Turku Part V

Jæja er ekki kominn tími til að halda áfram með Finnlandsfrásögn?

Á föstudeginum var ætlunin að taka námskeiðsdag. Okkur Tryggva langaði á Presenter en það var fullt á námskeiðið sem var þann daginn. Við áttum samt að mæta því ef einhver sem væri skráður mætti ekki þá væri hægt að taka það pláss. En allir skráðir mættu og vorum við nokkur sem urðum fyrir vonbrigðum með það. En þá var bara tekið á það ráð að finna annan kennara og kennslupláss til þess að við gætum tekið námskeiðið, því við vorum svo mörg sem langaði á þetta námskeið. Eftir smá tíma þá fannst kennari og við tróðum okkur inn í einhvern sal sem var tómur. Þetta var heilsdagsnámskeið, fyrsta skrefið að því að geta verið viðurkenndur þjálfari innan JCI hreyfingarinnar. Á þessu námskeiði var farið yfir kynningar, tegundir af kynningum, innihald kynninga o.þ.h. og auðvitað tókum við fullt af verklegum æfingum. Námskeiðið endaði svo á því að við áttum að halda 3 mín kynningu á efni sem okkur var kynnt í hádeginu. Virkilega lærdómsríkt og mjög skemmtilegt, og skemmtilegir kennarar, Katja frá Þýskalandi var aðalleiðbeinandi og Carlo frá Belgíu var aðstoðarleiðbeinandi. Við útskrifuðumst með sæmd og þar með er okkar fyrsta áfanga á leið okkar sem viðurkenndir leiðbeinendur í JCI lokið.

Eftir námskeiðið fengum við okkur bara að borða uppá hóteli og slökuðum aðeins á. Um kvöldið var svo Danska kvöldið þar sem allar norðurlandaþjóðirnar (nema Finnland, þau héldu Finnskt kvöld) voru með eitthvað á boðstólnum. Danirnir auðvitað áttu kvöldið, veittu vel af mat og drykk en við Íslendingarnir slógum í gegn með Brennivíninu okkar, Ópal skotum og Appollo lakkrís. Það kláraðist allt saman (sem var sko ekki lítið) og allir sáttir :) Kvöldið endaði svo í eftirpartýi á einhverjum stórum skemmtistað en eftir það var stefnan tekin á Hesburger (sem er á 2. hverju götuhorni í Finnlandi - í sama "klassa" og McDonalds), keyptur matur sem var svo borðaður uppá hóteli rétt fyrir svefninn :) Góður endir á góðum degi.


Turku Part IV

Fimmtudagur.

Komið að ræðukeppninni.

Ég vaknaði snemma til þess að gera mig reiðubúna fyrir keppnina. Fékk mér að borða, tók eitt rennsli yfir ræðuna til þess að vekja röddina og fór með Árna yfir í ráðstefnuhöllina. Um níu leytið var okkur keppendum hóað saman, athugað hvort allir væru á staðnum og reglurnar útskýrðar fyrir okkur. Við drógum svo númer sem sagði okkur hvar í röðinni við værum. Ég dró númerið 10. Var því nr. 10 af 12 keppendum. Ansans, þarf að bíða svona lengi. Jæja, ekkert við því að gera. Öllum keppendum nema þeim fyrsta var svo vísað úr salnum því enginn mátti heyra ræðurnar sem voru á undan. Nú var bara að bíða, og passa sig á að tala við fólk til að dreyfa huganum. Jæja, nú var komið að mér og alltaf gaman að því hvað útlendingar eiga erfitt með að bera fram nafnið mitt :) Ég stóð þarna uppi á sviði, í púltinu full sjálfstrausts og sátt við minn flutning. Þegar flutningi mínum lauk settist ég niður og fékk mikið lof hjá samlöndum mínum. Eftir keppnina kom svo til mín kona með tárin í augunum og sagði að ég hefði staðið mig svo vel og ég hefði snert sig og hún ætti ávallt eftir að muna það sem ég hafði að segja. Vá! Þetta var ekkert smá frábært. Nú kom í ljós að það áttu að vera þriggja manna úrslit sem færu fram á laugardagsmorguninn. Síðar um daginn átti svo að vera tilkynnt hverjir þessir þrír væru sem kæmust í úrslit. Þannig að nú tók við önnur löng bið.

Í hádegismatnum kom svo til mín stúlka, annar keppandi sem sagði að ég hefði staðið mig rosa vel (ú frábært) og rétt eftir matinn hitti ég svo breska keppandann sem hafði séð mig (var s.s. að keppa á undan mér) og hann sagði það sama, sagði að ég ætti pottþétt eftir að komast í úrslit.

Sjitt hvað mér leið vel á þessari stundu. Allir að segja mér hvað ég hafði staðið mig vel og ég sjálf ferlega sátt við mitt. Svo við Tryggvi fórum bara út í sólbað, fengum okkur ís og slökuðum á þar til úrslitin voru tilkynnt. Loks kom að því og tilkynnti Brian Kavanaugh sem sá um keppnina úrslitin.

"From JCI UK, Simon...., From JCI Netherlands ...." ... ok nú segir hann mitt nafn... "And from JCI Denmark..." Neeeeiiii.

Ohh ég komst ekki í úrslit. En jæja, ekkert við því að gera nema óska þeim sem komust í úrslit til hamingju og halda áfram að vera svona sátt við mitt. Ég meina það er nú ekki á hverjum degi sem maður fær svona komment eins og frá konunni sem kom til mín með tárin í augunum og mun aldrei gleyma mér! Þannig að ég gekk út úr salnum með stórt bros á vör og gleði í hjarta. Ykkur finnst ég kannski hljóma væmin, en svona var þetta bara. Mér sjálfri finnst alveg merkilegt hvað ég tók þessu vel, að komast ekki áfram, sérstaklega eftir að ALLIR sem töluðu við mig sögðu að ég ætti pottþétt eftir að komast áfram og að ALLIR sem töluðu við mig eftir þetta sögðu að ég hefði átt að komast áfram, þá er það nægur sigur fyrir mig að hafa bara staðið þarna og hafa náð að snerta við fólki. Og þeir sem þekkja ræðuna mína og hafa heyrt söguna af því hvers vegna ég stóð þarna skilja það væntanlega fullkomlega vel.

Og þar sem ég komst ekki áfram í þriggja manna úrslit var mér alveg óhætt að taka vel á því á djamminu :) Þetta kvöld var Þýska / Ungverska kvöldið og var vel veitt af bjór og mat. Það var virkilega skemmtilegt, sæmilega vel tekið á því en þó farið sæmilega snemma heim þar sem daginn eftir ætluðum við á námskeið.


Turku Part II & III

Á þriðjudag var lífinu tekið rólega, enda þingið ekki formlega byrjað. Við Tryggvi fórum bara að rölta um bæinn sem er afskaplega fallegur, og spóka okkur í sólinni. Það var hitabylgja í Finnlandi sem var auðvitað bara næs. Síðar um daginn hittum við Sören, danska vin hans Tryggva (sem hann kynntist í Aþenu) og svo nokkra vini hans Sören. Með þeim fórum við út að borða á indverskan stað þar sem allir strákarnir sönnuðu karlmennsku sína með því að panta sterkustu réttina á matseðlinum, en við Sabrine héldum okkur í mildum og góðum réttum.

Miðvikudagur rann svo upp, glampandi sól og logn. Æðislegt veður eins og hina dagana. Þennan dag tókum við líka frekar rólega og röltum um bæinn og drukkum bjór. Seinnipartinn var svo ræðuæfing og þar á eftir haldið á opnunarhátið þingsins. Hún var samblanda af formlegum ræðuhöldum sem voru misskemmtileg og góðum skemmtiatriðum og verð ég að segja að sirkusnemarnir hafi staðið upp úr. Eftir opnunarhátíðna var svo haldið á finnska kvöldið þar sem var tekið á móti okkur með mat og drykk og eftir það var partý. Kjartan og Siggi opnuðu karókíkvöldið glæsilega með söng sínum þar sem þeir stóðu sig alveg frábærlega með þvílíkum tilþrifum ;-)

Í þessu partýi hitti ég fleiri af vinum hans Tryggva sem hanni kynntist í Aþenu, Emanuele frá Ítalíu (sommelier sem við eigum eftir að heimsækja til Ítalíu, hann ætlar að fara með okkur í túr um Toscana héraðið), Andrew frá Bretlandi (journalist og frábær ræðumaður), Miguel frá Portúgal, Nil frá Tyrklandi o.fl.

Ég stoppaði hins vegar stutt í þessu partýi og var alveg edrú (fyrir utan eitt skot af Gajol) þar sem ég átti að fara að keppa morguninn eftir. Skildi því Tryggva eftir með vinum sínum og fór heim og "snemma" að sofa.


Turku Part I

Mánudaginn 2. júní lögðum við snemma af stað út á völl til þess að fljúga áleiðis til Helsinki. Það var 12 manna hópur sem flaug á mánudag en 2 höfðu farið daginn áður. Í heildina var þetta því 14 manna hópur Íslendinga á Evrópuþingi. Þegar til Helsinki var komið skiptist hópurinn í tvennt, flestir tóku rútuna til Turku en fimm okkar fórum í bílaleigubíl. (söguna af því getið þið lesið hér).

Við sem vorum í bílaleigubílnum fengum skilaboð frá drengjunum í rútunni sem áttu pantað herbergi á skólagörðunum. Málið var að til þess að fá lyklana að herberginu þurftu þeir að sækja þá á bókasafnið - sem lokaði kl. 18. Voru þeir farnir að sjá fram á það að ná ekki á bókasafnið fyrir lokun þar sem rútan ferðaðist frekar hægt, tók margar krókaleiðir og stoppaði á mörgum stöðum. Við vorum því beðin um að reyna hvað sem við gætum til að komast á bókasafnið fyrir lokun. Við efuðumst reyndar að við gætum það en auðvitað stigum við bensínið í botn og ákváðum að reyna. Tímanlega séð sáum við alveg fram á að ná til Turku en svo var spurningin hvort við fyndum staðinn á réttum tíma. Að bókasafninu komum við rétt fyrir kl. 18 og hófst þá leitin að byggingunni, sem tók smá stund. Tryggvi, Helgi og Sölvi hlupu út um allt og fundu svo bygginguna. Það var ennþá opið og Tryggvi tók mynd af klukkunni - sem sýndi tímann 17:59:30 :)

Auðvitað stríddum við strákunum svolítið og létum þá halda að við hefðum ekki náð fyrir lokun og þeir gætu bara gist fyrstu nóttina í bílaleigubílnum :)

Skemmtileg byrjun á ferðinni (tjah.. kannski ekki eins skemmtileg fyrir alla) með góðum endi.

Hótelið okkar var mjög fínt, beint við hliðina á ráðstefnuhöllinni þar sem þingið fór fram, um 4km frá miðbænum. Það var mjög auðvelt að taka strætó í bæinn og það kostaði 2.50 evrur á mann. Leigubíll kostaði um 15 evrur. Svo þegar þingið hófst var hægt að taka shuttle buses frítt á milli ráðstefnuhallarinnar og bæjarins.


Komin heim

af evrópuþingi JCI sem haldið var í Turku í Finnlandi. Þar er ég s.s. búin að vera í heila viku og því hefur ekkert heyrst frá mér í heila viku. Hefur svosem oft ekki heyrst frá mér í svipaðan tíma af fleirum tilefnum..

Evrópuþingið var virkilega skemmtileg upplifun, skemmtilegt fólk, skemmtileg og góð námskeið, krefjandi ræðukeppni, geðveik partý, gjörsamlega geggjað veður. Hreint út sagt frábært út í eitt.

Klukkan er orðin frekar margt (3 tíma munur á Íslandi og Finnlandi) og því nenni ég ekki að segja neitt núna en ætlunin er að koma með skemmtilegar ferðasögur í nokkrum pörtum ásamt myndum.

Þangað til getið þið lesið eitthvað um ferðina á Esjublogginu (flettið bara niður).

Over and out í bili

- zzzzz -


Flott mynd

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá myndina og áður en ég las fyrirsögnina var "haugur af orustuflugvélum". Svo sá ég að þetta voru mýflugur. Ótrúlega flott tekin mynd :-)
mbl.is Rykmýið í Mývatni í hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smokkar

Hvað er málið með það að það sé 1. erfitt að nálgast smokka og 2. að smokkar séu svona dýrir?
Ég fór í smá smokkaleiðangur í gær til þess að búa til smokkatré handa bróður mínum (sem er önnur saga). Ég byrjaði á því að fara í apótekið. Þar sá ég hillu með alls konar unaðsvörum, geli til að auka fullnægingu o.þ.h. En þar voru engir smokkar. Þeir voru líklegast á bakvið afgreiðsluborðið (til að minnka stuld á þeim líklega). Það var heilmikil röð svo ég ákvað að fara annað að leita að smokkum. Fór því í Hagkaup (var í Kringlunni). Þar byrja ég á því að leita við kassana, því þar er smokkana oftast að finna í stórverslunum. Við kassana var bara tyggigúmmí, sælgæti, gos og helstu tímarit. Engir smokkar. Fór því í snyrtideildina þar sem sjampó, túrtappar, sokkabuxur og fleira því tengt var. Ef smokkarnir voru þar þá fóru þeir fram hjá mér. Aaaah kannski voru þeir í sjoppunni í Hagkaup. Rölti því þangað og þar fann ég þá loksins.
Fyrir aftan afgreiðsludrenginn sá ég nokkrar tegundir. Gat valið á milli tveggja pakka með 3-4 smokkum í og nokkurra pakka með 12 stykkjum. Ég bar saman verðið í flýti og sá strax að það skipti ekki máli hvort ég keypti pakka með fáum eða mörgum, þeir væru allir jafn dýrir, yfir 100 krónur stykkið. Ég sagði við afgreiðsludrenginn "Láttu mig fá einn svona pakka af Extra safe smokkum".
Hann rétti mér pakkann og spyr hvort þetta sé það besta á markaðnum. Uhh ég hef ekki hugmynd um það.. ætli þetta séu ekki þeir öruggustu þar sem þeir heita Extra safe. Hann hefur víst bara prófað Featherlite. Já gott hjá honum. Einmitt það sem ég vildi vita.

Væri ég verið óframfærinn unglingur (sem ég var sem unglingur) hefði ég nr. 1 aldrei þorað að biðja um smokka í afgreiðslu í apóteki fyrir framan langa biðröð af fólki. Ég hefði frekar þorað að halda á smokkunum, rétt afgreiðslukonunni sem hefði skannað þá inn og sett þá strax í poka, þegandi og hljóðalaust. Ég hefði aldrei þorað að biðja um smokka í sjoppunni í Hagkaup, sérstaklega ekki þegar einhver unglingsstrákur væri að afgreiða, og ég hefði farið í hnút þegar hann hefði spurt mig að einhverju svona. Nr. 2, þar sem ég er og hef alltaf verið mjög samviskusöm og passasöm stúlka hefði ég að sjálfsögðu látið mig hafa það að kaupa þessa smokka dýrum dómum. En það eru ekki allir unglingar sem tíma því. Rúmur 100 kall smokkurinn. Rúmlega 1200 kr. pakki af 12 smokkum.

Mér finnst þetta alveg skammarlegt. Í fyrsta lagi þá á ekki að vera svona erfitt að finna smokka. Jú, þá er auðvitað að finna í öllum sjoppum og öllum verslunum og á bensínstöðvum, en þeir ættu að vera mun aðgengilegri. Og í öðru lagi, hvers vegna í ósköpunum eru þeir svona helv... dýrir? Mér þætti gaman að vita hvort, og ef, þá hversu miklir skattar og álögur eru á þeim. Því mér finnst það hálf skammarlegt ef svo er.

Það ætti frekar að hvetja til þess að nota smokka með því að gera þá aðgengilegri, ódýrari og jafnvel dreifa þeim reglulega frítt. Kannski er verið að gera það að einhverju leyti t.d. í félagsmiðstöðvum o.þ.h., en það er ekki nóg. Smokkar ættu að vera niðurgreiddir og aðgengilegir!


Og það var strákur :)

Ég vil óska bróður mínum og mágkonu innilega til hamingju með litla prinsinn sem fæddist í gær. Hann var búinn að láta bíða eftir sér en svo þegar hann fattaði að það væri eurovision í gærkvöldi þá ákvað hann að drífa sig út. Fæddist um kl. 17 og fjölskyldan í Vogunum var komin heim rétt í tæka tíð til að horfa á keppnina LoL Hann var 18 merkur og 56 cm og ég hlakka til að heimsækja hann og fjölskylduna í vikunni.
bangsi

Að öðru leyti hefur helgin verið mjög fín. Á föstudagskvöldið var matarboð hérna heima en ég, gestgjafinn fór í annað partý, fór að hitta Rjómann, krakkana úr HR. Það var mjög gaman, róleg og góð stemning í því partýi. Í gærkvöldi komu Guðrún og Siggi yfir og við grilluðum okkur kjúlla til að borða yfir Eurovision sem við skemmtum okkur mikið yfir. Aðalskemmtunin fólst í að hæðast að keppendunum :) Er það ekki það sem geriri Eurovision svona skemmtilegt? :) En að Rússland ynni kom okkur öllum á óvart. En Friðrik og Regína stóðu sig alveg með prýði.


"Frábær þjónusta"

Ég hef verið að taka þátt í átakinu "hjólað í vinnuna" (eins og flestir sem lesa bloggið mitt reglulega hafa eflaust tekið eftir) og hefur það verið að gefa sig vel. Ég er ekki að hjóla eða taka strætó á hverjum einasta degi en ég hef tekið eftir að bæði spara ég bensín alveg heilan helling á þessu og ég fæ heilmikla góða hreyfingu út úr þessu.

Flesta daga hef ég ágætis tíma til þess að koma mér í og úr vinnu. Ég er ekki það tímabundin að ég verði að vera komin heim fyrir ákv. tíma eða þurfi að ná á ákv. stað fyrir ákv. tíma. Svo ég get nokkurn veginn tekið mér þann tíma sem ég þarf í að koma mér heim þá daga sem ég ákveð að hjóla eða taka strætó.

Nota bene, ég segi flesta daga, suma daga getur verið gott að vera á bíl og mikið er ég því fegin að vera ekki bundin því að þurfa að hjóla og/eða taka strætó. Ég var að hlusta á útvarpið í morgun (já í bílnum á leiðinni í vinnuna) og heyrði þá talað um strætó og sumaráætlunina sem tekur gildi 1. júní. Stofnleiðirnar sem nú eru á korters fresti munu keyra á ..... hálftíma fresti!!! (búin að staðfesta þetta á vef strætó). En hvað það er frábær þjónusta eða þannig. Ef ég er aðeins sein fyrir úr vinnunni (þarf t.d. óvænt að fara á klósettið áður en ég stekk út) verð ég bara að gjöra svo vel að bíða í hálftíma eftir næsta strætó. Þá get ég alveg eins bara hjólað alla leið í hfj. alla daga í stað þess að taka strætó og notað tímann sem hefði annars farið í að sitja kjur í holla hreyfingu.

En já, ekki að leiðakerfið sé eitthvað súper í dag. Í gær tók ég eingöngu strætó á leiðinni heim úr vinnunni (geymdi hjólið í vinnunni). Ég náði strætó um kl. hálfsex (hafði misst af strætónum á undan) og fór með honum inn í Fjörð. Þurfti að bíða þar í 20 mín eftir innanbæjar strætóium sem kom mér heim rétt eftir kl. 18. Hefði tekið mig jafn langan tíma að hjóla alla leið.

En þetta að minnka ferðirnar úr fjórum á klst niður í tvær finnst mér alveg fáránlegt og ekki vinnandi fólki sem þarf að taka strætó og þarf að komast á milli staða bjóðandi. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er á einkabíl og geri mig ekki bundna þessu elskulega strætókerfi okkar (sem þó þarf að vera til staðar hvort sem það er gott eða ekki).


17,5

Úff púff aftur. Samt ekki eins mikið úff púff.  Kannski af því að ég tók góðar pásur á milli - en samt hjólaði ég 3km lengra:)
Fór s.s. beint eftir vinnu til Tryggva uppí Ármúla og fékk mér að borða hjá honum. Eftir það hjólaði ég áleiðis til Hafnarfjarðar en fór aðra leið í Garðabænum, meðfram sjónum og í gegnum nýja hverfið og kom upp við Álftanesveginn. Fín leið, kílómetra lengri en hin leiðin sem er alveg hundleiðinleg (framkvæmdir, og vantar stíg hluta af leiðinni - lengri leiðin er líka miklu fallegri).
Þegar ég kom inn í Hfj. ákvað ég svo að koma við hjá pabba á Álfaskeiðinu. Smá útúrdúr þar líka - lengri leið heim. Þegar ég reiknaði þetta svo allt saman út fékk ég það út að ég hef hjólað um 3km lengra núna heldur en ég gerði síðast. Og það var ekki nærri því eins erfitt.
Ég ætla að tengja það þrennu.
1. Réttara klædd núna - síðast var ég of vel klædd og var of heitt. Núna var mér passlega hlýtt.
2. Búin að hreyfa mig mun meira upp á síðkastið en áður og búin að byggja upp þol og styrk.
3. Mataræðið. Er í aðhaldi og er að borða rétt. Sex máltíðir á dag og þó ég sé að borða mun færri kaloríur þessa dagana heldur en fyrir viku síðan þá hef ég miklu meiri orku.
Sjitt hvað mér líður vel með þetta :) Svo er bara að fara að hlaupa meira og þá á ég eftir að rúlla upp þessum 10km í ágúst :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband