Færsluflokkur: Bloggar

Nýsköpun og tækifæri á krepputímum

Það er ljóst að samfélagið nötrar þessa dagana vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa á fjármálamarkaði. Fjömargir hafa nú þegar misst vinnuna og vafalítið margir sem eiga eftir að bætast í þann hóp.

 

Það dugar þó lítið að setja alla orku og einbeitingu í að einblína á svartnættið heldur verða menn einfaldlega að setja sér að leita uppi þau fjölmörgu tækifæri sem leynast víða.

Eitt af því besta sem finnst á krepputímum er starfsemi JCI en hún veitir einstaklingum fjölmörg tækifæri til að efla og bæta eigin hæfni og leiðtogahæfileika. JCI hefur einnig sterk tengsl við svið nýsköpunar hér á landi en er auk þess með gríðarlega stórt tengslanet um allan heim, en JCI er starfrækt í meira en 5.000 aðildarfélögum í á annað hundrað löndum. Einungis Rauði krossinn, sameinuðu þjóðirnar og ólympíusambandið er starfrækt í fleiri löndum.

 

Ég hvet því unga og drífandi einstaklinga á aldrinum 18-40 ára að kynna sér starfsemi JCI á Íslandi og erlendis (www.jci.is og www.jci.cc) - En einnig hvet ég áhugasama um að kynna sér nýtt aðildarfélag sem er í stofnum en starfssvið þess verður fyrst og fremst á Alþjóðasviði, Viðskiptasviði og Samfélagssviði. Hið nýja aðildarfélag ber heitir JCI Keilir


TAKTU ÞÁTT Í NÝJUM ÁFANGA JCI Á ÍSLANDI
 

Föstudaginn 10. október, kl 19:45, verður stofnun JCI Keilis í menningar- og listamiðstöðinni Hafnarborg í Hafnarfirði.
Heiðursgestur viðburðarins er Dr. Erol User frá Tyrklandi
en hann er hingað kominn í boði forseta Íslands til að vera viðstaddur bleiku slaufuna (Pink ribbon ball).


Það væri okkur sönn ánæga ef þú gætir séð þér fært að koma á  þennan viðburð og heiðrað bæði Dr. Erol User og  Junior Chamber Internationalmeð nærveru þinni. 
Það er mikilvægt fyrir nýtt félag að fá sem flestaá stofnfund þess því það veitir félaginu aukinn kraft, auk þess sem nýir félagar fá innblástur og hvatningu af þeim stuðningi sem nærvera kraftmikilla einstaklinga veitir.
 
  

JCI_Keilir   
 
Dagskrá stofnfundar:

19:45 – Opið hús
20:00 – Dr. Erol User flytur erindi
20:25 – Tryggvi Freyr Elínarson, einn af stofnendum JCI Keilis kynnir félagið, starfsvettvang þess og verkefnin framundan
20:40 – Andri Heiðar Kristinsson, stofnandi Innovit frumkvöðlaseturs flytur erindi
20:55 – Landsforseti JCI Íslands ávarpar samkomuna
21:00 – Hlé gert á fundinum. Dr. Erol User yfirgefur samkomuna ásamt þeim gestum sem vilja.

 

Eftir stutt hlé taka við hefðbundin stofnfundarstörf, s.s. val bráðabirgðastjórnar, samþykkt lög, inntaka nýrra félaga o.fl.

Gestum er velkomið að fylgjast með þessum hluta hafi þeir áhuga.

 

Fyrir hönd stofnenda JCI Keilis,
Guðlaug Birna Björnsdóttir


Flutningur, stofnfundur, Brian Tracy og Rjómadjamm

Nú er ég stödd í vinnunni og í dag stöndum við í flutningum.

Svona fyrir þá sem ekki vissu þá hefur Teris tekið yfir Mentis, sjá http://vb.is/frett/1/47763/teris-og-mentis-sameinast. Þannig að ég er nú orðinn starfsmaður hjá Teris og við flytjum til Teris í dag.

Í kvöld er svo stórmerkilegur viðburður, Stofnfundur JCI Keilis, nýs aðildafélags JCI í Hafnarfirði. Það erum við Tryggvi sem stöndum fyrir þessu ásamt fleirum. Stofnfundurinn fer fram í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar og er heiðursgesturinn maður að nafni Dr. Erol User, jci félagi frá Tyrklandi en hann er hér á landi í boði forseta Íslands til að vera viðstaddur bleiku slaufuna (pink ribbon ball). Tryggvi mun auðvitað stíga í pontu og segja stuttlega frá nýja félaginu og hvað er á döfinni þar. Þar á eftir mun Andri Heiðar, stofnandi Innovit frumkvöðlaseturs flytja stutt erindi.
Spennandi dagskrá á einni klukkustund, frá 19.45 - 21.00. Eftir kl. 21.00 mun sjálf stofnunin fara fram þar sem farið verður yfir lögin og nýjir félagar teknir inn.

 

Á morgun, laugardag, mun ég svo eyða öllum deginum í Háskólabíó, og fara á námsstefnu með Brian Tracy :) gaman gaman.

Annað kvöld er svo RJÓMADJAMM :D :D


Enga svartsýni takk!

Hér með hefur verið ákveðið að blogga ekkert um þessa kreppu enda leggst maður bara í þunglyndi ef maður einblínir bara á svörtu hlutina. Tók því út færslu um eitthvað svartsýniskreditkortatal - enda er ekki eins og maður ráði ekki við þetta :)

En best ég setji þó aftur inn úr færslunni:

Við vorum s.s. á landsþingi JCI í Danmörku. Okkur var boðið þangað og Tryggvi var að leiðbeina á námskeiði á föstudagsmorgni.

Við mættum til Danmerkur á þriðjudaginn og vorum í Kaupmannahöfn í tvær nætur að slappa af, og heimsóttum líka Bolsjehuset og keyptum inn einhverjar vörur fyrir nammiland.is. Á fimmtudag tókum við svo lest til Aarhus þar sem landsþingið fór fram. Á föstudagsmorgun var Tryggvi svo með námskeið og eftir það skoðuðum við okkur aðeins um í borginni (reyndar löbbuðum við bara frá þingstaðnum að hótelinu sem var um 20 mín labb - en í gegnum bæinn þannig að við sáum helling). Á föstudagskvöld var svo þemakvöld og þemað var Las Vegas. Þar gat ég aftur notað búninginn sem ég keypti fyrir Las Vegas partýið í Mentis um árið. Já, ég get alveg sagt að ég hafi verið svolitla eftirtekt (enda er þetta búningur keyptur í "leikfangabúð"). Kvöldið var virkilega skemmtilegt og það sem var svo sniðugt var að maður keypti spilapeninga í byrjun kvölds og notaði þá svo til að kaupa sér bjórinn á barnum.
Á laugardag ákváðum við að sofa út og taka því rólega yfir daginn. Um kvöldið var svo Gala dinner og partý þar sem allir voru í sínu fínasta pússi. Danir eru mjög duglegir að dansa enda var dansgólfið fullt allt kvöldið - og strákar í Danmörku eru sko ekki feimnir við að bjóða stelpum upp í dans. Bara einn til tveir dansar og svo búið og þá skila þeir dömunni. Mjög gaman. Og þeir eru líka flinkir að dansa (þó þeir segist ekki vera það). En allavega, þetta kvöld var virkilega vel tekið á því og eftir gala dinnerinn var haldið niður í bæ þar sem var haldið áfram. Á leiðinni heim uppá hótel var stoppað í "bæjarins bestu".
Sunnudagurinn var mjööög slappur - lítið borðað og mikið sofið. En á mánudag héldum við aftur til Kaupmannahafnar, héldum á Strikið og svo flogið heim.

En í einu orði sagt var landsþing dana: Snilld!

Í dag kemur til landsins félagi úr JCI í Danmörku og ætlum við að vera góðir gestgjafar og bjóða honum í mat og partý :)


Æðisleg helgi að baki

Síðasta vika var æði strembin. Í vinnunni var verið að gefa út Markaðsvaktina svo það var nóg um að vera við að koma útgáfunni í gott stand og koma henni svo út. Í aukavinnunni var líka nóg að gera - námskeið og þriðjudag og fimmtudag. Svo var læknisskoðun og þolpróf fyrir astma fjallgönguna, æfing í súludansinum auðvitað og svo æfingar fyrir ræðukeppnina sem fór fram á landsþingi.

Snemma á föstudagsmorgun var svo haldið út úr bænum og keyrt í Reykholt þar sem  landsþing JCI var haldið. Á föstudag voru þingfundir, kosið um lagabreytingar, kákus (frambjóðendur til landsstjórnar með framboðsræður sínar), kosið um landsstjórn og svo var komið að ræðukeppninni. JCI Esja og JCI Reykjavík kepptu um bikarinn og var umræðuefnið "Það á að banna Facebook.com" og var JCI Reykjavík tillöguflytjandi (s.s. með því að banna). Keppnin var mjög spennandi og skemmtileg og var mikið hlegið.
Í kvöldmatnum voru svo úrslit úr ræðukeppninni og kosningu um landsstjórn kynnt. Ræðukeppnina unnu JCI Reykjavík en ég var ræðumaður dagsins (veeei).
Eftir kvöldmat héldu allir upp á herbergi til að taka sig til fyrir þemakvöldið. Þema landsþings var "fornar hetjur" en flestöllum datt einfaldasti búningurinn í hug - grískar hetjur - auðvelt að útbúa tóga. Mjög skemmtilegt kvöld.

Á laugardagsmorgun var svo námskeið með besta leiðbeinanda Evrópu (hann var valinn besti leiðbeinandinn á evrópuþingi JCI í vor), Filipe Carrera en hann kenndi okkur um tengslanet.
Eftir hádegismat hélt þingið svo áfram, fundir, open forum o.fl. Eftir það fengum við Tryggvi okkur lúr til að hlaða aðeins batteríin fyrir kvöldið, en það byrjaði á kokteil og svo Gala dinner.
Á Gala dinnernum voru úrslit úr Kvæðakútnum tilkynnt (fyrripartur var dreginn fram á föstudeginum og hafði maður til miðnættis að skila) og svo var verðlaunaafhending.

Nokkru fyrir landsþing var hægt að sækja um hin og þessi verðlaun og þurfti að skila inn ítarlegum umsóknum. Dómnefnd fór svo yfir þessar umsóknir og mitt aðildafélag, JCI Esja vann 14 verðlaun (næstum því öll :)). Ég fékk verðlaun (vei vei) fyrir Nýliða ársins! Tryggvi fékk verðlaun fyrir mestu aukningu á JC braut (s.s. fyrir hvað hann er búinn að vera duglegur), fyrir besta stjórnarmaninn og svo ein verðlaun sem var ekki hægt að sækja um heldur tilnefnir fjölskylda þess sem gaf bikarinn ræðumann ársins - sem var einmitt Tryggvi. Auk þessara verðlauna fékk Arna Björk verðlaunin leiðbeinandi ársins, Tómas fékk Mike Ashton bikarinn sem er mikill heiður, JCI Esja fékk svo verðlaun fyrir "verkefni ársins", "samstarf ársins", "forseti ársins", "aðildafélag ársins", "besta útgáfan", "besta heimasíðan", "mesta fjölgun og endurnýjun", "besta erlenda samstarfið" - held ég sé að fara rétt með þetta allt saman :)

Þvílíka bikaraflóðið - virkilega gaman að þessu.

En galakvöldið hélt áfram, eftir matinn var dansiball og náttfatapartý - allir fóru úr fínu fötunum og yfir í þægileg náttföt. Mjög gaman.

Við sváfum svo bara út á sunnudaginn, misstum af námskeiðinu sem var á sunnudagsmorgun en ekki skrýtið að við skyldum ekki vakna þar sem við höfum nánast ekkert sofið alla vikuna. Og nú er ég að skrifa blogg sem örugglega enginn nennir að lesa í heild sinni - klukkan tvö - í staðinn fyrir að sofa... já - ég er farin að sofa. Góða nótt :)


Eitt fjall á mánuði

..er markmiðið í þjálfuninni fyrir AstmaFjallgönguna. Á laugardaginn á að ganga upp á Esju en ég hef því miður ekki tíma til að fara með hópnum svo ég þarf að fara síðar í mánuðinum - ein (eða í góðra vina hópi).

Fór í læknisskoðun á þriðjudag og þolpróf í gær. Gekk sæmilega á þolprófinu, fór 1.72km á 12 mín, en ég veit að ég get betur. Kenni um þreytu, æfingaleysi og að ég tók ekki púst fyrir hlaupin. Til þess að komast upp í næsta þolstig þarf ég að fara 1.95km og ég veit alveg að ég get það ef ég legg mig fram.

Annars er nóg að gera í námskeiðshaldi, þessa dagana erum við að búa til leiðbeinendur, vegna þess að ég anna hreinlega ekki eftirspurninni fyrir námskeiðin - ég þarf jú líka að hafa smá tíma fyrir sjálfa mig - sem ég hef ekki haft þessa dagana.


Hvannadalshnjúkur í vor

Ég er búin að taka ákvörðun um að skrá mig í Astma-Fjallgöngu verkefnið :) Er einmitt á leiðinni í læknisskoðun í dag og í þolpróf á morgun. Spennandi að sjá hvernig ég stend mig núna í því eftir maraþonið. Er reyndar ekkert búin að hlaupa eftir maraþonið sem er alls ekki gott :( Hef bara ekki gefið mér tíma í það.

hnjúkurinn

En ég stend mig vel í súludansinum, er farin að öðlast meira öryggi á súlunni, þora að fara alveg upp og niður í armbeygju alveg ein, og farin að ná að halda mér aðeins meira uppi en fyrst. Þetta kemur með tímanum. Þegar námskeiðið er búið verð ég orðin mega klár í þessu LoL


10 dagar

þar til ég get sofið út...

yawn


Aldrei að segja aldrei og aldrei að segja ég get ekki

Einu sinni sagði ég: "Ég get ekki borðað hafragraut, ég kúgast bara af honum".
-Ég var að enda við að borða þennan fína hafragraut með bestu lyst.

Einu sinni sagði ég: "Ég myndi aldrei flytja á Vellina (í hfj)", og hneykslaðist á vinkonu minni að flytja þangað.
-Stuttu síðar flutti ég nánast við hliðina á vinkonu minni - í sömu götu, og líkar það ofboðslega vel.

Einu sinni sagði ég: "Ég gæti aldrei haldið einhverjar svona ræður fyrir framan fullt af fólki."
-Í dag er ég Mælskumeistari Íslands og fór út til Finnlands að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópuþingi JCI, þar sem ég stóð mig alveg einstaklega vel þó ég hafi ekki unnið þar (dómaraskandall)

Einu sinni hugsaði ég (á námskeiði í brjóstsykursgerð): "Það væri gaman að vera góður í að gera svona brjóstsykur en ég á örugglega aldrei eftir að vera góð í því."
-Í dag er ég reglulega með námskeið í brjóstsykursgerð og rek vefverslun sem selur allt til brjóstsykursgerðar.

Síðasta mánudag hugsaði ég: "Ég get ekkert hangið svona á hvolfi á súlunni.... JÚ VÍST ég get það alveg!" og svo hékk ég á hvolfi á súlunni.

Lærdómurinn er, aldrei að segja aldrei - og ég get allt sem ég vil!


Enn fleiri marblettir

Já, það er ekki tekið út með sældinni að æfa súludans. Í dag er ég með risa marbletti á báðum hnjám og vinstri upphandlegg auk þess sem ég er með smá brunasár á hægri rist og báðum úlnliðum, og svo aum í síðunum og mjöðmunum.

En mér tókst að halda mér á hvolfi á súlunni - með herkjum. Tekst betur næst! Þetta var nú líka bara annar tíminn hjá mér. Ég missti af tíma nr. 2 vegna þess að ég var að kenna brjóstsykursgerð og missti af tíma nr. 3 vegna þess að ég fékk mér aaaaðeins of mikið neðan í því í kúrekapartýinu. En ég held að þetta komi fljótt, þetta er eins og með að læra aðra dansa, erfitt fyrst og maður ruglast oft en svo kemur þetta bara. Bara að mæta vel og þá kemur tæknin og liðleikinn.


Astma fjallganga

Þátttöku minni í verkefninu Astma Maraþon 2008 lauk með 10km hlaupi mínu í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Það er óhætt að segja að þetta verkefni hafi breytt mínu lífi með því að opna augu mín og sparka í rassinn á mér. Ég er farin að hreyfa mig reglulega og finnst gaman af hreyfingu - og mér líður svo miklu miklu betur.

En nú er það stóra spurningin - á ég að taka þátt í næsta verkefni?

Astma- og ofnæmisfélagið er í samstarfi við AstraZenega o.fl. að starta nýju verkefni sem felst í því að klífa Hvannadalshnjúk í maí 2009.
Það væri nú ekki leiðinlegt að bæta þessu við afrekalistann minn :)

astma_fjallganga


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband