12.3.2008 | 10:34
Það sem ég hef aldrei skilið...
Nú langar mig aðeins að tala um lífrænt ræktað og hollustuvörur almennt og beini orðum mínum til verslunareigenda (þ.e. fara aðeins út fyrir efni fréttarinnar sem slíkrar - en þetta hjálpast allt að að lokum).
Hollustuvörur eru dýrar. Það vita það allir og þannig hefur það verið lengi. Margir kaupa aldrei lífrænt ræktað eða hollara brauðið einfaldlega vegna þess að það er svo dýrt. Fyrir rúmu ári síðan átti ég góðar samræður við mann frá Danmörku. Þar byrjaði lífrænt ræktaði markaðurinn og hollustumarkaðurinn aðeins fyrr en hér á landi, en byrjaði þó eins og hér, mjög dýr! En með tímanum þegar fleiri fóru að kaupa vörurnar lækkuðu þær í verði. Eru núna bara smá dýrar en ekki rándýrar og fleiri hafa efni á að kaupa þær. Þetta er allavega það sem hann sagði við mig, ég hef ekki lagst í neina rannsóknarvinnu við að staðfesta orð hans, en ég treysti honum alveg (maður sem tók strætó í vinnuna því það var hagkvæmara heldur en að keyra fjallajeppann sinn, sem hann notaði bara um helgar í fjallaferðum - skilningsrík kona sem hann á).
Enníveis. Það sem ég fékk út úr þessum samræðum var að ef fleiri kaupa þessar vörur þá lækka þær smám saman. Verða auðvitað aldrei nokkurntíma jafn ódýrar og pakkamatur eða "vonda" brauðið en samt ódýrari og fleiri geta farið að kaupa þær.
En það sem ég skil ekki er þetta: Þegar ég fer út í búð, þá er ég með innkaupalista sem ég fer eftir. Ef ég sé kartöflur á listanum fer ég í rekkann þar sem kartöflurnar eru. Ef ég sé djús á listanum fer ég í rekkann þar sem djúsinn er. Ég semsagt fer þangað sem vörurnar eru, horfi á vöruúrvalið fyrir framan mig og vel það sem ég tel hagkvæmast/best að kaupa (hagkvæmasta er ekki endilega alltaf það besta - það skiptir máli hvaða klósettpappír er keyptur og hvaða kavíar verður fyrir valinu).
En bíddu nú við. Hvar eru hollustuvörurnar? Er hollustusafinn hjá öllum hinum söfunum? Er sykurlausa súkkulaðið hjá öllu sælgætinu? Nei. Allar hollustuvörurnar eru saman á ganginum þar sem hollustuvörurnar eru geymdar. Hvernig á ég þá að muna eftir því? Ég er bara svona venjuleg kona sem er jú aðeins að passa línurnar en er ekkert endilega að hugsa um að kaupa allt það hollasta, ég skoða bara úrvalið af því sem er í hillunum fyrir framan mig og kaupi það sem mér líst best á. Ef hollustuvaran er ekki meðal þeirra vara sem eru fyrir framan mig þau kaupi ég hana ekki. Punktur. Ég nenni ekkert að fara fyrst í hollustuganginn og týna saman af listanum það sem er þar. Af hverju ekki? Kannski hefði ég frekar viljað kaupa einhvern annan djús heldur en hollustudjúsinn - og þá þarf ég að fara á tvo staði. Fyrst á hollustuganginn og svo þar sem restin af djúsnum er og ákveða hvort ég vilji halda mig við hollustudjúsinn sem er í körfunni hjá mér eða skipta fyrir eitthvað annað sem er í hillunum. Og ef ég ákveð að mig langi meira í Brazza heldur en hollustudjús þá þarf ég að gera starfsfólki búðarinnar óleik með því að skilja hollustudjúsinn eftir í hillunni með hinum djúsnum því ekki nenni ég nú aftur að fara í hollustuganginn til að skila flöskunni.
Ég segi því, kæru verslunareigendur, farið nú að blanda saman hollustuvörunum við allar hinar vörurnar og gerið mér og fleirum þetta aðeins auðveldara fyrir. Það er hægt að merkja hillurnar með "lífrænt ræktað" eða "lífsval" eða eitthvað álíka - eitthvað sem gæfi til kynna að það sé nú hollara að kaupa þetta heldur en hitt. En endilega, hafið hollu vörurnar á sama stað og hinar.
Lífræn ræktun skynsamleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.