Að kynnast nýju fólki allstaðar að úr heiminum

Ég verð að vera sammála honum Tómasi sem skrifar hér (eða ég giska að það hafi verið Tómas, leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér) um eitt af því sem gerir JCI skemmtilegt, en það er í hnotskurn hvað það getur verið auðvelt að kynnast nýju fólki allsstaðar að úr heiminum.

Síðasta sunnudag komu hingað til lands tveir félagar frá JCI London (hjón) sem komu til þess að skoða land og þjóð. Þau eru nú á ferðalagi um landið. Þau höfðu samband við okkur og létu okkur vita af komu sinni og því fórum við nokkur með þau í smá skoðunarferð um borgina og út að borða. Og ekki skemmdi fyrir að þetta er alveg þrælskemmtilegt fólk og var kvöldið virkilega ánægjulegt og langt síðan ég hef hlegið svona mikið og í jafn langan tíma.

Það sem er líka svo æðislegt er að þegar við förum út, nánast hvert sem er, getum við haft samband við JCI félagið á staðnum og athugað hvort það vilji einhver koma með okkur út að borða og jafnvel farið með okkur í smá túr um bæinn eins og við gerðum fyrir þau á sunnudaginn. Eða ef maður er þegar búinn að kynnast JCI félögum frá þeim stað er auðvitað tilvalið að hafa samband við þá og efla samböndin.

Og þetta er nú aldeilis ekki eina leiðin til þess að kynnast nýju fólki út um allan heim - og heima - í gegnum JCI. Í JCI eru haldnir margir fundir og skemmtilegar samkomur. Og á hverju ári eru haldin nokkur þing. Ber þar fyrst að nefna landsþingið þar sem öll aðildafélög landsins hittast og þinga og þar gæti maður hitt félaga sem maður hefur ekki hitt áður. Auk þess sem oft koma félagar frá öðrum löndum á landsþingin.

Svo eru það "svæðaþingin" (heiminum er skipt upp í svæði og er Evrópa t.d. eitt svæði). Ég var t.d. á Evrópuþingi núna í júní, þar sem ég kynntist fólki allsstaðar að úr Evrópu, og jafnvel út fyrir Evrópu því ég hitti mjög áhugaverðan mann frá Suður-Afríku. Og svo er það auðvitað heimsþingið þar sem JCI félagar allsstaðar að úr heiminum hittist.

Og ef maður er duglegur að fara á þessi þing erlendis þá kynnist maður að auki nýjum stöðum sem manni hefði ekki endilega dottið í hug að fara á eins og núna á Evrópuþinginu sem var í Turku í Finnlandi. Ég vissi ekki einu sinni af þessari borg áður en hún er virkilega falleg og skemmtilegt að heimsækja hana. Og hver veit nema ég fari til Nýju Delí í Indlandi í vetur? Og svo er ég að fara til Aarhus í Danmörku í október, á landsþingið hjá dönum. Ekki slæmt :)

En jú, auðvitað er fleira við JCI heldur en að kynnast nýju fólki, það er svo miklu miklu meira en það, ég er þvílíkt að eflast og styrkjast við að vera í þessum félagasamtökum. En ég ætla ekki að fara út í það hérna núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband