Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Fyrsta ofnæmiskastið

Ohh.. ég er búin að vera að monta mig af því hvað ég er komin með góð lyf, hef nánast ekkert fundið fyrir ofnæmi í allt sumar (en er líka búin að vera dugleg að nota nýju fínu lyfin).

En það kom að því að ég fengi ofnæmiskast. Enda er ég í mikilli snertingu við ofnæmisvaldinn núna. Grasið í garðinum er búið að fá að vaxa villt í allt sumar og ekkert hefur verið gert í því. Af hverju? Vegna þess að þegar við Tryggvi höfum ekki verið í útlöndum þá höfum við verið upptekin, hann er að vinna mikið og ekki fer ég út í garð að slá með mitt ofnæmi. Og þar að auki eigum við ekki sláttuvél svo við þurfum að fá hana lánaða hjá tengdó og þess vegna hefur heldur ekki verið skotist út í garð þegar hefur gefist rúm til (já ég veit - ekkert nema afsakanir).

Tryggvi gaf sér þó tíma núna í morgun og í kvöld, tók fyrri umferð í morgun áður en hann fór í vinnuna og seinni umferð eftir að hann kom úr vinnunni. Og vá hvað þetta var mikið gras! Og þar sem grasið er alveg extra þurrt vegna vökvaskorts þá þeytast frjókornin af grasinu og stráunum gjörsamlega út um allt - og þar á meðal auðvitað inn í hús og pirra mig í nefinu og augunum. Arg.

Held ég fari bara upp í rúm núna með kaldan þvottapoka yfir augunum. Það er svo gott þegar augun eru pirruð.


Highway to hell

Verktakafyrirtækið og Hafnarfjörður hafa nú selt sál sína djöflinum og eru að hefjast handa við að leggja götu til helvítis. Djöfullinn er jú sníkí bastard og hefur væntanlega platað Klæðningu í að selja sér sál sína (væntanlega eigendanna) gegn því að fá fleiri verkefni í lifanda lífi.. Venjulegu fólki mun líklega finnast þessi gata sem lögð verður ósköp venjuleg og ekkert óvenjulegt kemur upp á hjá því en fyrir djöfla og vondar sálir verður þarna hlið í það neðra.

Ég veit ekki hversu margir hafa horft á þættina Reaper, en þar er fjallað um dreng sem vinnur fyrir djöfulinn vegna þess að foreldrar hans seldu sál hans til djöfulsins og þegar hann varð 18 þá eignaðist djöfulinn hann. Starf hans felst í því að veiða sálir sem hafa sloppið úr helvíti og skila þeim til baka. Það gerir hann í DMV (Department of Motor Vehicles) en það er hálfgert hlið til helvítis, ásamt öðrum opinberum byggingum þar sem venjulegt fólk lýsir heimsókninni sem, já, heimsókn til helvítis :). Skemmtilegir þættir sem ég mæli með (serían tekur reyndar smá tíma að byrja en seinniparturinn af henni er mjög spennandi) ;-)


mbl.is Buðu 66.666.666 kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kynnast nýju fólki allstaðar að úr heiminum

Ég verð að vera sammála honum Tómasi sem skrifar hér (eða ég giska að það hafi verið Tómas, leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér) um eitt af því sem gerir JCI skemmtilegt, en það er í hnotskurn hvað það getur verið auðvelt að kynnast nýju fólki allsstaðar að úr heiminum.

Síðasta sunnudag komu hingað til lands tveir félagar frá JCI London (hjón) sem komu til þess að skoða land og þjóð. Þau eru nú á ferðalagi um landið. Þau höfðu samband við okkur og létu okkur vita af komu sinni og því fórum við nokkur með þau í smá skoðunarferð um borgina og út að borða. Og ekki skemmdi fyrir að þetta er alveg þrælskemmtilegt fólk og var kvöldið virkilega ánægjulegt og langt síðan ég hef hlegið svona mikið og í jafn langan tíma.

Það sem er líka svo æðislegt er að þegar við förum út, nánast hvert sem er, getum við haft samband við JCI félagið á staðnum og athugað hvort það vilji einhver koma með okkur út að borða og jafnvel farið með okkur í smá túr um bæinn eins og við gerðum fyrir þau á sunnudaginn. Eða ef maður er þegar búinn að kynnast JCI félögum frá þeim stað er auðvitað tilvalið að hafa samband við þá og efla samböndin.

Og þetta er nú aldeilis ekki eina leiðin til þess að kynnast nýju fólki út um allan heim - og heima - í gegnum JCI. Í JCI eru haldnir margir fundir og skemmtilegar samkomur. Og á hverju ári eru haldin nokkur þing. Ber þar fyrst að nefna landsþingið þar sem öll aðildafélög landsins hittast og þinga og þar gæti maður hitt félaga sem maður hefur ekki hitt áður. Auk þess sem oft koma félagar frá öðrum löndum á landsþingin.

Svo eru það "svæðaþingin" (heiminum er skipt upp í svæði og er Evrópa t.d. eitt svæði). Ég var t.d. á Evrópuþingi núna í júní, þar sem ég kynntist fólki allsstaðar að úr Evrópu, og jafnvel út fyrir Evrópu því ég hitti mjög áhugaverðan mann frá Suður-Afríku. Og svo er það auðvitað heimsþingið þar sem JCI félagar allsstaðar að úr heiminum hittist.

Og ef maður er duglegur að fara á þessi þing erlendis þá kynnist maður að auki nýjum stöðum sem manni hefði ekki endilega dottið í hug að fara á eins og núna á Evrópuþinginu sem var í Turku í Finnlandi. Ég vissi ekki einu sinni af þessari borg áður en hún er virkilega falleg og skemmtilegt að heimsækja hana. Og hver veit nema ég fari til Nýju Delí í Indlandi í vetur? Og svo er ég að fara til Aarhus í Danmörku í október, á landsþingið hjá dönum. Ekki slæmt :)

En jú, auðvitað er fleira við JCI heldur en að kynnast nýju fólki, það er svo miklu miklu meira en það, ég er þvílíkt að eflast og styrkjast við að vera í þessum félagasamtökum. En ég ætla ekki að fara út í það hérna núna.


Fyrsta hlaupið - 5km á 38.58mín

Í gærkvöldi tók ég í fyrsta skipti þátt í hlaupi, Miðnæturhlaupinu sem var í Laugardalnum. Í síðustu viku skráði ég mig í hlaupið og skráði mig í 5km. Fór svo að hafa áhyggjur að það væri of stór biti fyrir mig en á sunnudaginn fór ég og prófaði að hlaupa leiðina. Ég fór aðeins vitlausa leið, beygði vitlaust á einum staðnum en endaði á því að fara 4.5 km á 40 mín. Nokkuð gott fannst mér og fylltist sjálfstrausti fyrir hlaupið í gærkvöldi.
Ég passaði mig bara á því að hlaupa á mínum hraða, ekki vera að láta aðra keppendur hafa áhrif á minn hraða. Ég stefndi á að vera á 40 mín. Þegar ég nálgaðist markið greikkaði ég sporið töluvert og var þvílíkt ánægð þegar ég sá að ég var að ná þessu á tæpum 39 mínútum. Ekki slæmt. Sérstaklega er ég ánægð með það að ég hélt jöfnum hraða allan tímann, tók enga spretti og gekk aldrei, nema í lokin þegar ég tók endasprettinn.

Núna finn ég líka að það er ekki lengur astminn sem er að stoppa mig heldur er það fótastyrkurinn. Ég var og er ferlega þreytt í löppunum og ætla því að fara í fótastyrkjandi æfingar á næstunni. Og auðvitað hlaupa meira.

Eftir að ég byrjaði í þessu verkefni (Astma-maraþon) þá hef ég verið frekar löt við að hlaupa og æfa mig en núna þegar ég hef tekið þátt í einu hlaupi er áhuginn sko kviknaður og kominn smá keppnisandi í mig. Svo er laugardalurinn líka svo skemmtilegt svæði til að hlaupa, fallegt svæði og í fyrsta sinn á sunnudaginn fannst mér í alvörunni skemmtilegt að hlaupa. :) Bara gaman að því.

Nú er bara að æfa og æfa fyrir 10km í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst :)


Turku Part V

Jæja er ekki kominn tími til að halda áfram með Finnlandsfrásögn?

Á föstudeginum var ætlunin að taka námskeiðsdag. Okkur Tryggva langaði á Presenter en það var fullt á námskeiðið sem var þann daginn. Við áttum samt að mæta því ef einhver sem væri skráður mætti ekki þá væri hægt að taka það pláss. En allir skráðir mættu og vorum við nokkur sem urðum fyrir vonbrigðum með það. En þá var bara tekið á það ráð að finna annan kennara og kennslupláss til þess að við gætum tekið námskeiðið, því við vorum svo mörg sem langaði á þetta námskeið. Eftir smá tíma þá fannst kennari og við tróðum okkur inn í einhvern sal sem var tómur. Þetta var heilsdagsnámskeið, fyrsta skrefið að því að geta verið viðurkenndur þjálfari innan JCI hreyfingarinnar. Á þessu námskeiði var farið yfir kynningar, tegundir af kynningum, innihald kynninga o.þ.h. og auðvitað tókum við fullt af verklegum æfingum. Námskeiðið endaði svo á því að við áttum að halda 3 mín kynningu á efni sem okkur var kynnt í hádeginu. Virkilega lærdómsríkt og mjög skemmtilegt, og skemmtilegir kennarar, Katja frá Þýskalandi var aðalleiðbeinandi og Carlo frá Belgíu var aðstoðarleiðbeinandi. Við útskrifuðumst með sæmd og þar með er okkar fyrsta áfanga á leið okkar sem viðurkenndir leiðbeinendur í JCI lokið.

Eftir námskeiðið fengum við okkur bara að borða uppá hóteli og slökuðum aðeins á. Um kvöldið var svo Danska kvöldið þar sem allar norðurlandaþjóðirnar (nema Finnland, þau héldu Finnskt kvöld) voru með eitthvað á boðstólnum. Danirnir auðvitað áttu kvöldið, veittu vel af mat og drykk en við Íslendingarnir slógum í gegn með Brennivíninu okkar, Ópal skotum og Appollo lakkrís. Það kláraðist allt saman (sem var sko ekki lítið) og allir sáttir :) Kvöldið endaði svo í eftirpartýi á einhverjum stórum skemmtistað en eftir það var stefnan tekin á Hesburger (sem er á 2. hverju götuhorni í Finnlandi - í sama "klassa" og McDonalds), keyptur matur sem var svo borðaður uppá hóteli rétt fyrir svefninn :) Góður endir á góðum degi.


Turku Part IV

Fimmtudagur.

Komið að ræðukeppninni.

Ég vaknaði snemma til þess að gera mig reiðubúna fyrir keppnina. Fékk mér að borða, tók eitt rennsli yfir ræðuna til þess að vekja röddina og fór með Árna yfir í ráðstefnuhöllina. Um níu leytið var okkur keppendum hóað saman, athugað hvort allir væru á staðnum og reglurnar útskýrðar fyrir okkur. Við drógum svo númer sem sagði okkur hvar í röðinni við værum. Ég dró númerið 10. Var því nr. 10 af 12 keppendum. Ansans, þarf að bíða svona lengi. Jæja, ekkert við því að gera. Öllum keppendum nema þeim fyrsta var svo vísað úr salnum því enginn mátti heyra ræðurnar sem voru á undan. Nú var bara að bíða, og passa sig á að tala við fólk til að dreyfa huganum. Jæja, nú var komið að mér og alltaf gaman að því hvað útlendingar eiga erfitt með að bera fram nafnið mitt :) Ég stóð þarna uppi á sviði, í púltinu full sjálfstrausts og sátt við minn flutning. Þegar flutningi mínum lauk settist ég niður og fékk mikið lof hjá samlöndum mínum. Eftir keppnina kom svo til mín kona með tárin í augunum og sagði að ég hefði staðið mig svo vel og ég hefði snert sig og hún ætti ávallt eftir að muna það sem ég hafði að segja. Vá! Þetta var ekkert smá frábært. Nú kom í ljós að það áttu að vera þriggja manna úrslit sem færu fram á laugardagsmorguninn. Síðar um daginn átti svo að vera tilkynnt hverjir þessir þrír væru sem kæmust í úrslit. Þannig að nú tók við önnur löng bið.

Í hádegismatnum kom svo til mín stúlka, annar keppandi sem sagði að ég hefði staðið mig rosa vel (ú frábært) og rétt eftir matinn hitti ég svo breska keppandann sem hafði séð mig (var s.s. að keppa á undan mér) og hann sagði það sama, sagði að ég ætti pottþétt eftir að komast í úrslit.

Sjitt hvað mér leið vel á þessari stundu. Allir að segja mér hvað ég hafði staðið mig vel og ég sjálf ferlega sátt við mitt. Svo við Tryggvi fórum bara út í sólbað, fengum okkur ís og slökuðum á þar til úrslitin voru tilkynnt. Loks kom að því og tilkynnti Brian Kavanaugh sem sá um keppnina úrslitin.

"From JCI UK, Simon...., From JCI Netherlands ...." ... ok nú segir hann mitt nafn... "And from JCI Denmark..." Neeeeiiii.

Ohh ég komst ekki í úrslit. En jæja, ekkert við því að gera nema óska þeim sem komust í úrslit til hamingju og halda áfram að vera svona sátt við mitt. Ég meina það er nú ekki á hverjum degi sem maður fær svona komment eins og frá konunni sem kom til mín með tárin í augunum og mun aldrei gleyma mér! Þannig að ég gekk út úr salnum með stórt bros á vör og gleði í hjarta. Ykkur finnst ég kannski hljóma væmin, en svona var þetta bara. Mér sjálfri finnst alveg merkilegt hvað ég tók þessu vel, að komast ekki áfram, sérstaklega eftir að ALLIR sem töluðu við mig sögðu að ég ætti pottþétt eftir að komast áfram og að ALLIR sem töluðu við mig eftir þetta sögðu að ég hefði átt að komast áfram, þá er það nægur sigur fyrir mig að hafa bara staðið þarna og hafa náð að snerta við fólki. Og þeir sem þekkja ræðuna mína og hafa heyrt söguna af því hvers vegna ég stóð þarna skilja það væntanlega fullkomlega vel.

Og þar sem ég komst ekki áfram í þriggja manna úrslit var mér alveg óhætt að taka vel á því á djamminu :) Þetta kvöld var Þýska / Ungverska kvöldið og var vel veitt af bjór og mat. Það var virkilega skemmtilegt, sæmilega vel tekið á því en þó farið sæmilega snemma heim þar sem daginn eftir ætluðum við á námskeið.


Turku Part II & III

Á þriðjudag var lífinu tekið rólega, enda þingið ekki formlega byrjað. Við Tryggvi fórum bara að rölta um bæinn sem er afskaplega fallegur, og spóka okkur í sólinni. Það var hitabylgja í Finnlandi sem var auðvitað bara næs. Síðar um daginn hittum við Sören, danska vin hans Tryggva (sem hann kynntist í Aþenu) og svo nokkra vini hans Sören. Með þeim fórum við út að borða á indverskan stað þar sem allir strákarnir sönnuðu karlmennsku sína með því að panta sterkustu réttina á matseðlinum, en við Sabrine héldum okkur í mildum og góðum réttum.

Miðvikudagur rann svo upp, glampandi sól og logn. Æðislegt veður eins og hina dagana. Þennan dag tókum við líka frekar rólega og röltum um bæinn og drukkum bjór. Seinnipartinn var svo ræðuæfing og þar á eftir haldið á opnunarhátið þingsins. Hún var samblanda af formlegum ræðuhöldum sem voru misskemmtileg og góðum skemmtiatriðum og verð ég að segja að sirkusnemarnir hafi staðið upp úr. Eftir opnunarhátíðna var svo haldið á finnska kvöldið þar sem var tekið á móti okkur með mat og drykk og eftir það var partý. Kjartan og Siggi opnuðu karókíkvöldið glæsilega með söng sínum þar sem þeir stóðu sig alveg frábærlega með þvílíkum tilþrifum ;-)

Í þessu partýi hitti ég fleiri af vinum hans Tryggva sem hanni kynntist í Aþenu, Emanuele frá Ítalíu (sommelier sem við eigum eftir að heimsækja til Ítalíu, hann ætlar að fara með okkur í túr um Toscana héraðið), Andrew frá Bretlandi (journalist og frábær ræðumaður), Miguel frá Portúgal, Nil frá Tyrklandi o.fl.

Ég stoppaði hins vegar stutt í þessu partýi og var alveg edrú (fyrir utan eitt skot af Gajol) þar sem ég átti að fara að keppa morguninn eftir. Skildi því Tryggva eftir með vinum sínum og fór heim og "snemma" að sofa.


Turku Part I

Mánudaginn 2. júní lögðum við snemma af stað út á völl til þess að fljúga áleiðis til Helsinki. Það var 12 manna hópur sem flaug á mánudag en 2 höfðu farið daginn áður. Í heildina var þetta því 14 manna hópur Íslendinga á Evrópuþingi. Þegar til Helsinki var komið skiptist hópurinn í tvennt, flestir tóku rútuna til Turku en fimm okkar fórum í bílaleigubíl. (söguna af því getið þið lesið hér).

Við sem vorum í bílaleigubílnum fengum skilaboð frá drengjunum í rútunni sem áttu pantað herbergi á skólagörðunum. Málið var að til þess að fá lyklana að herberginu þurftu þeir að sækja þá á bókasafnið - sem lokaði kl. 18. Voru þeir farnir að sjá fram á það að ná ekki á bókasafnið fyrir lokun þar sem rútan ferðaðist frekar hægt, tók margar krókaleiðir og stoppaði á mörgum stöðum. Við vorum því beðin um að reyna hvað sem við gætum til að komast á bókasafnið fyrir lokun. Við efuðumst reyndar að við gætum það en auðvitað stigum við bensínið í botn og ákváðum að reyna. Tímanlega séð sáum við alveg fram á að ná til Turku en svo var spurningin hvort við fyndum staðinn á réttum tíma. Að bókasafninu komum við rétt fyrir kl. 18 og hófst þá leitin að byggingunni, sem tók smá stund. Tryggvi, Helgi og Sölvi hlupu út um allt og fundu svo bygginguna. Það var ennþá opið og Tryggvi tók mynd af klukkunni - sem sýndi tímann 17:59:30 :)

Auðvitað stríddum við strákunum svolítið og létum þá halda að við hefðum ekki náð fyrir lokun og þeir gætu bara gist fyrstu nóttina í bílaleigubílnum :)

Skemmtileg byrjun á ferðinni (tjah.. kannski ekki eins skemmtileg fyrir alla) með góðum endi.

Hótelið okkar var mjög fínt, beint við hliðina á ráðstefnuhöllinni þar sem þingið fór fram, um 4km frá miðbænum. Það var mjög auðvelt að taka strætó í bæinn og það kostaði 2.50 evrur á mann. Leigubíll kostaði um 15 evrur. Svo þegar þingið hófst var hægt að taka shuttle buses frítt á milli ráðstefnuhallarinnar og bæjarins.


Komin heim

af evrópuþingi JCI sem haldið var í Turku í Finnlandi. Þar er ég s.s. búin að vera í heila viku og því hefur ekkert heyrst frá mér í heila viku. Hefur svosem oft ekki heyrst frá mér í svipaðan tíma af fleirum tilefnum..

Evrópuþingið var virkilega skemmtileg upplifun, skemmtilegt fólk, skemmtileg og góð námskeið, krefjandi ræðukeppni, geðveik partý, gjörsamlega geggjað veður. Hreint út sagt frábært út í eitt.

Klukkan er orðin frekar margt (3 tíma munur á Íslandi og Finnlandi) og því nenni ég ekki að segja neitt núna en ætlunin er að koma með skemmtilegar ferðasögur í nokkrum pörtum ásamt myndum.

Þangað til getið þið lesið eitthvað um ferðina á Esjublogginu (flettið bara niður).

Over and out í bili

- zzzzz -


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband