Færsluflokkur: Bloggar

Amsterdam - Part one

Ferðin til Amsterdam var frábær.
Ætla að koma hér með ferðasöguna í þremur hlutum (einn fyrir hvern dag, sunnudagurinn tekinn með laugardeginum).

Dagur 1 - Fimmtudagur 1. maí.
Vaknað snemma til þess að fara út á völl, tékkuðum okkur inn í rafrænu check-in sem var algjör snilld. Þurftum því ekki að bíða í mjög langri röð til þess að komast í það og svo önnur stutt röð til að skila af okkur töskunum.
Og í fyrsta skipti í ég veit ekki hvað langan tíma (væntanlega þar sem ég ferðast alltaf með lággjaldaflugfélögum) þurfti ég ekki að fara í hlið sem var langt að ganga í, við vorum barasta í hliði 1. Flugvélin sem við fórum í var þó ekki sú besta, minna pláss heldur en í express vélunum, mjög lítið fótapláss!
En út komumst við heil á húfi. Miður dagur í Amsterdam og byrjað á því að koma sér fyrir inni á herbergi. Hótelið, Radisson Sas, var mjög flott. Það er byggt úr mörgum gömlum húsum og lobbýið er yfirbyggt með glerþaki. Við vorum á efstu hæð í lægsta húsinu (3 hæðir, hin voru 4 hæðir) og fengum mjög flott og kósí herbergi.
Þessi dagur var tekinn mjög rólega. Röltum aðeins um bæinn og fengum okkur að borða. Fundum okkur svo flottan stað til að borða um kvöldið sem við sáum í blaði uppi á hóteli. þar komu Inger og Níels og hittu okkur. Maturinn þar var alveg frábær og stóðst allar væntingar (set inn myndir síðar, jú ég tók nú líka myndir af fólkinu Wink).
Eftir matinn kíktum við aðeins í rauða hverfið sem var mjög áhugavert. Konur í öllum gluggum (í sumum tilfellum mjög ungar og maður spurði sig hvort hún hefði aldur) og sumsstaðar dregið fyrir sem þýddi auðvitað að þar væri eitthvað action í gangi. Á einum stað sáum við að það var hópur af karlmönnum fyrir utan og fórum að velta fyrir okkur hvað væri í gangi þar. Þegar við komum þar að var löng biðröð af mönnum á leið inn og við heyrðum svo "only five euros"... Ok semsagt eitthvað tilboð í gangi..
En jæja, eftir að við höfðum skoðað okkur aðeins um þarna var haldið heim að sofa.


Þrjár góðar bækur

Í gærkvöldi var lokakvöld í Dale Carnegie. Síðustu 12 vikur hef ég verið að aðstoða þjálfara og eytt kvöldinu með frábærum konum. Ég var með tárin í augunum þegar við vorum að kveðjast því við erum margar búnar að tengjast sterkum böndum. Stelpurnar höfðu plottað og gáfu okkur aðstoðarmönnunum og þjálfaranum gjafir. Hver millihópur gaf sinni konu (s.s. ég fékk frá mínum millihóp) áritaða bók, og allar konurnar saman gáfu Láru þjálfaranum. Þetta er mjög falleg og skemmtileg bók um það hvernig vatn kristallast misjafnt þegar það er fryst eftir því hvernig er talað við það eða hvort það er nálægt örbylgju eða farsíma eða hvernig tónlist er spilað fyrir það. Þetta var einhver svakaleg rannsókn sem var gerð og það sem kom út úr henni er alveg stórmerkilegt, þegar var talað fallega við vatnið þá kristallaðist það mjög fallega og einmitt öfugt ef óyrðum var hreytt í það. Það er hægt að lesa um þetta hér: http://www.life-enthusiast.com/twilight/research_emoto.htm 

Þegar ég kom heim í gærkvöldi beið mín lítill pakki sem ég mátti opna strax og blómvöndur. Í kortinu utan á pakkanum stóð að þetta væri "fyrirafmælisgjöf" og alvöru pakkann fengi ég síðar. Í pakkanum var svo bókin Ungfrú Stríðin :) Já það er nafn á mig með rentu - ég setti reglu heima hjá mér, bannað að stríða eftir kl. 22 - ekki af því að það væri alltaf verið að stríða mér heldur svo ég hafi einhver mörk á stríðninni minni :) Þetta var semsagt pakki frá Tryggva.

Í morgun beið mín svo pakki í bréfalúgunni. Kortið var mjög skemmtilegt, utan á því stóð "Hamingjuóskir á brúðkaupsdaginn". Smá húmor þar :) Inni í kortinu voru svo stutt og góð skilaboð, "Til hamingju með afmælið litla systir, þinn stóri bróðir". Og inni í bakkanum var bókin Hugmyndabókin (The idea book), 250 blaðsíður af hugmyndum og 250 auðar blaðsíður fyrir hugmyndir. Snilldarbók með allskonar góðum hugmyndum sem fær mann til að hugsa og með áskoranir um að fara út fyrir kassann. Algjör snilld :) Takk Hermann og Júlía :)

Já, afmælisdagurinn er fallegur þó það sé kalt og rok en framtíðin er björt og lífið er rétt að hefjast :)

Það verður skálað í vinnunni í dag (reyndar ekki í tilefni af afmælinu mínu - en þó skemmtilegt að allir í vinnunni séu að skála þennan dag). Í síðustu viku kom yfirmaðurinn með lítinn kæliskáp, límdi á hann logo Loka og Genius, setti inn í hann 3 freyðivínsflöskur, setti miða inn í hann þar sem stendur 30.4.2008. Lokaði honum svo, setti keðju utan um hann og lokaði með hengilás. Það á semsagt að fara að fagna einhverjum áföngum. Ekki leiðinlegt það. Ég er að hugsa um að fara út í búð og kaupa kex og osta og kannski kavíar í tilefni afmælisdagsins því það passar betur við freyðivín heldur en gúmmelaðikökur.

Amsterdam eftir ekkert of langan tíma..


Amsterdam

Í gær komst ég að því að ég er á leiðinni til Amsterdam í árshátíðarferð með vinnunni. Ekki amalegt það.

Amsterdam-Bridge

Það er semsagt búið að halda okkur í "myrkrinu" í ansi langan tíma með hvert við erum að fara en í gær var ratleikur þar sem við fengum að komast að því í lokin hvert við færum. Ferlega skemmtilegur ratleikur nema hvað að ég er að drepast úr harðsperrum núna eftir öll lætin (hlaupa út um allan bæ).

En mikið hlakka ég til að heimsækja Amsterdam :)


Hann byrjaði..

Já einmitt... þetta er lausnin. Beita ofbeldi á móti ofbeldi.
Það eru alveg tvær sögur þarna. Fólk sem segir að lögregla hafi verið allt of harkaleg, lögregla sem segir að það hafi þurft að grípa til aðgerða vegna stórnleysi í fólki.
Hver svo sem átti upptökin, þá hefði þetta aldrei átt að enda í einhverju ofbeldi.
Saga sem ég las um að "steinakastarinn" (sem var svo víst ekki steinakastarinn) hafi verið eltur uppi af fimm lögreglumönnum, barinn og sparkað í hann er ekki falleg. Þannig hegðun löggæslumanna á sannarlega ekki rétt á sér og hefur skemmandi áhrif á virðingu gagnvart henni í heild. Þannig löggæslumenn þarf að taka alvarlega á teppið.
En svo eru það þessi skrílslæti sem voru á staðnum. Hvað í ósköpunum var það? Hvað er málið með að henda eggjum í lögregluna? Hvað hefur það eiginlega upp á sig? Hvað hefur það líka upp á sig að ráðast á lögregluna eins og ég sá nú glögglega í útsendinunni hjá rúv?? Það á ekki rétt á sér heldur.
Hvort sem lögreglan hefur beitt einhverri valdníðslu eða ekki, er þá rétta svarið að beita ofbeldi til baka?
Minnir mig eiginlega á slagsmál í leikskóla. "Hann byrjaði!" - "Nei hann byrjaði"
mbl.is Grjótkastari segir lögreglu hafa sýnt valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar tölur

Jæja jæja.. ætla að skella einu "heilsu"bloggi hér inn. Er hvort eð er alveg hætt með "heilsu"bloggið á "heilsu"blogg síðunni.

15. janúar fór ég í heilsufarsmælingu í upphafi átakskeppni í vinnunni. Þar mældist ég ekkert sérlega vel. Jú blóðsykur og kólesteról var fínt en þol, þyngd og fitu% var ekki gott. Ég fékk þó engan fílukall, bara :| og :) kalla.

Til þess að taka á þessu fór ég að hlaupa. Enda er ég að æfa fyrir maraþon (stefni á 10km). Viðurkenni þó fúslega að ég hef ekki verið dugleg en hef þó ekki setið eins mikið á rassinum og ég hefði gert annars (eða áður).

Í morgun fór ég svo í seinni heilsufarsmælinguna. Úff. Já Úff. Það eina sem ég get sagt. Það mætti halda að ég hafi ekki verið að gera neitt. Jú, einn :| breyttist í sem sést í þolinu - þannig að öll þessi hlaup hafa þá verið að skila einhverju smá:)

Hér koma tölurnar:

15.1.200822.4.2008
Þyngd/Bmi68.6/26.5:|71.3/27.5:|
Fituhlutfall(%)36.6:|36.9:|
Mittismál81:)81:)
Blóðþrýstingur105/70:)100/70:)
Kólesteról4.89:)4.31:)
Blóðsykur4.9:)4.5:)
Þoltala27.5:|31:)

Og þar hafið þið það.. spurning hvort maður þurfi ekki að gefa í núna ef maður ætlar að taka þátt í maraþoni!


Brjóstsykursgerð

Í gærkvöldi var ég með lítið brjóstsykursgerðarnámskeið fyrir vinnufélaga og verð ég með annað eins í kvöld. Í næstu viku verð ég svo með námskeið í brjóstsykursgerð fyrir JCI félaga.

Eftir það hugsa ég að ég opni fyrir brjóstsykursgerðarnámskeið fyrir almenning. Þetta er bara svo skemmtilegt og ef fólk byrjar að læra brjóstsykursgerð í sumar, þá hefur það nægan tíma til að spá og spökulera og kaupa sér brjóstsykursgerðarkit fyrir jólin.

Ég veit að ég ætla að gefa svolítið af brjóstsykri í jólagjafir.

Það er líka hægt að gera svo mikið í brjóstsykurgerðinni ef maður leyfir huganum að fara á flug. Lára kokkur var með allskonar funky hugmyndir í gær og voru vinkonur hennar aðeins að halda aftur af henni :) En í gær gerðum við appelsínubrjóstsykur, grænan hálsbrjóstsykur með salmíakbragði, lakkrísbrjóstsykur með lakkrís/salmíakblöndu utan á og svo bleikan anísbrjóstsykur með lakkrís/salmíak fyllingu (sem tókst misvel en fallegur var hann og bragðgóður). Græni hálsbrjóstsykurinn var geggjað góður þó það hefði mátt vera meiri mentol kristallar í honum..

En brjóstsykursgerð er afskaplega skemmtilegt sport og ég mæli með að þá sem langa að prófa setji sig í samband við mig og komi á námskeið hjá mér :)


Fyrsti bikarinn minn

..er sko engin smásmíði. Risastórt þungt flykki sem ég er afskaplega stolt af. Reyndar er þetta farandbikar svo ég fæ hans aðeins notið í eitt ár, en nafn mitt mun verða greipt í hann og vera á honum til minningar um sigur minn.

bikar

Og í hverju ætli ég hafi unnið sigur spyrja sig líklega einhverjir.
Ég keppti í Mælskukeppni einstaklinga hjá JCI síðastliðið föstudagskvöld og bar sigur úr bítum þar. Fyrir þennan sigur fékk ég evrópuþingpakka, er semsagt á leiðinni til Turku í Finnlandi í byrjun júní að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópuþingi JCI. Að keppa við bestu ræðumenn Evrópu :-)
Svo nú er ekkert annað að gera en að snara ræðunni yfir á ensku og æfa sig vel með aðstoð góðra þjálfara :-)

Ég er ekkert smá stolt af þessum árangri mínum og ég vil þakka öllu því góða fólki sem hefur átt þátt í því að styrkja mig og efla og ná svona góðum árangri (nota bene - fólk veit ekkert endilega af því hvernig áhrif það hefur á fólkið í kringum sig, það gerist oft alveg óafvitandi). Í þeim hópi eru að sjálfsögðu fjölskylda, vinir, vinnufélagar, fólkið hjá Dale Carnegie og auðvitað hið elskulega fólk í JCI!


Office pranks

Þeir eru svoooo skemmtilegir - þegar maður lendir ekki í þeim sjálfur Smile Nei nei maður hefur nú húmor sjálfur ;-)

Setja límmiða undir músina - taka músina úr sambandi - skipta um mynd á skjánum - og ýmislegt fleira í þeim dúr Whistling 


Pósturinn

Um daginn fékk ég bréf frá póstinum um að mér hafi borist böggull og að þar sem ég hafi ekki verið heima þegar komið var með hann heim til mín þá þurfi ég að sækja hann sjálf.

Ohh. Það þýðir að ég þarf að gera mér ferð á pósthúsið í Hafnarfirði, þangað þarf ég að ná fyrir kl. 18 einhvern daginn. Ég er að vinna til fimm og tvisvar í viku er ég upptekin eftir vinnu svo ekki kemst ég þá daga. Svo ég þarf að taka frá tíma einhvern af hinum dögunum til að drífa mig heim og á pósthúsið. Ekki gerði ég það í gær þar sem ég kíkti til Tryggva í Ármúlann og fór svo með honum til Trausta í Allra8 að hjálpa honum að veggfóðra einn vegg. Ég veit ekki hvort ég kemst í dag því kannski fer ég til Tryggva að æfa mig fyrir ME og við fáum okkur eitthvað gott að borða saman - kannski fer ég heim og næ þá að sækja pakkann.

Það væri svo þægilegt ef ég gæti skotist í hádeginu á pósthús í nágrenni við vinnuna. En það er auðvitað ekki hægt þar sem pakkinn er í öruggri geymslu í pósthúsinu í Hafnarfirði.

En ég sé fyrir mér framtíðina. Í framtíðinni verður þetta hægt. Þá fer ég á næsta pósthús sem hefur samband við móðurstöð þar sem allir pakkar landsmanna eru geymdir. Móðurstöðin setur pakkann í þar til gert tæki sem flytur pakkann á nokkrum sekúndum yfir á pósthúsið þar sem ég er stödd. Fjarflutningar. Þá er hægt að spara pláss á hverri póststöð fyrir sig og hafa eina stóra móðurstöð. Bara snilld.

"Beam me up Scotty" :-)


Þetta eru hetjur

Ég var einmitt að tala um þetta á laugardagskvöldið - eða réttarasagt aðfararnótt sunnudags þegar við fórum í 10-11 til þess að byrgja okkur upp af þynnkunammi fyrir sunnudaginn, að starfsmenn 10-11 í Austurstræti eru hetjur. Hvort sem það eru afgreiðslufólk eða öryggisverðir, þá eru þetta hetjur. Að nenna að afgreiða blindfullt fólk um helgar.. eitthvað sem ég veit að ég myndi aldrei nokkurntíma nenna að standa í.


mbl.is Telur árásina hefndaraðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband