Æðisleg helgi að baki

Síðasta vika var æði strembin. Í vinnunni var verið að gefa út Markaðsvaktina svo það var nóg um að vera við að koma útgáfunni í gott stand og koma henni svo út. Í aukavinnunni var líka nóg að gera - námskeið og þriðjudag og fimmtudag. Svo var læknisskoðun og þolpróf fyrir astma fjallgönguna, æfing í súludansinum auðvitað og svo æfingar fyrir ræðukeppnina sem fór fram á landsþingi.

Snemma á föstudagsmorgun var svo haldið út úr bænum og keyrt í Reykholt þar sem  landsþing JCI var haldið. Á föstudag voru þingfundir, kosið um lagabreytingar, kákus (frambjóðendur til landsstjórnar með framboðsræður sínar), kosið um landsstjórn og svo var komið að ræðukeppninni. JCI Esja og JCI Reykjavík kepptu um bikarinn og var umræðuefnið "Það á að banna Facebook.com" og var JCI Reykjavík tillöguflytjandi (s.s. með því að banna). Keppnin var mjög spennandi og skemmtileg og var mikið hlegið.
Í kvöldmatnum voru svo úrslit úr ræðukeppninni og kosningu um landsstjórn kynnt. Ræðukeppnina unnu JCI Reykjavík en ég var ræðumaður dagsins (veeei).
Eftir kvöldmat héldu allir upp á herbergi til að taka sig til fyrir þemakvöldið. Þema landsþings var "fornar hetjur" en flestöllum datt einfaldasti búningurinn í hug - grískar hetjur - auðvelt að útbúa tóga. Mjög skemmtilegt kvöld.

Á laugardagsmorgun var svo námskeið með besta leiðbeinanda Evrópu (hann var valinn besti leiðbeinandinn á evrópuþingi JCI í vor), Filipe Carrera en hann kenndi okkur um tengslanet.
Eftir hádegismat hélt þingið svo áfram, fundir, open forum o.fl. Eftir það fengum við Tryggvi okkur lúr til að hlaða aðeins batteríin fyrir kvöldið, en það byrjaði á kokteil og svo Gala dinner.
Á Gala dinnernum voru úrslit úr Kvæðakútnum tilkynnt (fyrripartur var dreginn fram á föstudeginum og hafði maður til miðnættis að skila) og svo var verðlaunaafhending.

Nokkru fyrir landsþing var hægt að sækja um hin og þessi verðlaun og þurfti að skila inn ítarlegum umsóknum. Dómnefnd fór svo yfir þessar umsóknir og mitt aðildafélag, JCI Esja vann 14 verðlaun (næstum því öll :)). Ég fékk verðlaun (vei vei) fyrir Nýliða ársins! Tryggvi fékk verðlaun fyrir mestu aukningu á JC braut (s.s. fyrir hvað hann er búinn að vera duglegur), fyrir besta stjórnarmaninn og svo ein verðlaun sem var ekki hægt að sækja um heldur tilnefnir fjölskylda þess sem gaf bikarinn ræðumann ársins - sem var einmitt Tryggvi. Auk þessara verðlauna fékk Arna Björk verðlaunin leiðbeinandi ársins, Tómas fékk Mike Ashton bikarinn sem er mikill heiður, JCI Esja fékk svo verðlaun fyrir "verkefni ársins", "samstarf ársins", "forseti ársins", "aðildafélag ársins", "besta útgáfan", "besta heimasíðan", "mesta fjölgun og endurnýjun", "besta erlenda samstarfið" - held ég sé að fara rétt með þetta allt saman :)

Þvílíka bikaraflóðið - virkilega gaman að þessu.

En galakvöldið hélt áfram, eftir matinn var dansiball og náttfatapartý - allir fóru úr fínu fötunum og yfir í þægileg náttföt. Mjög gaman.

Við sváfum svo bara út á sunnudaginn, misstum af námskeiðinu sem var á sunnudagsmorgun en ekki skrýtið að við skyldum ekki vakna þar sem við höfum nánast ekkert sofið alla vikuna. Og nú er ég að skrifa blogg sem örugglega enginn nennir að lesa í heild sinni - klukkan tvö - í staðinn fyrir að sofa... já - ég er farin að sofa. Góða nótt :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband