt og hugsaði að kannski léti ég Steininn nægja fyrir mig. Svolítið síðar var ég farin að halda að við værum löngu komin fram hjá Steininum, eða við hefðum farið aðra leið en upp að honum. Miðað við lýsingar annarra fannst mér eins og "upp að Steini" væri bara stutt og lauflétt ganga. En nei, töluvert síðar komum við loksins að þessum blessaða Steini. 

Þar var tekin stutt pása og fólk fékk sér örlitla næringu. Þarna sáum við tindinn og ég hugsaði "Erum við að fara þarna upp? Nei.. við erum örugglega bara að fara upp að klettabeltinu þarna og snúa svo við.. það er ekkert hægt að fara þarna upp, það er allt of bratt. En ég er komin hingað og ég fer ekki að snúa við núna." Svo áfram hélt ég með hópnum.

Upp upp upp hélt hópurinn og brekkan varð brattari og brattari. Venjulega er farið upp merkta leið með keðjum og stigum til aðstoðar en það var ekki hægt núna vegna snjóa. Því var farið upp aðeins lengra til vinstri í mjög miklum bratta. Snjórinn var harður og fólkið sem fór á undan bjó til stiga með því að sparka í snjóinn. Þægilegt fyrir okkur sem vorum á eftir.

Brekkan varð skyndilega svo brött að ekki var hægt að notast við göngustafina því þeir þvældust bara fyrir og bókstaflega þurfti að klifra upp. Mér var þá alveg hætt að lítast á blikuna. Hvað ef ég dett? Þá er það ekki bara ég sem fer heldur er fullt af fólki fyrir aftan mig sem myndi detta líka. Ég var þó hvött áfram af reyndum fjallamanni sem var beint fyrir aftan mig. Það var líka of seint að snúa við núna. Jeminn eini - í hvað var ég eiginlega búin að koma mér. 

Svo kom að því. Þarna stóð ég, í snjóugu klettabeltinu, í fótsporum sem mér fannst ekki nógu traust, og ég hreinlega treysti mér ekki lengra. Ég fraus. Ég gat ekki meira. Snarbrattar hlíðar undir mér og ekkert til að halda sér í. Fjallamaðurinn á eftir mér auk allra hinna hvöttu mig áfram. "Þú getur þetta". En nei, ég gat þetta ekki. Ég hélt dauðahaldi í fótspor fyrir ofan mig og læsti mig í þeirri stöðu sem ég var. Þá var kallað á björgunarsveitamanninn fyrir ofan okkur og hann beðinn að hjálpa mér. Hann kom niður og bjó til ný fótspor, setti ísexi í harðan snjóinn fyrir mig til að halda í og kom mér upp á næstu syllu. Úff.

En upp komst ég á toppinn og ekki lítið sem ég var stolt af því! Ég var samt ennþá svo skelkuð að ég gleymdi að njóta útsýnisins Blush

Og já. Hvað svo? Hvernig átti ég eiginlega að komast aftur niður? Varla færum við sömu bröttu leiðina? Ég yrði heila eilífð að telja í mig kjark og það þyrfti örugglega að kalla á þyrlu til að sækja lofthræddu stelpuna sem þyrði ekki niður aftur. 

Nei hjúkk. Það var farið aðra leið niður sem var ekki nærri því eins brött. 

Niður röltum við og vorum komin aftur á bílastæðið kl. 14.

Fjögurra tíma ævintýraför þar sem ég upplifði Esjuna í fyrsta skipti og fór í gegnum allan tilfinningaskalann. Og ég mundi eftir að njóta útsýnisins á leiðinni niður, enda búin að róa taugarnar.

Nú er bara spurning um að græja sig enn betur fyrir næstu göngu, fá sér ísexi og mannbrodda sem myndu redda manni alveg við svona aðstæður! Svona er það þegar algjörlega óvant fólk fer í krefjandi göngur :) En gaman er það :)

[Myndir koma síðar - já ég sá til þess að það væri tekin mynd af mér á toppnum!]

Esja
























2572120847_02900e6189

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæhæ. Ákvað að það væri nú kominn tími til að kvitta fyrir komuna 

Vá, hvað þú stóðst þig vel. Ég fór nú bara upp að Steini, treysti mér bara alls ekkert í meira. Ég hefði dáið úr hræðslu á þessum stað og þú fraust. Þú ert bara algjör snillingur Já og takk fyrir "samlabbið" síðustu metrana

Sjáumst í næstu göngu

Kv. Sveinbjörg María

Sveinbjörg M. (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 22:38

2 Smámynd: Guðlaug Birna Björnsdóttir

Takk sömuleiðis Sveinbjörg, alltaf gaman að taka góðar samræður :)

Sjáumst á Botnsúlum :)

Guðlaug Birna Björnsdóttir, 17.2.2009 kl. 11:41

3 identicon

Þú ert ekkert smá dugleg í þessu dáist alveg að þér....en þú verður samt að fara varega ;)

Fanney (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband