Smokkar

Hvað er málið með það að það sé 1. erfitt að nálgast smokka og 2. að smokkar séu svona dýrir?
Ég fór í smá smokkaleiðangur í gær til þess að búa til smokkatré handa bróður mínum (sem er önnur saga). Ég byrjaði á því að fara í apótekið. Þar sá ég hillu með alls konar unaðsvörum, geli til að auka fullnægingu o.þ.h. En þar voru engir smokkar. Þeir voru líklegast á bakvið afgreiðsluborðið (til að minnka stuld á þeim líklega). Það var heilmikil röð svo ég ákvað að fara annað að leita að smokkum. Fór því í Hagkaup (var í Kringlunni). Þar byrja ég á því að leita við kassana, því þar er smokkana oftast að finna í stórverslunum. Við kassana var bara tyggigúmmí, sælgæti, gos og helstu tímarit. Engir smokkar. Fór því í snyrtideildina þar sem sjampó, túrtappar, sokkabuxur og fleira því tengt var. Ef smokkarnir voru þar þá fóru þeir fram hjá mér. Aaaah kannski voru þeir í sjoppunni í Hagkaup. Rölti því þangað og þar fann ég þá loksins.
Fyrir aftan afgreiðsludrenginn sá ég nokkrar tegundir. Gat valið á milli tveggja pakka með 3-4 smokkum í og nokkurra pakka með 12 stykkjum. Ég bar saman verðið í flýti og sá strax að það skipti ekki máli hvort ég keypti pakka með fáum eða mörgum, þeir væru allir jafn dýrir, yfir 100 krónur stykkið. Ég sagði við afgreiðsludrenginn "Láttu mig fá einn svona pakka af Extra safe smokkum".
Hann rétti mér pakkann og spyr hvort þetta sé það besta á markaðnum. Uhh ég hef ekki hugmynd um það.. ætli þetta séu ekki þeir öruggustu þar sem þeir heita Extra safe. Hann hefur víst bara prófað Featherlite. Já gott hjá honum. Einmitt það sem ég vildi vita.

Væri ég verið óframfærinn unglingur (sem ég var sem unglingur) hefði ég nr. 1 aldrei þorað að biðja um smokka í afgreiðslu í apóteki fyrir framan langa biðröð af fólki. Ég hefði frekar þorað að halda á smokkunum, rétt afgreiðslukonunni sem hefði skannað þá inn og sett þá strax í poka, þegandi og hljóðalaust. Ég hefði aldrei þorað að biðja um smokka í sjoppunni í Hagkaup, sérstaklega ekki þegar einhver unglingsstrákur væri að afgreiða, og ég hefði farið í hnút þegar hann hefði spurt mig að einhverju svona. Nr. 2, þar sem ég er og hef alltaf verið mjög samviskusöm og passasöm stúlka hefði ég að sjálfsögðu látið mig hafa það að kaupa þessa smokka dýrum dómum. En það eru ekki allir unglingar sem tíma því. Rúmur 100 kall smokkurinn. Rúmlega 1200 kr. pakki af 12 smokkum.

Mér finnst þetta alveg skammarlegt. Í fyrsta lagi þá á ekki að vera svona erfitt að finna smokka. Jú, þá er auðvitað að finna í öllum sjoppum og öllum verslunum og á bensínstöðvum, en þeir ættu að vera mun aðgengilegri. Og í öðru lagi, hvers vegna í ósköpunum eru þeir svona helv... dýrir? Mér þætti gaman að vita hvort, og ef, þá hversu miklir skattar og álögur eru á þeim. Því mér finnst það hálf skammarlegt ef svo er.

Það ætti frekar að hvetja til þess að nota smokka með því að gera þá aðgengilegri, ódýrari og jafnvel dreifa þeim reglulega frítt. Kannski er verið að gera það að einhverju leyti t.d. í félagsmiðstöðvum o.þ.h., en það er ekki nóg. Smokkar ættu að vera niðurgreiddir og aðgengilegir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir að hafa lesið þetta skil ég vel að þú hyggist ætla að hjálpa honum bróður þínum af stað í smokkarækt með því að gefa honum smokkatré. Það er fallega gert og þjóðþrifamál

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 09:52

2 identicon

Mamma þín var ánægð með að þið Tryggvi væruð að losa ykkur við smokkatréið og bíður frétta ;)

Júlía (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 20:46

3 Smámynd: Guðlaug Birna Björnsdóttir

Já maður þarf kannski að fara að gera eitthvað í þessu.. alveg ómögulegt að hjá 1/4 af börnunum hennar liggi helmingurinn af barnabörnunum  

Guðlaug Birna Björnsdóttir, 28.5.2008 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband