Burt með þessa kofa

Ég hef svosem ekki lesið mér til um neina sögu þessarra húsa og veit ekki hvort hún sé merkileg og skrifa ég hér á eftir út frá mínu eigin fagurfræðilega auga.

Mitt fagurfræðilega auga segir "rífið þessi hús, ekki flytja þau annað". Þetta eru pínulitlir kofar sem passa ekki inn í bæjarmyndina (sem er annað mál sem þarf að taka á) og hindra eðlilega uppbyggingu. Ég skil ekki hvers vegna er alltaf verið að halda í einhverja litla kofa. Jú auðvitað er skiljanlegt að það sé haldið í eitt og eitt mjög merkilegt hús (þ.e. þau flutt á eitthvað safn - þau eru hvort eð er svo lítil að þau komast vel fyrir innan í nútíma stórum byggingum) en það er óþarfi að halda í hverja einustu spítu sem er meira en x gömul. Að mínu mati má gamla bæjarmyndin sem verið er að rífast um alveg hverfa fyrir einhverju nýju og betra.

En svo er það annað mál - hvað á að koma þarna í staðinn. Það er eitt sem mér finnst vanta upp á í mörgum bæjarfélögum, heildarsýn - framtíðarsýn. Skammtímalausnir og skammsýni virðast oft einkenna uppbyggingu sem þá skilar sér í sundurlausum og miður fallegum svæðum sem eru ekki í neinu samræmi við eitt eða neitt. Mér finnst oft ekki nógu mikið hugsað um svæðið í kring og hvernig svæðið í kring mun koma til með að líta út í framtíðinni. Að mínu mati er oft bara hugsað um þennan litla blett sem verið er að byggja á og ekkert verið að pæla í hvort það sé í samræmi við annað.
Tökum sem dæmi Borgartúnið þar sem ég er að vinna. Við erum í þessu fína húsnæði sem var verið að breyta (byggt ofan á og tekið í gegn að utan). Fyrir aftan okkar hús er Straums-Burðaráss húsið. Og það eru endalaust mörg stórhýsi að rísa í götunni - en mér finnst þetta vera svo mikið kaos eitthvað og ekkert verið að hugsa um umferðina hérna og hvað þá bílastæðin! Þvílík vöntun á bílastæðum. Já, oft finnst mér "skipulög" enda í hálfgerðu kaosi.


mbl.is Kúbein á lofti við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi F. Elínarson

Heyr heyr...

Orð í tíma töluð. Það virðist enginn hugsa lengra fram í tímann en nokkra mánuði. Turn hér og turn þar en gleymist alveg að gera ráð fyrir því að það komi fullt af fólki og umferð með öllu þessu skrifstofu og íbúarplássi!

Og þessi hjallar sem sjást í þessu fréttaskoti... fyrir alla muni sendið þá beint á haugana, þetta er forljótir hjallar.

Tryggvi F. Elínarson, 7.1.2008 kl. 16:48

2 identicon

Tek undir þetta - burt með þessa kofa sem hafa verið lýti á Laugaveginum og tafið fyrir uppbyggingu árum saman.  Mín vegna má setja þá upp aftur á Árbæjarsafninu ef til eru peningar í það.

Ég hef furðað mig á þessu máli; raddir þeirra sem vilja vernda sama hvað það kostar hafa verið háværar, en ekkert hefur heyrst í okkur þessum venjulegu Jónum sem vilja sjá uppbyggingu, velmegun og framþróun í miðbæ Reykjavíkur.  Ég er klár á því að meirihluti borgarbúa vill sjá þessi hús fara og sjá almennilegar byggingar koma í staðinn.

Ólafur H. Guðgeirsson (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 16:59

3 identicon

Ekki get ég nú tekið undir með ykkur elskurnar mínar! Ég vil ekki sjá þarna þriggja hæða byggingu í stað þessara ágætu einshæðahúsa sem leyfa sólina að skína á okkur miðbæjarrotturnar - og á ferðamennina.

Þið hin komið eflaust aldrei niður í bæ svo ég skil ekki hvað ykkur kemur málið við.

Annars ættir þú Guðlaug - ég tala ekki um hann Tryggva minn! - að vita betur. Fyrst þú vinnur í Borgartúni þá hefur þú líklega þurft að búa við stanslausar sprengingar í nokkur ár og ættir ekki að vilja nokkrum manni að búa við slíkan ófögnuð.

Ef reist verður þriggja hæða hýsi á þessum lóðum þá býst ég nú við að Þing- og Skólavöruholtin titri og skjálfi allt hrikalega í nokkur misseri því væntanlega þarf að sprengja fyrir grunni þessa stórhýsis.

Ég er ekki viss um að íbúar í nágrenninu - sem eru fjölmargir - né fólk sem vinnur þarna í grenndinni verði mjög hrifnir. Þá er ég ekki heldur viss um að fólk sem á þar leið hjá, sem einnig eru fjölmargir - verði mjög hrifnir af raskinu sem þessu fylgir. Það er eins og fólk gleymi slíku. Hús séu rifin og önnur byggð á einni nóttu og enginn verður fyrir neinum óþægingum þar af. 

Þú ættir sem sé að vita betur Guðlaug. Spurðu bara samstarfsfólk þitt og íbúana í Túnunum hvað þeir finnst um sprengingarnar og allt raskið þar. 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 17:48

4 identicon

Mér finnst þessi færsla vera dæmigerð fyrir þann hugsunarhátt sem ræður ríkjum á Íslandi um þessar mundir. Ef það er mögulegt, skal öllu sem komið er til ára sinna hent á haugana og ekki endilega í þeim tilgangi að byggja neitt betra í staðinn. Aðalatriðið er að rífa niður og byggja nýtt alveg sama hvaða verðmæti kunni að glatast. Það eykur hagvöxt, heldur eignaverði í hámarki og verður þess valdandi að við höfum efni á að rífa meira til að byggja meira og getum flotið sofandi að feygðarósi. Getur verið að einhvað sé að þessari jöfnu? Er jafnvel kominn tími til að staldra við og skoða hvort einhver ástæða sé til þess að vera sífellt að henda fullkomlega nýtilegum hlutum á haugana. Svo ekki sé minnst á menningararfinn sem felst í fortíð okkar íslendinga. Hálf þjóðin hefur ekki hugmynd um hvaða söguverðmæti þessi gömlu hús hafa að geyma og virðist vera nákvæmlega sama um það. Fólk virðist vilja gleyma því sem fyrst að fyrir ekki meira en 100 árum síðan bjó stór hluti fólks hér á landi við sára fátækt. Húsin við Laugarveg eru hluti af þeirri sögu og setja það í samhengi fyrir okkur hvað það þýðir að vera Íslendingar. Það virðist sem mönnum þyki einhvað óþægilegt að viðurkenna það að við erum jú flest komin af ómenntuðum bændadurgum og sjómönnum sem ekki kunnu að bursta í sér tennurnar nér né nota sápu.

Það er engin ástæða til að rífa þennan hluta laugarvegarins. Hjarta borgarinnar okkar felst í þessum húsum, sögu þeirra og sál og við eigum að hlúa að þeim. Í þeim tilfellum sem það hefur verið gert, myndast stórfalleg hverfi. Ég vil benda á að verslun á þessum hluta laugarvegar gengur ágætlega miðað við verslun á efri hluta hans, þar sem gömul hús hafa verið rifin og hús sem eru úr öllu fagurfræðilegu samhengi byggð í staðinn. Þar helst ekki nokkur maður við. Ástæðan fyrir því að fólk fer þó af og til á laugarveginn til að versla er sú að því finnst gaman að rölta um innan um þessi gömlu hús. Ef fólk hefur ekki gaman að því, fer það bara í Smáralind eða Kringluna í staðinn. Á meðan ekki er í gildi neitt framtíðarskipulag varðandi miðbæjarkjarnann tel ég ansi hætt við því að heildarmyndin hljóti skaða af framkvæmdum sem þessari sem ekki eru í neinu samræmi við miðbæjarþróun í öðrum siðmenntuðum löndum. Við skulum ekki eyðileggja eina blandaða hverfi Reykjavíkur með skammsýni.

Hjörleifur Jónsson (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 18:56

5 identicon

Kannski byrja að lesa um sögu þessara´húsa áður en þau eru rifin??? Fagurfræðilegt auga þitt sér að sjálfsögðu bara "kofa" enda hefur ekkert verið gert fyrir þessi hús og skömm af því.  Hvað er eiginlega eðlileg uppbygging í þínum huga? Eru það hótel og skrifstofur???  Það er ekkert fagurfræðilegt að hafa eitt og eitt hús innan um stórhýsi það sér hver heilvita maður jafnvel án þess að vera fagurkeri.  gamli miðbærinn á ekki að þurfa að víkja fyrir nýjum hugmyndum enda er hann tákn um sögu en ekki hugmyndir verktaka sem vaða um allan bæ án þess að nokkur fái rönd við reist með það eitt að markmiði að græða á dýrum lóðum miðbæjarins.

pilli fluga (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 19:05

6 identicon

Þú færð hrós frá mér Hjörleifur þetta er alveg rétt hjá þér.  Ég bý sjálfur í húsi byggt um 1890 í gamla miðbænum og þekki þessar hörmungar sem búið er að gera allt í kringum mig í skuggahverfinu.  Og þið Tryggvi og Ólafur ég held þið ættuð að líta í sögubækurnar ef þið eruð læsir og reyna að skilja hvað felst í sögulegum menningarverðmætum.

pilli fluga (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 19:14

7 identicon

Vá hvað ég er sammála þér Lauga.. úfhh þetta er umræðuefni sem ég pirra mig á reglulega þegar það birtist í fréttum.

Almáttugur það er ekki eins og þetta séu dómkirkjur eða ævaforn arkitektúr sem vit væri í að geyma!!

Viðbjóðslega ljótir og illa byggðir hjallar sem eru í niðurníðslu. Svo ég tali nú ekki um hættulegir, kvikni í þessu (eins og öll þjóðin varð nú vitni að í fyrra) þá fuðrar þetta upp hraðar en áramótakökur.  Illa einangrað frá tíma þar sem bréfi og gömlum dagblöðum var troðið á milli veggja til að drýgja "einangrunina" .... svo með tímanum auðvitað molnar það niður og verður að góðum eldmat...

 Burt með þetta segi ég líka, hananú og takk fyrir :)

Vala (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 23:46

8 Smámynd: Guðlaug Birna Björnsdóttir

Ég hef ekki enn verið sannfærð um að þessir tilteknir kofar ættu að halda sér. Getur einhver sagt mér frá merkilegri sögu þessarra tilteknu húsa?
Svo þegar ég er að tala um skammsýni í skipulagi þá er ég líka að tala um þegar gömul hús eru rifin og risaturn eða glerhýsi sem er ekki í neinu samræmi við það sem er í kring er potað niður í hverfi þar sem það bara passar ekki. Það er alveg hægt að byggja stórt og flott OG það er í samræmi og lúkkar vel innan um allt annað.
Hvað varðar efsta hluta verslunargötunnar þá finnst mér hún mjög flott. Ég hef svosem ekki séð sölutölur þessarra verslana sem eru komnar þarna nýjar og veit ekki hvernig þeim gengur en eftir því sem ég best sé eru þarna fullt af nýjum búðum og þær lúkka vel, allavega fyrir mér.
Það að ég sé fylgjandi því að rífa þessa kofa þýðir ekki að ég vilji rífa hvert einasta gamla hús og byggja nýtískuhús í staðinn. Það þýðir ekki að ég vilji endilega nýtískuhús í hvert horn. Eins og ég segi, það þarf að passa upp á heildarmyndina. Ég er t.d. alveg ofboðslega hrifin af þessu sem var gert við hótelið og Fjalaköttinn og þau hús niðri í Aðalstræti og safnið sem var byggt utan um fornminjarnar. Algjör snilld. Hafiði komið þangað? Að sama skapi finnst mér algjör horror þessi glerskáli sem var byggður í hinum enda götunnar, við geysishúsið (á móti Kaffi Reykjavík). Algjörlega í ósamræmi við það sem er í kring.
Ég líka dáist að fólki sem nennir að standa í að kaupa sér friðuð hús eða gömul og gera þau upp og halda upprunalegu útliti þeirra. Já, og að þeim sé haldið við, ekki látin drabbast niður. Gamalt vel við haldið hús er jafn fallegt og nýtt vel við haldið hús. Gamalt illa viðhaldið hús sem er að hruni komið er jafn ljótt og (tiltölulega) nýtt hús sem hefur ekkert verið hugsað um og er nánast strax að hruni komið eða bara orðið ljótt að utan.

Ég hef nú ekki unnið lengi í Borgartúninu en hef alveg fundið fyrir framkvæmdum (þar sem við t.d. fluttum í hús sem var ekki alveg tilbúið) en ég geri mér grein fyrir að einhverntíma líkur framkvæmdunum og er því ekkert að pirra mig mikið á þeim. Ég græði ekkert á því (minnka stress og svona) og margir mættu gera það sama. Alveg eins og það hefur ekkert upp á sig að stressa sig í umferðinni (sem ég er alveg hætt að gera og þá er heimferðin mikið notalegri). Ég vann lengi vel niðri í miðbæ, sakna þess reyndar töluvert því ég eyddi mörgum stundum gangandi laugaveginn og fara niðrá torg og fá mér ís í góða veðrinu. Eins var ég að vinna á stað sem svo sannarlega fann fyrir framkvæmdum nýja tónlistarhússins OG framkvæmdanna á húsinu í götunni á móti. Þannig að jú, ég hef alveg fundið fyrir allskonar sprengingum og lokuðum götum og þurfa að ganga og keyra yfir grófa möl því búið var að taka sundur veginn og þurfa að ganga helmingi lengri leið til að komast í strætó. En samt sem áður fagna ég þessum framkvæmdum því ég veit að á endanum þá kemur eitthvað sem hægt verður að njóta í framtíðinni.
Jú ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta getur haft alvarleg áhrif á verslun þegar aðgengi vegna framkvæmda er orðið slæmt og mætti oft gera mun betur fyrir grey verslunarmennina sem lenda í þessu. Já og í hvert einasta skipti sem ég hef gengið laugarveginn (sem var mjög oft þegar ég vann niðri í hjarta borgarinnar) þá hugsaði ég alltaf, já alltaf! hvenær þessir kofar (sem blessunarlega eru að hverfa núna) yrðu eiginlega fjarlægðir. Nú ef ekki fjarlægðir þá allavega gert eitthvað dramatískt fyrir þá svo þetta lúkkaði nú betur.

Já, ég endurtek, segið mér endilega merkilega sögu þessarra tilteknu húsa og kannski skipti ég um skoðun.

Guðlaug Birna Björnsdóttir, 8.1.2008 kl. 09:28

9 identicon

Ég vil fyrst hrósa þér Guðbjörg fyrir málefnalega umræðu. Svo læt ég hér fylgja hluta úr grein sem Guðjón Friðriksson skrifaði í lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum mánuðum. Kanski það varpi fyrir þig einhverju ljósi á sögu húsanna. Ég vona að höfundur greinarinnar lái mér það ekki.

"Húsið að Laugavegi 4 var upphaflega einlyft hús á háum kjallara, reist árið 1890 sem prentsmiðjuhús. Það var Halldór Þórðarson bókbindari sem stóð fyrir byggingunni og í henni var síðan Félagsprentsmiðjan til húsa í aldarfjórðung. Þar voru prentuð blöð eins og Fjallkonan, Þjóðólfur og Vísir á upphafsárum sínum. Síðan voru verslanir í húsinu.

Hitt húsið, Laugavegur 6, var byggt 1871 af Guðmundi Jónssyni trésmið, föður Stefaníu leikkonu. Fáeinum árum síðar komst það í eigu Biering-ættarinnar sem átti það í meira en hundrað ár og rak þar lengst af verslun. Húsið var eitt af þessum vinalegu einlyftu húsum sem einkenndu Reykjavík 19. aldar. Þau voru með dönskum svip, dyrum fyrir miðri framhlið, nokkrum sexrúðugluggum báðum megin dyranna og bröttu þaki yfir. Nú má telja orðið á fingrum annarrar handar þau hús, sem enn eru eftir í borgarmyndinni með þessu lagi. Ekkert þeirra má í rauninni missa sín.

En báðum húsunum, Laugavegi 4 og 6, eða amk. framhliðum þeirra, hefur verið misþyrmt svo í áranna rás, svo að þau eru óþekkjanleg frá fyrstu gerð og í fljótu bragði virðast þau vera ónýt. Ekkert hefur verið gert húsunum til góða í áratugi. Ekki er samt allt sem sýnist í þeim efnum. Sama var sagt um Bernhöftstorfuhúsin á sínum tíma. Þau höfðu líka verið látin drabbast áratugum saman og virtust einskis nýt. Eftir að þau voru gerð upp um 1980 eru þau hins vegar sönn borgarprýði og setja mikinn svip á gömlu Reykjavík. Þau hafa öll verið í öruggum, stöðugum og arðbærum rekstri frá þeim tíma og ekki hvarflar að nokkrum manni að rífa þau."

Hjörleifur Jónsson (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 02:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband