Æj hvað ég er orðin leið á þessu

já, leið á þessu endalausa væli. Hvað græðir maður á því að grýta alþingishúsið og leita að blórabögglum? Hvað græðir maður á því að rífast og skammast daginn út og inn og kenna einhverjum jakkafataklæddum mönnum um ástandið heima hjá sér og öðrum? EKKI NEITT! Það eina sem gerist er að maður eyðir orku í ekki neitt og lokar huganum fyrir öllu því góða sem maður hefur. Neikvæðni og æsingur færir manni ekkert jákvætt.

Ég er líka orðin hundleið á því hvað fjölmiðlar taka mikið þátt í þessu og mála svarta mynd af öllu og blása allt upp. Hvað er málið með að birta milljón litlar fréttir af þessum mótmælum á austurvelli? Æsifréttamennska - ég þoli hana ekki. Gerir ekkert annað en að æsa fólk upp (enda kallað æsifréttamennska) - og koma fólki í vont skap. Enda er ég nánast hætt að lesa og hlusta á fréttir. "Ha? fylgistu þá ekkert með hvað er að gerast í þjóðfélaginu?" Jú, ég fylgist alveg með, ég tala við fólk og það er nóg af fólki sem verður á vegi mínum sem getur sagt mér hvað er að gerast - og æsir mig ekki svona upp.

Já, ég veit vel að það er fullt af fólki sem á um mjög sárt að binda. Búið að missa vinnuna sína, búið að missa bílinn, er á leiðinni að missa húsið, er kannski búið að missa allan sparnaðinn o.s.frv. Og margt af þessu fólki er ekki eitthvað af því sem stóð í neyslufylleríinu og var að taka 100% lán. Eða fólk sem hlustaði í blindni á aðra sem ráðlagði því að setja allan sinn sparnað í peningamarkaðssjóð. Því fólki finn ég alveg til með - ekki misskilja mig þar.

En fólkið sem tók FULLAN ÞÁTT í neyslufylleríinu hefur engan rétt til þess að kenna einhverjum "örfáum jakkafataklæddum mönnum" um hvernig er ástatt hjá sér. 100% lán, endurfjármagnanir, kaupa hús sem er flottara en nágrannans - rústa öllu útúr því og setja allt nýtt í staðinn - maður verður nú að vera flottari en náunginn! Nýr sófi, nýtt sjónvarp, nýtt eldhús, nýr ísskápur sem segir manni hvenær mjólkin er búin, Audi, Bens, BMW, Range Rover.. á 90-100% erlendu bara. Já já, borga bara með endurfjármögnun með veði í húsinu. Sparnaður? Já set hann bara allan í hlutafé og peningamarkaðssjóð sem er "high risk" - það gerist aldrei neitt hvort sem er, alveg jafn öruggt og venjulegur reikningur. Ef þú ert einn af þessum, þá vorkenni ég þér ekki neitt. Vona bara að þú hafir lært af þessu og gerir þetta ekki aftur!

Mér líður alveg jafn vel í dag og fyrir tveimur mánuðum síðan. Skítt með það þó ég hafi minna á milli handanna, ég er með þak yfir höfuðið, er með fullan frysti af mat og bý með manni sem elskar mig. Ég á góða fjölskyldu, góða vini og held áfram að taka virkan þátt í félagslífinu - alveg eins og áður.

"Og hvað? Eigum við bara að láta þessa menn sem eru ábyrgir sleppa?" - Umm - komu þessir menn heim til þín og neyddu þig til að taka 100% lán? Komu þessir menn heim til þín og neyddu þig til þess að stækka við þig? Komu þessir menn heim til þín og neyddu þig til að skrifa undir fjármögnunina á nýja flotta bílnum "þínum"? NEI.

Hvernig væri að nýta orkuna í eitthvað jákvætt? Finna tækifærin sem eru þarna úti? Búa til ný tækifæri? Ef maður lifir í eintómri neikvæðni og reiði sér maður aldrei þessi tækifæri. Ég sé hinsvegar fullt af þeim - og lifi í landi tækifæranna. Þetta er líka kjörið tækifæri til að gera eitthvað með fjölskyldunni. Það kostar nú ekki mikið að fara í gönguferðir og anda að sér fersku loftinu, fara í fjallgöngur, lautartúr. Og nú eru jólin í nánd. Hvernig væri að hætta þessari jólageðveiki sem hefur alltaf verið og njóta þess að vera með fjölskyldunni um jólin. Baka saman jólakökur í stað þess að kaupa þær, föndra fallegt jólaskraut, búa til sultur eða sælgæti til að gefa vinum og ættingjum, í stað þess að kaupa dýrasta og flottasta georg jensen kertastjakann...

Mér finnst gott að þjóðin fái smá spark í rassinn núna eftir þetta eyðslufyllerí og læri að lifa lífinu og fara rétt með peninga.

Ef þú ert reiður eftir þessa lesningu ... hættu að hugsa um hvað þú átt ekki.. og enn síður um hvað aðrir eiga! staldraðu frekar aðeins við og líttu í kringum þig og hugsaðu um hvað þú átt.


mbl.is Eggjum kastað í Alþingishúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið vit í þessari grein hjá þér. Vona að sem flestir lesi hana.

Gulli (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 17:04

2 Smámynd: Sporðdrekinn

Heldur þú að allt fólk sem hefur farið illa út úr þessu hafi tekið þátt í svo kölluðu neyslufylleríinu. Nei því miður þá er það ekki satt, það er fullt af fólki sem að lifði ekki af efnum fram en er samt að fá skell.

Ég vill frekar sjá hluti unna í friði en með látum, en ég held að fólk sé bara svo ráðþrota.

Og já, fólk er reitt yfir því að landinu þeirra hafi verið komið í svona miklar skuldir. Og þó að stór hluti landans hafi tekið lán þá þýðir það ekki að það hafi komið landinu á hausinn. Þegar að þú ferð í banka til að taka lán þá ert þú ekki að spá í  það hvort að bankinn geti staðið undir því. Þú treystir á að þeir sem að stjórna bankanum viti hvað þeir eru að gera. Því að það eru þeir sem að stjórna en ekki þú.

Starfsmenn bankanna hringdu í fullt fullt af fólki sem var með peningana sína inni á öruggum bókum og taldi það á að setja peningana sína annarstaðar. Því var talið trú um að þetta væri 101% öruggt. En því miður töpuðu margir mörgum miljónum á þessu, það eina sem að þetta fólk gerði rangt var að treysta fólkinu í bankanum.

Sporðdrekinn, 8.11.2008 kl. 17:28

3 identicon

Æji, krumpar þetta stílinn?

Hvað á ég að segja við föður minn sem er á eftirlaunum, hefur alltaf lifað sparlega, endurnýtt allt sem hægt er og keypt allt sem hann á eins ódýrt og hann getur. Svo þegar hann selur húsið sitt þá fer hann í KB og leggur í sjóði sem áttu að vera öruggir. Nú veit hann ekki hvað er í gangi, skilur ekki afhverju eftirlaunin duga ekki fyrir mat og lágmarks uppihaldi og hann hefur ekki aðgang að því sem að situr eftir í sjóðum, ef eitthvað er. Eða við vinkonu mína sem að missti vinnuna í síðasta mánuði og hún er með tvö lítil börn. Leigan er 120 þús á mánuði og innkaupakarfan er 20-30% dýrari en hún var fyrir hálfu ári. Atvinnuleysisbæturnar eru 130 þús á mánuði. Reiknaðu dæmið.Eða vinarfólk mitt sem að freistaðist til að stækka við sig þegar að barn númer 3 kom. Eiga þau að skammast sín fyrir að taka lán í myntkörfu eftir að hafa verið sagt að væri það besta á markaðnum???Eða vin minn sem að er við það að missa fyrirtækið sitt vegna þess að það er ekki til gjaldeyrir til að leysa út vöruna sem situr á hafnarbakkanum erlendis?Ef að fólk vill mótmæla þá er það réttur þeirra. Fólk er reitt og það eru eðlileg viðbrögð því ráðamenn þessarar þjóðar eru búnir að ljúga að því, blekkja og standa aðgerðarlausir þegar þeir vissu í hvert stefndi. Þeir hlustuðu ekki á sérfræðinga sem að vöruðu við þessu heldur héldu áfram að leika leikinn. Staðreyndin er sú að ákvarðanataka þeirra og heigulskapur er að hafa áhrif á FULLT AF SAKLAUSU fólki. Gömlu fólki, fólki sem er bara að reyna að lifa en missir vinnuna, börnin okkar sem munu borga brúsann og fólk sem að freistaðist til að hlusta á "sérfræðinga".Vertu bara í afneitun. Það er örugglega ágætis staður að vera á þessa dagana. En ekki drulla yfir fólkið sem að er að berjast fyrir rétti sínum. Þetta er réttur fólksins.

Linda (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 18:25

4 identicon

sammála Lindu. Við getum náttúrulega líka sungið ,,don´t worry be happy" og látið þá halda áfram að leika sér með peningana okkar, orðstír okkar og framtíð barnanna okkar. Svo virkja þeir bara allt draslið og við fáum vinnu í álverum. Gott mál.

María (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 19:25

5 identicon

Pallýanna mín!

Júlía Rós (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 22:13

6 Smámynd: Guðlaug Birna Björnsdóttir

Alveg yndislegt hvernig fólk les en sér bara það sem það vill...
Auðvitað finn ég til með þeim sem lentu í þessu.. fólki sem var ráðlagt að gera þetta og hitt og fylgdi þessum ráðum í blindni. Eða fólki sem var sagt upp, auðvitað finn ég til með þeim! Ég sagði "ekki misskilja mig" - og svo sagði ég "En fólkið sem tók FULLAN ÞÁTT í neyslufylleríinu hefur engan rétt til þess að kenna einhverjum "örfáum jakkafataklæddum mönnum" um hvernig er ástatt hjá sér."

Auðvitað er við stjórnarmenn bankanna og stjórnarmenn landsins að saka og sjálfsagt að draga menn til ábyrgðar - en það sem ég er að segja er að ég er orðin þreytt á þessu endalausa væli. Já, auðvitað er fólk reitt og hefur fullan rétt á því en hvað í ósköpunum hjálpar það til að kasta eggjum í eitthvað hús? Hvernig í ósköpunum hjálpar það þjóðinni - og sjálfri mér ef ég nota orku mína á neikvæðan hátt?

Já, mér finnst gott að vera pollýanna og mér líður vel með það. Ég er svo heppin að vera í frekar góðri stöðu. Þegar ég keypti íbúðina sem ég bý í þá voru fasteignasalinn og bankinn að reyna að fá okkur til að taka myntkörfulán, en við sögðum "nei nei nei" og gerðum það ekki. Við vorum bara ekki tilbúin til að taka á okkur þann skell EF krónan færi til fjandans - sem hún svo gerði. Ef ég hefði tekið "gylliboðinu" og skellt mér á myntkörfulánið þá væri ég ekki í svona góðum málum. Ég væri eflaust reið og sár út í þá sem ráðlögðu mér að taka það EN ég færi ekki að kasta eggjum í hús.

Sporðdrekinn segir "Þegar að þú ferð í banka til að taka lán þá ert þú ekki að spá í  það hvort að bankinn geti staðið undir því". Nei, það er rétt, ég er ekki að spá í það hvort bankinn geti staðið undir því. Ég spái hinsvegar í því hvort ég geti staðið undir því, bæði on daily basis og ef eitthvað kemur uppá. Get ég staðið undir því ef krónan veikist? Get ég staðið undir því ef annað okkar missir vinnuna? Get ég staðið undir því ef ég veikist? Bankinn stjórnar kannski hversu hátt lán ég má taka o.þ.h. - en bankinn stjórnar ekki mér. Þó ég hafi mátt taka lán upp á xx milljónir þegar ég keypti mér íbúð, þá fór ég í töluvert lægri upphæð og tók lán fyrir yy milljónir. Og ég kaupi heldur aldrei hlutabréf nema fyrir peninga sem ég er tilbúin að tapa - það er regla nr. eitt, tvö og þrjú í áhættufjármögnun.

Linda, þú segir að ráðamenn hafi ekki hlustað á sérfræðingana - og það er alveg rétt. Og þeir eru ekki ennþá að hlusta á sérfræðingana. En gleymum því ekki heldur að almenningur hlustaði ekki heldur á sérfræðingana.

María, Don't worry be happy er gott lag. Þó við séum glöð þýðir það samt ekki að við þurfum að láta þá leika með peningana okkar.. er samasem merki hjá þér að vera glaður og vitlaus?

Ég finn alveg fyrir því að það er farið að þrengja að, kaupmáttur minn er töluvert minni en hann var, ég hef staðið í þeirri óvissu að vita ekki hvort mér yrði sagt upp eða hvort ég héldi vinnunni - tvisvar. Og ég þekki alveg þessi vandræði með að geta ekki leyst út vörur.. Og ég fann virkilega vel fyrir því þegar VISA gengið rauk upp, því ég var í Danmörku þegar danska krónan kostaði allt í einu 30 krónur! Það var ekkert gaman að borga 30.000 krónum meira fyrir hótelið en ætlunin var í byrjun, og það var heldur ekkert gaman að vera í Danmörku og geta ekki verslað sér eitthvað fallegt og þurfa að halda að sér höndunum. Auðvitað fylgir þessu ekki góð tilfinning, en ég eyði ekki minni orku í að tala endalaust um það því það lagar ekki ástandið. Ég vil frekar einblína á hvert ég er að fara og hvernig ég get gert gott úr því sem ég þegar hef.

Ég ætla að rifja upp gullkorn vikunnar frá í síðustu viku:

Within every obstacle of difficulty you face, there is a seed of an equal or greater opportunity or benefit

Guðlaug Birna Björnsdóttir, 9.11.2008 kl. 13:30

7 Smámynd: Guðlaug Birna Björnsdóttir

p.s. Haukur, ég lifi ekki í lygi. Ég bara kýs að velta mér ekki upp úr forinni, heldur standa upp og horfa í kringum mig. Hver veit nema ég komi þá auga á grænan haga.

Guðlaug Birna Björnsdóttir, 9.11.2008 kl. 13:32

8 Smámynd: Tryggvi F. Elínarson

Ég gæti ekki verið meira sammála þér Guðlaug.

Ég skil fullvel reiði margra enda á hún fullkomlega rétt á sér. En staðreyndin er hinsvegar sú að þegar eitthvað fer úrskeiðis eða eitthvað mikið bjátar á þá hjálpar það ekki að leggjast í jörðina grenjandi og sprikla fótunum eins og smákrakki. Það er því miður það sem allt of margir eru að gera þessa stundina. Eyða krafti og orku í eitthvað sem skilar engu. Nákvæmlega engu. Heldur fólk virkilega að ef við hendum nógu mörgum eggjum í alþingu þá verði allt í einu bara allt í himnalagi? Þá vil ég nú heldur halda í pollýönnuhugsunarháttinn heldur en að taka þátt í einhverju sem er bæði heimskulegt og skemmir fyrir.

Það er hægt að færa forystumönnum þjóðarinnar skýr skilaboð með mótmælum, mótmælum sem fara rétt fram, með undirskriftarlistum og þess hátt. Til dæmis gæti ég trúað því að við gætum safnað á annað hundraðþúsund undirskriftum þar sem skorað væri á ráðherra að setja af stjórn seðlabankans. Og trúið mér, slík mótmæli skila mun meiri árangri heldur en eggjaþeytingur. Og það þarf ekki annað en snefil af skynsemi til að sjá það.

Því miður hafa fjölmiðlar farið algjöru offari í þessari "gósentíð" slæmra frétta og notið þess að espa upp almenning með illa framsettum, ósanngjörnum og jafnvel ósönnum fréttum. Á þeirri stundu þegar íslendingar þurfa hvað mest á stuðningi hvers annars að halda þá gera fjölmiðlar ekki neitt annað en að ala á hatri, reiði, sundrung og vonleysi. Takk kæra fjölmiðlafólk fyrir að moka drullunni yfir okkur.

Ég hef valið að eyða ekki minni orku í að velta mér upp úr drullusvaðinu því það skilar engu. Þess í stað nota ég alla mína orku og hugvit í að velta því fyrir mér hvar ég geti sparað, hvernig ég geti nýtt mínar krónur(sem eru núna mun færri en áður) betur. Ég velti því fyrir mér daglega hvar séu hugsanleg ný tækifæri. Þessi hugsunarháttur hjálpar. Þessi hugsunarháttur kemur mér eitthvað áleiðis og er tvímælalaust betri valkostur heldur en að leggjast í jörðina og sprikla grátandi.

Ég vil hvetja alla sem lesa þetta og eru enn ósáttir að staldra aðeins við og velta því fyrir sér hvað sé það besta sem þeir geti gert til að lagfæra sína stöðu í því ástandi sem við búum við. Ég er viss um að á endanum sjáið þið leiðir aðrar en eggjakast og væl.

Gangi ykkur vel!

Tryggvi F. Elínarson, 9.11.2008 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband