Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Flott mynd

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá myndina og áður en ég las fyrirsögnina var "haugur af orustuflugvélum". Svo sá ég að þetta voru mýflugur. Ótrúlega flott tekin mynd :-)
mbl.is Rykmýið í Mývatni í hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smokkar

Hvað er málið með það að það sé 1. erfitt að nálgast smokka og 2. að smokkar séu svona dýrir?
Ég fór í smá smokkaleiðangur í gær til þess að búa til smokkatré handa bróður mínum (sem er önnur saga). Ég byrjaði á því að fara í apótekið. Þar sá ég hillu með alls konar unaðsvörum, geli til að auka fullnægingu o.þ.h. En þar voru engir smokkar. Þeir voru líklegast á bakvið afgreiðsluborðið (til að minnka stuld á þeim líklega). Það var heilmikil röð svo ég ákvað að fara annað að leita að smokkum. Fór því í Hagkaup (var í Kringlunni). Þar byrja ég á því að leita við kassana, því þar er smokkana oftast að finna í stórverslunum. Við kassana var bara tyggigúmmí, sælgæti, gos og helstu tímarit. Engir smokkar. Fór því í snyrtideildina þar sem sjampó, túrtappar, sokkabuxur og fleira því tengt var. Ef smokkarnir voru þar þá fóru þeir fram hjá mér. Aaaah kannski voru þeir í sjoppunni í Hagkaup. Rölti því þangað og þar fann ég þá loksins.
Fyrir aftan afgreiðsludrenginn sá ég nokkrar tegundir. Gat valið á milli tveggja pakka með 3-4 smokkum í og nokkurra pakka með 12 stykkjum. Ég bar saman verðið í flýti og sá strax að það skipti ekki máli hvort ég keypti pakka með fáum eða mörgum, þeir væru allir jafn dýrir, yfir 100 krónur stykkið. Ég sagði við afgreiðsludrenginn "Láttu mig fá einn svona pakka af Extra safe smokkum".
Hann rétti mér pakkann og spyr hvort þetta sé það besta á markaðnum. Uhh ég hef ekki hugmynd um það.. ætli þetta séu ekki þeir öruggustu þar sem þeir heita Extra safe. Hann hefur víst bara prófað Featherlite. Já gott hjá honum. Einmitt það sem ég vildi vita.

Væri ég verið óframfærinn unglingur (sem ég var sem unglingur) hefði ég nr. 1 aldrei þorað að biðja um smokka í afgreiðslu í apóteki fyrir framan langa biðröð af fólki. Ég hefði frekar þorað að halda á smokkunum, rétt afgreiðslukonunni sem hefði skannað þá inn og sett þá strax í poka, þegandi og hljóðalaust. Ég hefði aldrei þorað að biðja um smokka í sjoppunni í Hagkaup, sérstaklega ekki þegar einhver unglingsstrákur væri að afgreiða, og ég hefði farið í hnút þegar hann hefði spurt mig að einhverju svona. Nr. 2, þar sem ég er og hef alltaf verið mjög samviskusöm og passasöm stúlka hefði ég að sjálfsögðu látið mig hafa það að kaupa þessa smokka dýrum dómum. En það eru ekki allir unglingar sem tíma því. Rúmur 100 kall smokkurinn. Rúmlega 1200 kr. pakki af 12 smokkum.

Mér finnst þetta alveg skammarlegt. Í fyrsta lagi þá á ekki að vera svona erfitt að finna smokka. Jú, þá er auðvitað að finna í öllum sjoppum og öllum verslunum og á bensínstöðvum, en þeir ættu að vera mun aðgengilegri. Og í öðru lagi, hvers vegna í ósköpunum eru þeir svona helv... dýrir? Mér þætti gaman að vita hvort, og ef, þá hversu miklir skattar og álögur eru á þeim. Því mér finnst það hálf skammarlegt ef svo er.

Það ætti frekar að hvetja til þess að nota smokka með því að gera þá aðgengilegri, ódýrari og jafnvel dreifa þeim reglulega frítt. Kannski er verið að gera það að einhverju leyti t.d. í félagsmiðstöðvum o.þ.h., en það er ekki nóg. Smokkar ættu að vera niðurgreiddir og aðgengilegir!


Og það var strákur :)

Ég vil óska bróður mínum og mágkonu innilega til hamingju með litla prinsinn sem fæddist í gær. Hann var búinn að láta bíða eftir sér en svo þegar hann fattaði að það væri eurovision í gærkvöldi þá ákvað hann að drífa sig út. Fæddist um kl. 17 og fjölskyldan í Vogunum var komin heim rétt í tæka tíð til að horfa á keppnina LoL Hann var 18 merkur og 56 cm og ég hlakka til að heimsækja hann og fjölskylduna í vikunni.
bangsi

Að öðru leyti hefur helgin verið mjög fín. Á föstudagskvöldið var matarboð hérna heima en ég, gestgjafinn fór í annað partý, fór að hitta Rjómann, krakkana úr HR. Það var mjög gaman, róleg og góð stemning í því partýi. Í gærkvöldi komu Guðrún og Siggi yfir og við grilluðum okkur kjúlla til að borða yfir Eurovision sem við skemmtum okkur mikið yfir. Aðalskemmtunin fólst í að hæðast að keppendunum :) Er það ekki það sem geriri Eurovision svona skemmtilegt? :) En að Rússland ynni kom okkur öllum á óvart. En Friðrik og Regína stóðu sig alveg með prýði.


"Frábær þjónusta"

Ég hef verið að taka þátt í átakinu "hjólað í vinnuna" (eins og flestir sem lesa bloggið mitt reglulega hafa eflaust tekið eftir) og hefur það verið að gefa sig vel. Ég er ekki að hjóla eða taka strætó á hverjum einasta degi en ég hef tekið eftir að bæði spara ég bensín alveg heilan helling á þessu og ég fæ heilmikla góða hreyfingu út úr þessu.

Flesta daga hef ég ágætis tíma til þess að koma mér í og úr vinnu. Ég er ekki það tímabundin að ég verði að vera komin heim fyrir ákv. tíma eða þurfi að ná á ákv. stað fyrir ákv. tíma. Svo ég get nokkurn veginn tekið mér þann tíma sem ég þarf í að koma mér heim þá daga sem ég ákveð að hjóla eða taka strætó.

Nota bene, ég segi flesta daga, suma daga getur verið gott að vera á bíl og mikið er ég því fegin að vera ekki bundin því að þurfa að hjóla og/eða taka strætó. Ég var að hlusta á útvarpið í morgun (já í bílnum á leiðinni í vinnuna) og heyrði þá talað um strætó og sumaráætlunina sem tekur gildi 1. júní. Stofnleiðirnar sem nú eru á korters fresti munu keyra á ..... hálftíma fresti!!! (búin að staðfesta þetta á vef strætó). En hvað það er frábær þjónusta eða þannig. Ef ég er aðeins sein fyrir úr vinnunni (þarf t.d. óvænt að fara á klósettið áður en ég stekk út) verð ég bara að gjöra svo vel að bíða í hálftíma eftir næsta strætó. Þá get ég alveg eins bara hjólað alla leið í hfj. alla daga í stað þess að taka strætó og notað tímann sem hefði annars farið í að sitja kjur í holla hreyfingu.

En já, ekki að leiðakerfið sé eitthvað súper í dag. Í gær tók ég eingöngu strætó á leiðinni heim úr vinnunni (geymdi hjólið í vinnunni). Ég náði strætó um kl. hálfsex (hafði misst af strætónum á undan) og fór með honum inn í Fjörð. Þurfti að bíða þar í 20 mín eftir innanbæjar strætóium sem kom mér heim rétt eftir kl. 18. Hefði tekið mig jafn langan tíma að hjóla alla leið.

En þetta að minnka ferðirnar úr fjórum á klst niður í tvær finnst mér alveg fáránlegt og ekki vinnandi fólki sem þarf að taka strætó og þarf að komast á milli staða bjóðandi. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er á einkabíl og geri mig ekki bundna þessu elskulega strætókerfi okkar (sem þó þarf að vera til staðar hvort sem það er gott eða ekki).


17,5

Úff púff aftur. Samt ekki eins mikið úff púff.  Kannski af því að ég tók góðar pásur á milli - en samt hjólaði ég 3km lengra:)
Fór s.s. beint eftir vinnu til Tryggva uppí Ármúla og fékk mér að borða hjá honum. Eftir það hjólaði ég áleiðis til Hafnarfjarðar en fór aðra leið í Garðabænum, meðfram sjónum og í gegnum nýja hverfið og kom upp við Álftanesveginn. Fín leið, kílómetra lengri en hin leiðin sem er alveg hundleiðinleg (framkvæmdir, og vantar stíg hluta af leiðinni - lengri leiðin er líka miklu fallegri).
Þegar ég kom inn í Hfj. ákvað ég svo að koma við hjá pabba á Álfaskeiðinu. Smá útúrdúr þar líka - lengri leið heim. Þegar ég reiknaði þetta svo allt saman út fékk ég það út að ég hef hjólað um 3km lengra núna heldur en ég gerði síðast. Og það var ekki nærri því eins erfitt.
Ég ætla að tengja það þrennu.
1. Réttara klædd núna - síðast var ég of vel klædd og var of heitt. Núna var mér passlega hlýtt.
2. Búin að hreyfa mig mun meira upp á síðkastið en áður og búin að byggja upp þol og styrk.
3. Mataræðið. Er í aðhaldi og er að borða rétt. Sex máltíðir á dag og þó ég sé að borða mun færri kaloríur þessa dagana heldur en fyrir viku síðan þá hef ég miklu meiri orku.
Sjitt hvað mér líður vel með þetta :) Svo er bara að fara að hlaupa meira og þá á ég eftir að rúlla upp þessum 10km í ágúst :)


Biðin langa

Enn er verið að bíða eftir litlu frændsystkini. 40 + 6 dagar og ekkert komið enn.

Spurning hvort bróður mínum hafi dottið þessi aðferð í hug við að fá barnið til að koma út

ryksuga

 

Verður gaman þegar það loksins lætur sjá sig :) Það verður þá barnabarn nr. 10 hjá foreldrum mínum. Bræður mínir 3 hafa verið duglegir í gegnum árin.. ég er ekki enn byrjuð :)


Tónleikar og veikindi

Á fimmtudag var ég búin á því í skrokknum eftir hjólreiðar, hlaup og curves æfingar vikunnar. Svo að ég ákvað að fara á bílnum í vinnuna og hvíla skrokkinn. En neeeei.. þá fór að örla á kvefi og hálsbólgu. Jæja.

Á miðvikudaginn höfðu mér áskotnast miðar á tónleika Amiinu (vinnufélagi sem vann miðana en var að fara til Ítalíu á fimmtudagsmorgun gaf mér miðana - veii). Við Tryggvi fórum því á tónleika í Hafnarhúsportinu (Listasafn Reykjavíkur) og voru þeir mjög skemmtilegir. Það var bara allt flott við þá, ekki bara tónlistin sjálf heldur einnig uppsetningin á sviðinu og lýsingin. Margt frumlegt og flott þar á ferð. Tónlistin var mikið svona sírenutónlist - nútíma Enya en miklu flottari. Sá oft fyrir mér álfa og huldufólk og fannst tónlistin oft hæfa einhverju eins og Lord of the Rings. Mjög flott tónlist. Fyrir þá sem ekki vita þá er Amiina hljómsveit með fjórum stúlkum sem nota mjög óhefðbundin hljóðfæri, sagir, glös með vatni í og önnur heimasmíðuð hljóðfæri, og svo auðvitað líka hefðbundin hljóðfæri eins og raddir, hörpu og harmonikku. Með þeim á þessum tónleikum var svo strengjasveit, blásarasveit og Kippi Kaninus. Virkilega flottir tónleikar!

Á föstudag var farið að bæta í kvefið og hálsbólguna og því var aftur keyrt í vinnuna. Hafði einnig samband við hlaupaþjálfarann í astma-maraþon verkefninu hvort ég ætti ekki að fresta hlaupinu á laugardag - sem hún mælti með. Ekki hlaupa með kvef og hálsbólgu - sérstaklega þegar maður er með vott af astma. Þannig að ég afskráði mig úr því.
En föstudagskvöldið var hápunktur helgarinnar. Tónleikar með Jet Black Joe, gospelkórnum o.fl. Þeir voru alveg magnaðir. Það var tríó frá "eyjunni í suðri" sem hitaði upp. Þau tóku nokkur coverlög og stelpan var með alveg hreint magnaða rödd þó hún væri kvefuð (sem heyrðist aðeins í einu lagi þar sem röddin brast á háu tónunum). Held hún hafi einhverntíma keppt í ædolinu.
Svo kom Palli á svið ásamt Gospelkór Reykjavíkur og að ég held mezzoforte bandinu og þau tóku nokkur gospellög. Svo brá Palli sér bakvið til að fara í leðurbuxurnar og á meðan hélt Gospelkórinn áfram.
En svo byrjaði fjörið - Jet black joe í fullu fjöri og ekki búnir að gleyma neinu. Gospelkórinn söng stundum með þeim og var það oftast mjög flott. Sigga Guðna [s.s. EKKI systir hans, fannst Tryggvi segja það við mig..fannst það skrýtið en hvað veit ég :)] kom og söng lagið sitt og hún var sko heldur ekki búin að gleyma neinu, þvílík rödd í stelpunni. En Palli skemmti sér alveg konunglega og ég held að hann hafi barasta ekki viljað hætta hehe hann var að fíla sig svo á sviðinu.
Tónleikarnir voru alveg stórskemmtilegir og ég sé ekki eftir að hafa dröslað mér þangað drullukvefuð og snítandi mér í öðru hverju lagi.

Annars hefur helgin bara verið róleg - legið heima og æft mig fyrir ræðukeppni milli þess sem ég ligg í sófanum og horfi á eitthvað skemmtilegt efni. Reyndar ekki gaman að æfa ræðuna með röddina svona "góða" en ég verð að æfa mig - keppnin er í byrjun júní og því stutt í hana.


14.6 km á 1:12

Í morgun tók ég hjólið með mér í strætó. Hjólaði niðrí fjörð (2.6km) og úr strætó í Borgartúnið (2.2km). Tryggvi fékk mig af því að  hjóla í vinnuna í morgun því ég vissi ekki hvað það tæki langan tíma. En núna veit ég það þar sem ég hjólaði úr vinnunni og heim. Úff púff. 14.59 km á rúmri klukkustund. (nú eigið þið að segja úúú vááá í aðdáunartón) Á leiðinni tóku margir hjólreiðamenn fram úr mér. Vanir hjólreiðamenn. Þeir voru í pro hjólreiðagöllum og sumir í skærgulu vesti. Ekki vitlaust að vera í svoleiðis í þessari umferð. En já, þetta var mjög erfitt fyrir konu eins og mig - ekki í neinu formi, með þoltölu upp á 30 (sem flokkast sem "slakt") og hefur ekki hjólað í mörg ár. Kópavogur og Garðabær voru sérstaklega erfið. Ekki lítið erfitt að komast upp þessar brekkur, og svo voru þetta svo miklar krókaleiðir eitthvað. En á móti þá gat maður látið sig renna niður aftur :)
Eini kaflinn þar sem eru engir stígar eða neitt gott til að hjóla á er hjá Fjarðarkaup. Frekar lélegt. En annars voru fínir stígar alla leiðina.

Jæja... spurning hvort maður hjóli í vinnuna á morgun eða úr.. eða bæði??

Og svo er það önnur spurning - hvernig á mér eiginlega eftir að ganga í 7.5 km hlaupi á laugardaginn :|


Námskeið námskeið námskeið

Það mætti halda að ég væri námskeiðssjúk... kannski bara er ég það :) Ég veit ekki hvað ég er búin að fara á mörg námskeið síðustu vikur/mánuði, stutt og löng. Þau eru ansi mörg. Næsta námskeið sem ég fer á er tímastjórnunar námskeið sem Tryggvi kennir. Þar á eftir ætla ég svo á námskeið sem mig hefur lengi langað á og núna er síðasti séns og þá ekki annað að gera en að skella sér.

Það mun vera námskeiðið Þú ert það sem þú hugsar hjá Guðjóni Bergmann.
Á vefnum segir um það sem maður lærir:
- Lærðu meira um það hvernig hugurinn starfar og hverju þú getur stjórnað.
- Lærðu að nýta þér streitu til framdráttar en draga á sama tíma úr neikvæðum áhrifum hennar.
- Lærðu að byggja upp sjálfstraust með því að setja þér markmið og efla jákvætt hugarfar.
- Lærðu að koma lífinu í betra jafnvægi með því að skilja hinar sjö mannlegu þarfir.
- Lærðu einfalda hugleiðsluaðferð til að þjálfa upp einbeitingu og auka afköst.

Þetta er mjög spennandi og ég hlakka mikið til að fara :)


Ég er byrjuð

Vinnan tekur þátt þetta árið og erum við með tvö lið í keppninni. Ég er liðsstjóri PIC (prostitute information center) og Hrönn er liðsstjóri CIC (cannabis information center) og eru 6 manns í hvoru liði, sem þýðir að rétt rúmlega helmingur fyrirtækisins tekur þátt.

Ég á ennþá eftir að redda mér hjóli, hef væntanlega ekki tíma til þess fyrr en annaðkvöld (s.s. fara inn í bílskúr hjá tengdó og tékka á gamla hjólinu hans Tryggva) en þangað til fer ég í strætó að Kringlunni og geng þaðan. Eftir það mun ég líklega taka strætó hluta leiðarinnar og hjóla restina.

Í dag labbaði ég 2.7 kílómetra í vinnuna og annað eins mun eiga sér stað á heimleið :)


mbl.is Hjólað í vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband