Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Urrabítann

Þó ég vakni á morgnana til að fara á hlaupabretti eða aðrar æfingar þá er ekki þar með sagt að það sé auðvelt. Sumir tala um A og B manneskjur, ég er hvorugt. Ég fer reyndar frekar seint að sofa en ég verð samt mjög þreytt eftir kl. 22 og er varla vinnuhæf eftir það. Og ég á mjög erfitt með að vakna á morgnana. Sumir segja að maður geti vanið sig á að fara snemma að sofa og þá verði auðvaldara að vakna snemma. Jú, ég get vel vanið mig á að fara snemma að sofa og ég get vel vanið mig á að vakna snemma, en það gerir það samt aldrei auðveldara að vakna snemma. Ég er, hef alltaf verið og mun alltaf vera morgunfúl. Eða réttara sagt, ég er, hef alltaf verið og mun alltaf vera grumpy þegar ég er þreytt, hvort sem það er kvöld, dagur eða morgunn.

Nú eru ekki margir sem hafa séð mig grumpy eða reiða þar sem ég er að eðlisfari með mikið jafnaðargeð. Ég er ekki að stökkva upp á tær mér við minnsta tilefni og það þarf í raun mikið til.

En ef einhvern langar að sjá mig reiða væri hægt að koma í heimsókn að morgni til og vekja mig. Ég vil þó ekki hvetja til þess ;-)

Sem dæmi, þá sagði ég við Tryggva í gærkvöldi að hann mætti reka mig á lappir rétt fyrir kl. 7 svo ég gæti farið á brettið. Ég lét klukkuna fyrst hringja kl. 6.40 (því mér finnst svo gott að snúsa) og planið var að fara á fætur 6.50. Klukkan hringdi og þegar ég teygði mig eftir klukkunni skellti Tryggvi hendinni á sér undir mig svo ég gæti ekki lagst aftur niður.
Þetta er það sem hann fékk út úr því:

angry_bear

Urrr... ég var ekkert smá pirruð. Hann var að trufla mig því ég ætlaði sko að sofa í 10 mínútur í viðbót! Já, það þarf lítið til þess að ég urri svona á morgnana. Smá pot - og ég gæti bitið :-)

Það á sko ekki að trufla birni í dvala (ekki að ég sé í dvala en..)

Sleeping-Bear

Workout mania

Jæja, nú er ég loksins farin að hreyfa á mér rassinn aftur eftir nokkurt hlé. Nei nei ég hef svosem ekki legið alveg flöt í sófanum allan tímann, búin að fara í tvær fjallgöngur, fór jú í súludansinn sem ég hef mætt illa í og hef hlaupið nokkrum sinnum. En ég hef ekki gert neitt reglulega. En nú er komin breyting þar á.

Ég fann síðu á netinu sem heitir Gyminee og hún er vægast sagt algjör snilld. Það er hægt að skrá sig frítt þarna inn og samt fær maður geðveikt mikið fyrir það. Svo er að sjálfsögðu hægt að kaupa sér aðgang og þá fær maður ennþá meira af flottum hlutum. En það sem maður fær í fría "accountinum" er samt alveg ótrúlega mikið. Þarna getur maður sett inn upplýsingar um sjálfan sig, þyngd, hæð, og allt svoleiðis og maður fær súlurit þar sem maður getur fylgst með árangrinum. Það er hægt að setja inn allt sem maður borðar yfir daginn (hægt að vista inn upplýsingar sjálfur - setti t.d. inn Skyr.is) og maður sér myndrænt hvort maður sé að borða rétt. Það er hægt að setja inn þann kaloríufjölda sem maður ætlar/á að borða yfir daginn, bæði hægt að stilla það sjálfur og hægt að setja inn takmarkið sitt og þá er allt reiknað út fyrir mann - og ef maður er ekki að borða rétt þá er manni sagt það. Svo eru hægt að setja inn æfingar sem maður hefur stundað yfir daginn og þá er hægt að fylgjast með hversu duglegur maður er. Þarna eru meira að segja alls konar æfingaáætlanir sem hægt er að fylgja. T.d. er ég núna komin í æfingaprógrammið "Killer abs" sem samanstendur af 2xfjórum æfingum. Þ.e. fjórar mismunandi æfingar fyrir efri magavöðva, og svo fjórar mismunandi æfingar fyrir neðri magavöðva. Þegar maður er svo búinn að gera æfingarnar er hægt að setja inn hversu mikið maður gerði. Og svo getur maður bætt við ef maður gerði eitthvað extra, eins og í dag hljóp ég 3.3 km á 25 mín.

Mæli eindregið með þessari síðu, Gyminee.com, fyrir þá sem vilja fylgjast með árangrinum sínum á góðan hátt og setja á sig áskoranir.


Gullkorn vikunnar

The only limits on what you can do are the ones you impose on yourself by your own doubts and fears

positive

Fjall nr. 2 búið

Og það var ekkert svo erfitt, mun auðveldara en síðast :)

Eins og sést á myndinni hér að neðan þá er það töluvert bratt. Mikill halli upp í byrjun, svo kemur sylla þar sem maður nær andanum aftur. Svo kemur aftur töluvert bratt og að lokum þarf að klifra upp á toppinn.

Flestir hefðu bölvað veðrinu en eftir veðráttuna á síðasta fjalli var ég mjög sátt. Það var rigning og þoka, þoka sem gerði það að verkum að ég bara verð að fara þarna aftur síðar þegar skyggnið er betra, því ekkert var útsýnið á toppnum (sem var reyndar frekar fúlt). Það opnaðist reyndar smá gluggi í smástund þannig að við sáum að Hafravatni en ekkert lengra. Þar að auki var gestabókin ekki í kassanum á toppnum svo ég þarf að koma aftur til að kvitta :)

Uppgangurinn tók um 1 1/2 klst og niðurgangurinn rúmlega 1/2 klst (gaman að nota þessi orð hehe)

Vífilsfell

Næsta fjall er svo Keilir


Æj hvað ég er orðin leið á þessu

já, leið á þessu endalausa væli. Hvað græðir maður á því að grýta alþingishúsið og leita að blórabögglum? Hvað græðir maður á því að rífast og skammast daginn út og inn og kenna einhverjum jakkafataklæddum mönnum um ástandið heima hjá sér og öðrum? EKKI NEITT! Það eina sem gerist er að maður eyðir orku í ekki neitt og lokar huganum fyrir öllu því góða sem maður hefur. Neikvæðni og æsingur færir manni ekkert jákvætt.

Ég er líka orðin hundleið á því hvað fjölmiðlar taka mikið þátt í þessu og mála svarta mynd af öllu og blása allt upp. Hvað er málið með að birta milljón litlar fréttir af þessum mótmælum á austurvelli? Æsifréttamennska - ég þoli hana ekki. Gerir ekkert annað en að æsa fólk upp (enda kallað æsifréttamennska) - og koma fólki í vont skap. Enda er ég nánast hætt að lesa og hlusta á fréttir. "Ha? fylgistu þá ekkert með hvað er að gerast í þjóðfélaginu?" Jú, ég fylgist alveg með, ég tala við fólk og það er nóg af fólki sem verður á vegi mínum sem getur sagt mér hvað er að gerast - og æsir mig ekki svona upp.

Já, ég veit vel að það er fullt af fólki sem á um mjög sárt að binda. Búið að missa vinnuna sína, búið að missa bílinn, er á leiðinni að missa húsið, er kannski búið að missa allan sparnaðinn o.s.frv. Og margt af þessu fólki er ekki eitthvað af því sem stóð í neyslufylleríinu og var að taka 100% lán. Eða fólk sem hlustaði í blindni á aðra sem ráðlagði því að setja allan sinn sparnað í peningamarkaðssjóð. Því fólki finn ég alveg til með - ekki misskilja mig þar.

En fólkið sem tók FULLAN ÞÁTT í neyslufylleríinu hefur engan rétt til þess að kenna einhverjum "örfáum jakkafataklæddum mönnum" um hvernig er ástatt hjá sér. 100% lán, endurfjármagnanir, kaupa hús sem er flottara en nágrannans - rústa öllu útúr því og setja allt nýtt í staðinn - maður verður nú að vera flottari en náunginn! Nýr sófi, nýtt sjónvarp, nýtt eldhús, nýr ísskápur sem segir manni hvenær mjólkin er búin, Audi, Bens, BMW, Range Rover.. á 90-100% erlendu bara. Já já, borga bara með endurfjármögnun með veði í húsinu. Sparnaður? Já set hann bara allan í hlutafé og peningamarkaðssjóð sem er "high risk" - það gerist aldrei neitt hvort sem er, alveg jafn öruggt og venjulegur reikningur. Ef þú ert einn af þessum, þá vorkenni ég þér ekki neitt. Vona bara að þú hafir lært af þessu og gerir þetta ekki aftur!

Mér líður alveg jafn vel í dag og fyrir tveimur mánuðum síðan. Skítt með það þó ég hafi minna á milli handanna, ég er með þak yfir höfuðið, er með fullan frysti af mat og bý með manni sem elskar mig. Ég á góða fjölskyldu, góða vini og held áfram að taka virkan þátt í félagslífinu - alveg eins og áður.

"Og hvað? Eigum við bara að láta þessa menn sem eru ábyrgir sleppa?" - Umm - komu þessir menn heim til þín og neyddu þig til að taka 100% lán? Komu þessir menn heim til þín og neyddu þig til þess að stækka við þig? Komu þessir menn heim til þín og neyddu þig til að skrifa undir fjármögnunina á nýja flotta bílnum "þínum"? NEI.

Hvernig væri að nýta orkuna í eitthvað jákvætt? Finna tækifærin sem eru þarna úti? Búa til ný tækifæri? Ef maður lifir í eintómri neikvæðni og reiði sér maður aldrei þessi tækifæri. Ég sé hinsvegar fullt af þeim - og lifi í landi tækifæranna. Þetta er líka kjörið tækifæri til að gera eitthvað með fjölskyldunni. Það kostar nú ekki mikið að fara í gönguferðir og anda að sér fersku loftinu, fara í fjallgöngur, lautartúr. Og nú eru jólin í nánd. Hvernig væri að hætta þessari jólageðveiki sem hefur alltaf verið og njóta þess að vera með fjölskyldunni um jólin. Baka saman jólakökur í stað þess að kaupa þær, föndra fallegt jólaskraut, búa til sultur eða sælgæti til að gefa vinum og ættingjum, í stað þess að kaupa dýrasta og flottasta georg jensen kertastjakann...

Mér finnst gott að þjóðin fái smá spark í rassinn núna eftir þetta eyðslufyllerí og læri að lifa lífinu og fara rétt með peninga.

Ef þú ert reiður eftir þessa lesningu ... hættu að hugsa um hvað þú átt ekki.. og enn síður um hvað aðrir eiga! staldraðu frekar aðeins við og líttu í kringum þig og hugsaðu um hvað þú átt.


mbl.is Eggjum kastað í Alþingishúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjall nr. 2 á morgun

Á morgun mun ég klífa fjall nr. tvö í fjallaþjálfuninni. Mun það vera fjallið Vífilsfell. Vanir fjallgöngumenn segja það vera lítið mál en fyrir mér er það stórt og mikið, en ég ætla mér alla leiðina upp! :)

Vífilsfell

Að búa til brjóstsykur - gott í kreppunni

Í gær kom frétt á dv.is sem tengist fyrirtæki okkar Tryggva, Nammiland.is. Í fréttinni var rætt við Svandísi á Selfossi en hún kom til okkar á námskeið til þess að gerast leiðbeinandi og hefur haldið námskeið heima hjá sér.

Fréttina er hægt að nálgast hér: http://www.dv.is/frettir/2008/11/2/brjostsykursjol-i-kreppunni/

Fyrirsögn fréttarinnar er "Brjóstsykursjól í kreppunni", sem eru alveg sannindi því það að búa til brjóstsykur er alla jafna mun ódýrara en að kaupa tilbúinn brjóstsykur út í búð, auk þess sem hann er alveg náttúrulegur og engin aukaefni og því mun hollari. Ef við tökum sem dæmi, þá er hægt að kaupa á nammiland.is ýmiss konar pakka, þar á meðal er lakkríspakki, mentholpakki, bavíanapakki og kólapakki og eru allir þessir pakkar á 1.695 kr (þegar þetta er skrifað) og úr hverjum pakka fást um 2 kg af brjóstsykri. Það þýðir að kílóverðið á þessum pökkum er aðeins tæpar 850 kr. - sem ég held að sé frekar erfitt að finna úti í búð.

Auk þess sem heimalagaður brjóstsykur er ódýr er þetta mikil félags- og fjölskylduskemmtun, það er virkilega gaman að koma saman og búa til brjóstsykur og einnig gaman að gefa heimalagaðan, handunninn brjóstsykur í jólagjöf.

Nú ef svo ólíklega vill til að maður er ekki spenntur fyrir brjóstsykursgerð en veit af fólki sem er spennt fyrir því þá býður Nammiland.is nú upp á gjafabréf á brjóstsykursnámskeið en einnig er sniðugt að gefa startpakka í jólagjöf.

Nú er dagskráin hjá okkur Tryggva að fyllast í nóvember og desember þar sem ekkert lát virðist á námskeiðshaldi í brjóstsykursgerð, saumaklúbbar, vinkonu/vinahópar, starfsmannafélög o.fl. eru nú á fullu að panta hjá okkur námskeið í brjóstsykursgerð fyrir jólin. Ef einhvern langar á námskeið þá er um að gera að senda okkur póst á namskeid@nammiland.is.

Í gær héldum við mjög skemmtilegt námskeið, barnanámskeið í brjóstsykursgerð en þar komu saman nokkur börn ásamt foreldrum sínum og fengu að klippa og móta brjóstsykursmola og búa til sleikipinna. Þeim fannst það mjög skemmtilegt og fóru kát og stolt út með sinn brjóstsykur. Ímyndunaraflið hjá börnunum hefur litlar hömlur og kenndi ýmissa grasa á námskeiðinu, m.a. gerði ein fiðrildabrjóstsykur, önnur gerði tvíburasleikjó, og svo voru þarna snúningssleikjóar, koddar, kúlur, lengjur o.fl.

Talandi um börnin, þá ætlum við einmitt að fara að bjóða upp á nýjung hjá Nammilandi en það er að koma í barnaafmæli og búa til brjóstsykur með krökkunum. Svo ef einhver er að fara að halda barnaafmæli á næstunni, endilega hafið samband við okkur og við skoðum hvað er hægt að gera :-)

Spennandi tímar framundan og nóg að gera í kringum jólin :-)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband