Tónleikar og veikindi

Á fimmtudag var ég búin á því í skrokknum eftir hjólreiðar, hlaup og curves æfingar vikunnar. Svo að ég ákvað að fara á bílnum í vinnuna og hvíla skrokkinn. En neeeei.. þá fór að örla á kvefi og hálsbólgu. Jæja.

Á miðvikudaginn höfðu mér áskotnast miðar á tónleika Amiinu (vinnufélagi sem vann miðana en var að fara til Ítalíu á fimmtudagsmorgun gaf mér miðana - veii). Við Tryggvi fórum því á tónleika í Hafnarhúsportinu (Listasafn Reykjavíkur) og voru þeir mjög skemmtilegir. Það var bara allt flott við þá, ekki bara tónlistin sjálf heldur einnig uppsetningin á sviðinu og lýsingin. Margt frumlegt og flott þar á ferð. Tónlistin var mikið svona sírenutónlist - nútíma Enya en miklu flottari. Sá oft fyrir mér álfa og huldufólk og fannst tónlistin oft hæfa einhverju eins og Lord of the Rings. Mjög flott tónlist. Fyrir þá sem ekki vita þá er Amiina hljómsveit með fjórum stúlkum sem nota mjög óhefðbundin hljóðfæri, sagir, glös með vatni í og önnur heimasmíðuð hljóðfæri, og svo auðvitað líka hefðbundin hljóðfæri eins og raddir, hörpu og harmonikku. Með þeim á þessum tónleikum var svo strengjasveit, blásarasveit og Kippi Kaninus. Virkilega flottir tónleikar!

Á föstudag var farið að bæta í kvefið og hálsbólguna og því var aftur keyrt í vinnuna. Hafði einnig samband við hlaupaþjálfarann í astma-maraþon verkefninu hvort ég ætti ekki að fresta hlaupinu á laugardag - sem hún mælti með. Ekki hlaupa með kvef og hálsbólgu - sérstaklega þegar maður er með vott af astma. Þannig að ég afskráði mig úr því.
En föstudagskvöldið var hápunktur helgarinnar. Tónleikar með Jet Black Joe, gospelkórnum o.fl. Þeir voru alveg magnaðir. Það var tríó frá "eyjunni í suðri" sem hitaði upp. Þau tóku nokkur coverlög og stelpan var með alveg hreint magnaða rödd þó hún væri kvefuð (sem heyrðist aðeins í einu lagi þar sem röddin brast á háu tónunum). Held hún hafi einhverntíma keppt í ædolinu.
Svo kom Palli á svið ásamt Gospelkór Reykjavíkur og að ég held mezzoforte bandinu og þau tóku nokkur gospellög. Svo brá Palli sér bakvið til að fara í leðurbuxurnar og á meðan hélt Gospelkórinn áfram.
En svo byrjaði fjörið - Jet black joe í fullu fjöri og ekki búnir að gleyma neinu. Gospelkórinn söng stundum með þeim og var það oftast mjög flott. Sigga Guðna [s.s. EKKI systir hans, fannst Tryggvi segja það við mig..fannst það skrýtið en hvað veit ég :)] kom og söng lagið sitt og hún var sko heldur ekki búin að gleyma neinu, þvílík rödd í stelpunni. En Palli skemmti sér alveg konunglega og ég held að hann hafi barasta ekki viljað hætta hehe hann var að fíla sig svo á sviðinu.
Tónleikarnir voru alveg stórskemmtilegir og ég sé ekki eftir að hafa dröslað mér þangað drullukvefuð og snítandi mér í öðru hverju lagi.

Annars hefur helgin bara verið róleg - legið heima og æft mig fyrir ræðukeppni milli þess sem ég ligg í sófanum og horfi á eitthvað skemmtilegt efni. Reyndar ekki gaman að æfa ræðuna með röddina svona "góða" en ég verð að æfa mig - keppnin er í byrjun júní og því stutt í hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband