Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Æðisleg helgi að baki

Síðasta vika var æði strembin. Í vinnunni var verið að gefa út Markaðsvaktina svo það var nóg um að vera við að koma útgáfunni í gott stand og koma henni svo út. Í aukavinnunni var líka nóg að gera - námskeið og þriðjudag og fimmtudag. Svo var læknisskoðun og þolpróf fyrir astma fjallgönguna, æfing í súludansinum auðvitað og svo æfingar fyrir ræðukeppnina sem fór fram á landsþingi.

Snemma á föstudagsmorgun var svo haldið út úr bænum og keyrt í Reykholt þar sem  landsþing JCI var haldið. Á föstudag voru þingfundir, kosið um lagabreytingar, kákus (frambjóðendur til landsstjórnar með framboðsræður sínar), kosið um landsstjórn og svo var komið að ræðukeppninni. JCI Esja og JCI Reykjavík kepptu um bikarinn og var umræðuefnið "Það á að banna Facebook.com" og var JCI Reykjavík tillöguflytjandi (s.s. með því að banna). Keppnin var mjög spennandi og skemmtileg og var mikið hlegið.
Í kvöldmatnum voru svo úrslit úr ræðukeppninni og kosningu um landsstjórn kynnt. Ræðukeppnina unnu JCI Reykjavík en ég var ræðumaður dagsins (veeei).
Eftir kvöldmat héldu allir upp á herbergi til að taka sig til fyrir þemakvöldið. Þema landsþings var "fornar hetjur" en flestöllum datt einfaldasti búningurinn í hug - grískar hetjur - auðvelt að útbúa tóga. Mjög skemmtilegt kvöld.

Á laugardagsmorgun var svo námskeið með besta leiðbeinanda Evrópu (hann var valinn besti leiðbeinandinn á evrópuþingi JCI í vor), Filipe Carrera en hann kenndi okkur um tengslanet.
Eftir hádegismat hélt þingið svo áfram, fundir, open forum o.fl. Eftir það fengum við Tryggvi okkur lúr til að hlaða aðeins batteríin fyrir kvöldið, en það byrjaði á kokteil og svo Gala dinner.
Á Gala dinnernum voru úrslit úr Kvæðakútnum tilkynnt (fyrripartur var dreginn fram á föstudeginum og hafði maður til miðnættis að skila) og svo var verðlaunaafhending.

Nokkru fyrir landsþing var hægt að sækja um hin og þessi verðlaun og þurfti að skila inn ítarlegum umsóknum. Dómnefnd fór svo yfir þessar umsóknir og mitt aðildafélag, JCI Esja vann 14 verðlaun (næstum því öll :)). Ég fékk verðlaun (vei vei) fyrir Nýliða ársins! Tryggvi fékk verðlaun fyrir mestu aukningu á JC braut (s.s. fyrir hvað hann er búinn að vera duglegur), fyrir besta stjórnarmaninn og svo ein verðlaun sem var ekki hægt að sækja um heldur tilnefnir fjölskylda þess sem gaf bikarinn ræðumann ársins - sem var einmitt Tryggvi. Auk þessara verðlauna fékk Arna Björk verðlaunin leiðbeinandi ársins, Tómas fékk Mike Ashton bikarinn sem er mikill heiður, JCI Esja fékk svo verðlaun fyrir "verkefni ársins", "samstarf ársins", "forseti ársins", "aðildafélag ársins", "besta útgáfan", "besta heimasíðan", "mesta fjölgun og endurnýjun", "besta erlenda samstarfið" - held ég sé að fara rétt með þetta allt saman :)

Þvílíka bikaraflóðið - virkilega gaman að þessu.

En galakvöldið hélt áfram, eftir matinn var dansiball og náttfatapartý - allir fóru úr fínu fötunum og yfir í þægileg náttföt. Mjög gaman.

Við sváfum svo bara út á sunnudaginn, misstum af námskeiðinu sem var á sunnudagsmorgun en ekki skrýtið að við skyldum ekki vakna þar sem við höfum nánast ekkert sofið alla vikuna. Og nú er ég að skrifa blogg sem örugglega enginn nennir að lesa í heild sinni - klukkan tvö - í staðinn fyrir að sofa... já - ég er farin að sofa. Góða nótt :)


Eitt fjall á mánuði

..er markmiðið í þjálfuninni fyrir AstmaFjallgönguna. Á laugardaginn á að ganga upp á Esju en ég hef því miður ekki tíma til að fara með hópnum svo ég þarf að fara síðar í mánuðinum - ein (eða í góðra vina hópi).

Fór í læknisskoðun á þriðjudag og þolpróf í gær. Gekk sæmilega á þolprófinu, fór 1.72km á 12 mín, en ég veit að ég get betur. Kenni um þreytu, æfingaleysi og að ég tók ekki púst fyrir hlaupin. Til þess að komast upp í næsta þolstig þarf ég að fara 1.95km og ég veit alveg að ég get það ef ég legg mig fram.

Annars er nóg að gera í námskeiðshaldi, þessa dagana erum við að búa til leiðbeinendur, vegna þess að ég anna hreinlega ekki eftirspurninni fyrir námskeiðin - ég þarf jú líka að hafa smá tíma fyrir sjálfa mig - sem ég hef ekki haft þessa dagana.


Hvannadalshnjúkur í vor

Ég er búin að taka ákvörðun um að skrá mig í Astma-Fjallgöngu verkefnið :) Er einmitt á leiðinni í læknisskoðun í dag og í þolpróf á morgun. Spennandi að sjá hvernig ég stend mig núna í því eftir maraþonið. Er reyndar ekkert búin að hlaupa eftir maraþonið sem er alls ekki gott :( Hef bara ekki gefið mér tíma í það.

hnjúkurinn

En ég stend mig vel í súludansinum, er farin að öðlast meira öryggi á súlunni, þora að fara alveg upp og niður í armbeygju alveg ein, og farin að ná að halda mér aðeins meira uppi en fyrst. Þetta kemur með tímanum. Þegar námskeiðið er búið verð ég orðin mega klár í þessu LoL


10 dagar

þar til ég get sofið út...

yawn


Aldrei að segja aldrei og aldrei að segja ég get ekki

Einu sinni sagði ég: "Ég get ekki borðað hafragraut, ég kúgast bara af honum".
-Ég var að enda við að borða þennan fína hafragraut með bestu lyst.

Einu sinni sagði ég: "Ég myndi aldrei flytja á Vellina (í hfj)", og hneykslaðist á vinkonu minni að flytja þangað.
-Stuttu síðar flutti ég nánast við hliðina á vinkonu minni - í sömu götu, og líkar það ofboðslega vel.

Einu sinni sagði ég: "Ég gæti aldrei haldið einhverjar svona ræður fyrir framan fullt af fólki."
-Í dag er ég Mælskumeistari Íslands og fór út til Finnlands að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópuþingi JCI, þar sem ég stóð mig alveg einstaklega vel þó ég hafi ekki unnið þar (dómaraskandall)

Einu sinni hugsaði ég (á námskeiði í brjóstsykursgerð): "Það væri gaman að vera góður í að gera svona brjóstsykur en ég á örugglega aldrei eftir að vera góð í því."
-Í dag er ég reglulega með námskeið í brjóstsykursgerð og rek vefverslun sem selur allt til brjóstsykursgerðar.

Síðasta mánudag hugsaði ég: "Ég get ekkert hangið svona á hvolfi á súlunni.... JÚ VÍST ég get það alveg!" og svo hékk ég á hvolfi á súlunni.

Lærdómurinn er, aldrei að segja aldrei - og ég get allt sem ég vil!


Enn fleiri marblettir

Já, það er ekki tekið út með sældinni að æfa súludans. Í dag er ég með risa marbletti á báðum hnjám og vinstri upphandlegg auk þess sem ég er með smá brunasár á hægri rist og báðum úlnliðum, og svo aum í síðunum og mjöðmunum.

En mér tókst að halda mér á hvolfi á súlunni - með herkjum. Tekst betur næst! Þetta var nú líka bara annar tíminn hjá mér. Ég missti af tíma nr. 2 vegna þess að ég var að kenna brjóstsykursgerð og missti af tíma nr. 3 vegna þess að ég fékk mér aaaaðeins of mikið neðan í því í kúrekapartýinu. En ég held að þetta komi fljótt, þetta er eins og með að læra aðra dansa, erfitt fyrst og maður ruglast oft en svo kemur þetta bara. Bara að mæta vel og þá kemur tæknin og liðleikinn.


Astma fjallganga

Þátttöku minni í verkefninu Astma Maraþon 2008 lauk með 10km hlaupi mínu í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Það er óhætt að segja að þetta verkefni hafi breytt mínu lífi með því að opna augu mín og sparka í rassinn á mér. Ég er farin að hreyfa mig reglulega og finnst gaman af hreyfingu - og mér líður svo miklu miklu betur.

En nú er það stóra spurningin - á ég að taka þátt í næsta verkefni?

Astma- og ofnæmisfélagið er í samstarfi við AstraZenega o.fl. að starta nýju verkefni sem felst í því að klífa Hvannadalshnjúk í maí 2009.
Það væri nú ekki leiðinlegt að bæta þessu við afrekalistann minn :)

astma_fjallganga


Wall-E

Horfði á Wall-E í gær og hún er baaara sæt. Það er alveg ótrúlegt hvað er hægt að sýna mikið af tilfinningum án orða og hvað þá með svona kassalaga vélmenni. Sjáið bara hvað hann er sætur og einlægur.

 wall-e

Var reyndar að hugsa til þessarar myndar í dag og þá hvað það var margt sem var hægt að setja út á, en svo hugsaði ég - æj þetta er nú bara sæt og skemmtileg teiknimynd - fyrir börn. Efast um að börnin taki mikið eftir þessu.

Það er ekki eins og þetta hafi verið eins og í einhverri teiknimynd sem ég sá þar sem nautið var með júgur!

 

Annars er ég búin að eyða miklum hluta af deginum í mjög vanabindandi leik - idiot. Takk Einar :) 


Kúrekastelpa

Í dag er ég kúrekastelpa. Ég er fína frúin í bænum, kona bæjarstjórans, í fínu brúnu flauelspilsi, brúnum fínum kúrekastígvélum, með perlufesti, perlueyrnalokka og perluarmband og í hvítri skyrtu. Og með byssu.

Kveðjupartý fyrir Þröst í kvöld, kúrekaþema. Ég ákvað bara að vera fína bæjarstjórafrúin í allan dag. Beint eftir vinnu skelli ég mér þó í dirty kúrekagallann - þó kúrekalegur sé hann ekki (bara flíspeysa, jakki, hlífðarbuxur og grófir útivistarskór) því þá förum við í skotfimi. Eftir skotfimina komum við aftur upp í vinnu - þá verð ég aftur fín bæjarstjórafrú - og þá verður grill og partý - póker og læti.


Bara gaman

Fyrsti tíminn í súludansinum búinn og þetta er bara alveg ferlega skemmtilegt en vá hvað þetta er erfitt. Það er ekki beint hægt að segja að maður hafi verið neitt sérlega glæsilegur á súlunni - stirð og klaufaleg - eins og belja á... súlu. Og það er óhætt að maður verður blár og marinn eftir þetta - ég er strax komin með þvílíku marblettina á vinstra hnéð og ofan á hægri rist (don't ask me) og er aum á nokkrum stöðum til viðbótar.

En með því að stunda þetta áfram á ég þokkalega eftir að standast markmiðin sem sett voru í heilsuátakinu í vinnunni - mínus 5kg af fitu og plús 2kg af vöðvum :)
Nú þegar er ég búin að missa ca. 7kg á tæpum 10 vikum :)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband